Það kætir mitt litla geð þegar eftirlitsstofnanir ríkisvaldsins setja ofan í við yfirgangsstjórn Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar. Í kjölfarið á dómi Hæstaréttar hefur margt sniðugt komið fram en það sem mér finnst allra best er hinn hrikalegi hægagangur í stjórnvöldum í þessu máli. Eru menn alveg búnir að gleyma því að rétt fyrir jólaleyfi alþingis sagðist Davíð ekkert skilja í því að stjórnarandstaðan ætlaði sér að hægja á sameiningu ríkisbankanna. Hann sagði að menn ættu heldur að taka sér Íslandsbanka og FBA til fyrirmyndar þar sem sameining fór fram á örfáum dögum og lagði ríka áherslu á þessa örfáu daga. Svo þarf þessi einfalda breyting á greiðslukerfi Tryggingastofunar að taka heillangan tíma og þeir kumpánar, Davíð og Halldór tönnslast á því að nú þurfi að ígrunda málin vel og fara að öllu með gát.

Ég tel þetta vera ótvírætt merki þess að markaðshyggja sé búin að ná þvílíkum tökum á landsstjórninni að grundvallarmannréttindi þeirra sem minna mega sín eru nú komin í annað sæti. Af hverju má ekki setja þessi lög á örskömmum tíma eins og hann ætlaði þingheimi að sameina ríkisbankana? Er það kannski af því að þeim fylgir ekki hagræðing? Er ekki fullmikil kapítalistalykt af þessu öllu saman.

Og af hverju er Davíð að velta fyrir sér breytingum á lögum um Hæstarétt þegar hann á að vera að velta fyrir sér breytingum á lögum um Tryggingastofnun. Er hann kannski pirraður?