(www.framfarir.net)
Sennilega er nær útilokað að gera fulla grein fyrir stöðu innflytjendamála í Bandaríkjanna í stuttri grein enda um að ræða afskaplega yfirgripsmikið mál og flókið. Ætlunin er þó með þessari grein að draga saman það helzta sem til álita kemur þegar þessi mál eru skoðuð. Bandaríkin, líkt og önnur vestræn ríki, hafa aldrei upplifað annan eins innflytjendastraum í sögu sinni eins og þann sem nú gengur yfir landið. Þegar hæst lét í innflytjendastrauminum til landsins, í kringum aldamótin 1900, var fjöldinn meira en helmingi lægri en hann er í dag.
Eins og staðan er í dag veita bandarísk stjórnvöld árlega um 700 til 900 þúsund löglegum innflytjendum varanlegt dvalarleyfi í landinu, þ.e. svokölluð græn kort. Árlegur heildarfjöldi löglegra innflytjenda til Bandaríkjanna hleypur hins vegar á einhverjum milljónum manna og eykst um rúmlega eina milljón á hverju ári. Til viðbótar eignast innflytjendur í Bandaríkjunum árlega um 750 þúsund börn að meðaltali.
Á tímabilinu 1990 til 1999 komu að meðaltali um 1,3 milljónir innflytjenda til Bandaríkjanna á ári hverju. Frá janúar 2000 og fram í mars 2002 komu 3,3 milljónir innflytjenda til landsins til viðbótar. Núverandi fjöldi þeirra íbúa Bandaríkjanna, sem fæddir eru erlendis, er rúmlega 33 milljónir manna sem samsvarar um 11,5% af heildaríbúafjölda landsins.
Árið 1980 gerðu bandarísk stjórnvöld ráð fyrir að ekki væri tekið á móti fleiri en 50 þúsund flóttamönnum árlega. Síðan 1995 hafa Bandaríkin hins vegar tekið við um 80 þúsund flóttamönnum árlega að meðaltali. Fjöldi flóttamanna árið 2000 var þannig t.a.m. um 90 þúsund manns.
Að mati bandaríska útlendingaeftirlitsins eru um 6 milljónir ólöglegra innflytjenda í Bandaríkjunum um þessar mundir. Inni í þeirri tölu eru þó ekki um 2,7 milljónir ólöglegra innflytjenda sem veitt var hæli í landinu með sérstökum lögum árið 1986. Fjöldi ólöglegra innflytjenda til Bandaríkjanna eykst síðan um 500 þúsund manns árlega að mati bandarísku hagstofunnar.
Um 40% af ólöglegum innflytjendum í Bandaríkjunum býr í Kaliforníu. Bandaríska útlendingaeftirlitið telur að um 60% ólöglegra innflytjenda komi til landsins með því að laumast yfir landamærin og afgangurinn með því að halda áfram að dvelja í landinu eftir að dvalarleyfi þeirra renna út.
Kostnaður Bandaríkjanna af innflytjendamálum landsins er talinn vera um 11 til 22 milljarðar dollara á ári (um 880 til 1.760 milljarðar íkr.) að mati opinberra aðila (National Research Council). Ástæður þessa mikla kostnaðar eru m.a. þær að innflytjendur greiða litla sem enga skatta, þar sem þeir eru allajafna lítt menntaðir og því yfirleitt í láglaunastörfum, og að þeir eru allajafna meiri byrði á opinberum aðilum, aðallega vegna almennrar fátæktar meðal þeirra auk þess sem þeir eignast að meðaltali mun fleiri börn en innfæddir.
Þetta á einkum við um ólöglega innflytjendur. Þó ólöglegir innflytjendur séu ekki mikil byrði á velferðarkerfinu, þar sem þeir fá yfirleitt ekki aðgang að því, þá er kostnaður hins opinbera af þeim mjög mikill m.a. vegna menntamála, glæpa og neyðarmóttöku á sjúkrahúsum. Sem dæmi má nefna að Kalifornía hefur áætlað að kostnaður ríkisins vegna ólöglegra innflytjenda sé nú um 3 milljarðar dollara á ári (um 240 milljarðar íkr.).
(Heimild: Center for Immigration Studies - www.cis.org)
Hjörtur J. Hjarta
Með kveðju,