Íslenskur raunveruleiki
Íslenskur raunveruleiki
Á ári hverju stígur forsætisráðherra frammi fyrir þjóð og segir af gömlum vana í áramótaræðum sínum að við séum ein ríkasta þjóð í heimi samkvæmt nýjustu skýrslum OECD. Það er sorgleg staðreynd að margir skuli halda Davíð skörung hinn mestan að gera okkur lífið svona gott. Enn biturri er sú staðreyndin að skýrsluhöfundar OECD vita ekki allan sannleikann. OECD er ekki kunnugt um misskiptingu auðlindanna, stóraukið atvinnuleysi, margföldun einstaklinga undir fátæktarmörkum, hvað þá heldur neyðaróp öryrkja og aldraðra fyrir bættum og mannsæmandi lífskjörum. Því síður er þeim kunnugt um sérhagsmunagæslu stjórnvalda gagnvart stærstu fyrirtækjablokkum landsins. Skýrsluhöfundar OECD taka til heildartekjur þjóðanna og deila í með höfðatölu þeirra. Útkoma Íslands í þessum reikningum setur okkar ofarlega á lista yfir ríkustu þjóðir heims. Ætli höfundar skýrslunnar myndi ekki hníga niður af undrun ef vissu hvernig raunverulegt ástand ungra fjölskyldna og minnihlutahópa á Íslandi er.
Ég skal ekki segja hvort kæruleysisleg áhrifin af dýrindis síld og ljúfum mjöð eða skipulagður heilaþvottaáróður frjálshyggjuaflanna í þessu landi fái forsætisráðherra til að segja aðra eins vitleysu og raunin er ár hvert í áramótaræðum sínum. Maðurinn er augljóslega í góðu sambandi við aðalinn í þessu landi en svo virðist sem haf og lönd skilji milli forsætisráðherra og alþýðufólks á Íslandi.
Fyrirtæki greiða 18% skatt af bókhaldslegum hagnaði. Þegar arður er greiddur til sömu eiganda kemur til 10% fjármagnstekjuskattur. Í bókhaldslegum skilningi greiðir eigandi fyrirtækisins ca 24% skatt í stað 38-43% þeirra sem ekki eiga fyrirtæki. Til er fjöldinn allur sem tekur sína neyslu út á fyrirtækið og kemur neyslan sem gjaldaliður í bókahaldi fyrirtækjanna. Launþegar greiða skattinn – svo kemur neyslan. Á hinn veginn versla fyrirtækjaeigendur vöruna eða þjónustuna út á fyrirtækið, koma sér undan virðisaukaskatti sem er jafnan 24,5% og einnig tekjuskattinum. Í bláköldum raunveruleikanum og með tilliti allra þeirra gráu svæða sem eru í bókhaldslögum er ekki ólíklegt að þessir fjársterku fyrirtæki og einstaklingar sem hafa rekstur sem einnig þolir einkaneyslu eigandanna, greiði einungis 5-10% skatt af heildartekjum og neyslu þegar uppi er staðið.
Það er augljóst að sérhagsmunagæsla Sjálfstæðiflokks og Framsóknar bitnar harðast á launþegunum, ungu fjölskyldufólki. Auk þess að koma yfir sig þokkalegu þaki í einhverju því erfiðasta bankaumhverfi sem um getur í veröldinni ber þessi hópur þjóðfélagið á herðum sér. Að frátöldu striti ungra fjölskyldna er sá raunveruleikinn að grundvallarregla er brotin með þeim hætti að þeir sem mest eiga til af fjármunum greiða hlutfallslega minnst til samfélagsins en aðrir. Það er ekki á þetta fólk hallað heldur þá stjórnmálamenn sem setja lög og reglur sem samfélagið skal dansa eftir. Nýjasti tangó ríkisstjórnarinnar var að lækka skatta á hagnað fyrirtækja úr 33% í 18%. Í Valhallarveislum viðskiptagoða og sjálfstæðimanna get ég ímyndað mér að fyrirtækjaeigendur hrópi þrefalt HÚRRA fyrir Davíð konungi en á meðan bítur bitur raunveruleikinn a.m.k. helming þjóðarinnar. Hún er orðin áberandi stéttarskiptingin í þessu landi og mun Frjálslyndi flokkurinn berjast gegn slíkri þróun sem er.
Ef vöggugjöf einstaklingsins geymir gáfur, styrk eða aðra hæfileika sem nýtast munu í lífsbaráttunni ber að þakka slíka gjöf. Öllum ber að gjalda gott með góðu. Stjórnmálamenn og allir einstaklingar eiga að virða hugtökin samfélag, samvinnu og samkennd. Ef ekki, þá getum við eins tekið upp úreld og gamalt lénsfyrirkomulag miðaldanna og kastað núverandi samfélagsmynd vestrænna ríkja fyrir róða.
Frjálslyndi flokkurinn er í baráttu fyrir réttlæti og jöfnum tækifærum, gegn fátækt og endurreisn landsbyggðarinnar. Atkvæði ykkar mun skipta miklu máli í vor.
Gunnar Örlygsson
Forsvarsmaður Ungra Frjálslyndra