Enn eitt fjármálahneykslið hjá flokksgæðingum sem búið er að planta í ríkisstofnun. Þetta er bara dæmi um að núverandi ráðamenn eru búnir að sitja of lengi að kjötkötlunum og eru orðnir værukærir. Þjóðmenningarhúsið, Bygginganefnd Þjóðleikhússins, Dómsmálaráðuneytið ofl. ofl. Halda flokksgæðingar sem eru settir á spenann að þeir geti skammtað sér og sínum að vild? Er ekki kominn tími til að skipta algjörlega um stjórn. Það er engum hollt að vera of lengi við völd. Ég held að við getum öll verið sammála um það.

Frétt rúv:
Ríkisendurskoðun hefur gert alvarlegar athugasemdir við fjölmörg atriði í fjármála- og eignaumsýslu Löggildingarstofu undanfarin ár. Í framhaldi af því hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra óskað skýringa frá forstjóra stofnunarinnar. Gerðar eru athugasemdir meðal annars við bifreiðakaup án heimildar, kaup á ýmsum búnaði sem ekki finnst í stofnuninni og greiðslur verktakalauna til ættingja yfirmanna. Forstjórinn segir að nú þegar hafi verið bætt úr í flestum atriðum.
Starfsemi Löggildingarstofu var tekin til sérstakrar skoðunar í framhaldi af endurskoðun ársreiknings fyrir árið 2001. Niðurstaða þessarar sérstöku skoðunar, að teknu tilliti til athugasemda Löggildingarstofu, þykja það alvarlegar að Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur krafið forstjóra stofnunarinnar um skýringar og verður að þeim fengnum tekin afstaða til þess hvort forstjóranum verði veitt tímabundin lausn frá störfum í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eða gripið til vægari aðgerða.
Samkvæmt upplýsingum Fréttastofu Útvarps gerir Ríkisendurskoðun bæði margar og alvarlegar athugasemdir við rekstur Löggildingarstofu. Á árunum 2000 og 2001 var samanlagður rekstrarhalli Löggildingarstofu rúmlega 60 miljónir króna, en þar störfuðu þá um 20 manns. Jafnframt komi fram að rekja megi óreiðuna að hluta eða mestu leyti til alvarlegra veikinda fyrrum fjármálastjóra stofnunarinnar.
Meðal athugasemda er, samkvæmt upplýsingum Fréttastofu, að árið 2001 var keyptur jeppi sem kostaði rúmar 4 miljónir króna um leið og eldri jeppi stofnunarinnar var seldur. Engin heimild var til kaupanna, hvorki á fjárlögum né frá viðskiptaráðuneytinu. Bifreiðin var seld síðastliðið sumar samkvæmt fyrirmælum frá ráðuneytinu.
Á árunum 1999 til 2002 voru keyptir 57 farsímar, fyrir samtals um 700.000 krónur. Allir starfsmenn Löggildingarstofu fengu farsíma, en einnig var öðrum en starfsmönnum lagður til farsími án þess að skýringar séu á því í bókhaldsgögnum. Af þessum 57 farsímum kom í ljós við athugun Ríkisendurskoðunar að 17 voru hjá öðrum en starfsmönnum stofnunarinnar og 18 farsímar fundust alls ekki.
Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við þjónustukaup af verktökum. Þar á meðal að sex vensla- og skyldmenni skrifstofustjóra fengu greiddar verktakagreiðslur gegn framvísun reikninga. Keyptar voru tölvur, tölvubúnaður og þjónusta af tölvufyrirtæki. Meðal búnaðar voru tvær segulbandaafritunarstöðvar til að afrita tölvugögn. Þær kostuðu um hálfa milljón króna hvor og var hvor um sig mun afkastameiri en stofnunin þurfti á að halda. Önnur afritunarstöðin fannst í fórum verktakafyrirtækisins og hafði aldrei verið afhent. Tölvur voru keyptar af verktakafyrirtækinu framhjá rammasamningi ríkisins um tölvukaup og afsláttarkjör. Þjónustusamningur við tölvuverktakann hljóðaði upp á 300.000 króna greiðslu á mánuði og gerir Ríkisendurskoðun alvarlega athugasemd við það, sérstaklega í ljósi þess að starfsmaðurinn sem sinnti þjónustunni var samtímis í fullu starfi hjá annarri ríkisstofnun.
Ríkisendurskoðun og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið gera ýmsar fleiri athugasemdir við fjárreiður Löggildingarstofu. Forstjóri stofnunarinnar staðfesti í samtali við Fréttastofu að svo væri og jafnframt að fyrrum fjármálastjóri hefði átt við mjög alvarleg veikindi að stríða. Hann benti jafnframt á að þegar hefði verið ráðist í víðtækar úrbætur. Nýr skrifstofustjóri hafi tekið til starfa á síðasta ári og hafi verið bætt úr flestum atriðum. Hann segir úrbótastarf unnið í góðu samráði við Ríkisendurskoðun og ráðuneytið.



Heimild: Rúv