Lífið er pólitík. Það er staðreynd sem erfitt er að horfa fram hjá og hún er augljós ef tekið er tillit til þess að lífið snýst mikið um ákvaraðanatöku einstaklingsins, völd hans og áhrif, atvinnu og menntun, eignir og áhugamál og síðast en ekki síst fjölskyldu hans. Maðurinn er að mörgu leyti ráðandi um eigið líf, en því fer fjarri að hann sé einráður um það. Inn í líf mannanna koma nefnilega úr hendi stórnmálanna meiri og fleiri áhrifaþættir en margan grunar.
Í þjóðfélögum eins og því sem við búum í er ekki sjálfgefið að fólk festist algjörlega í einhverju mynstri, eins og til dæmis stéttum, og verði þannig kynslóð eftir kynslóð án verulegra möguleika á breytingum. Slíkt má fremur sjá víða erlendis og er nærtækasta dæmið England eða öllu heldur Stóra-Bretland. Þar hefur afar fastmótuð stéttaskipting jafnan verið ríkjandi þáttur í mannlífinu langt umfram það sem gerist í nágrannalöndunum. Fólk fæðist inn í ákveðna “klassa” og ekki er hlaupið að því að komast upp á við í þjóðfélagsstiganum. Tungan og hreimurinn skipta ekki litlu máli í þessari sambandi. Enska háttsettra og lægra settra er ekki lík svo vægt sé til orða tekið. Hreimurinn heyrist alltaf og því er ekki hlaupið að því fyrir lágstéttafólk, sem kann að færast eitthvað til upp á við í stiganum, að verða gjaldgengt meðal millistéttarinnar. Enginn getur neitað því að aðgerðir eða athafnaleysi stjórnvalda í að draga úr stéttamismunun hafi áhrif á stéttaskiptinguna og þá um leið á lífshætti fólks. Hér á landi er ekki eins afgerandi skipting og í Englandi en þó koma stjórnmálin ekki minna við líf okkar en þar. Að halda því fram til streitu að stjórnmál komi þér ekki við er að berja hausnum við stein.
Til eru þeir sem enga skoðun hafa á málum og neita því að þeim komi við hvernig hlutirnir eru. Það að hafa ekki skoðun og “vera sama” er vissulega möguleiki. En þú þarft ekkert endilega að setja þig inní umræðuna um veiðileyfagjaldið til þess að vera pólitískur eða gaspra sýknt og heilagt um einhverjar stjórnmálastefnur og höfunda þeirra eins og þú sérst vitandi allt um allt. Það er hægt að leiða hjá sér algjörlega allt pólitískt amstur og líta svo á að það komi þér ekki við. En með því móti ertu meðvitaður um að þú sérst ekki inn í málum og um leið ertu að taka afstöðu, en það er jú það sem stjórnmál ganga út á. Það að vera áhugalaus og afskiptur um stjórnmál er þannig vissulega pólitík í sjálfu sér. Afstöðuleysi fólks ætti að kalla á forystu flokkanna um að breyta og reyna að ná betur út til fólks. Hér á landi er kjörsókn enn yfir 80% og oft nær 90% í kosningum, en þess er ef til vill ekki langt að bíða að hún dali stórlega, þá eru góð ráð dýr eða hvað? Dæmin frá kosningum í Bandaríkjunum sýna tiltölulega litla eða minnkandi almenna kjörsókn og virðist um helmingur þjóðarinnar láta sér á sama standa um hvað gerist á þeim vettvangi. Stjórnmál eru auðvitað misáhugaverð eins og annað í lífinu, en með því að setja sig inn í helstu málaflokka og fylgjast að einhverju marki með umræðunni, þá ertu að hafa áhrif sem kannski smátt og smátt leiða til einhvers betra.
Af þessari umræðu er ljóst að það er óraunhæft að líta svo á að stjórnmál skipti ekki máli. Þau hafa áhrif á líf hvers og eins. Og það er ekki heldur hægt að vera ópóltískur. Í því felst afstaða og öll afstaða hefur áhrif í stjórnmálum hvort heldur sem þau eru mikil eða lítil.