(www.framfarir.net)
Í lok síðasta mánuðar sýndi skoðanakönnun á vegum Fréttablaðsins að 88% þeirra sem tóku afstöðu vildu að Íslendingar myndu hefja hvalveiðar á ný. Eins og menn þekkja fengu Íslendingar aftur aðild að Alþjóðahval-veiðiráðinu í október á síðasta ári. Þá skuldbundu íslenzk stjórnvöld sig til að hefja ekki hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en árið 2006. Aðildin að ráðinu opnaði hins vegar fyrir þann möguleika að hefja hvalveiðar í vísindaskyni líkt og t.d. Japanir hafa stundað.
Ein helztu rökin sem nefnd hafa verið gegn því að Íslendingar hefji hvalveiðar er hvalaskoðunariðnaðurinn. Hafa aðstandendur þess iðnaðar haft uppi linnulausan áróður gegn hvalveiðum og m.a. fullyrt að ef Íslendingar hæfu hvalveiðar myndi hann leggjast af. Ennfremur hafa þeir upphafið hagnað af hvalaskoðun og þannig haldið því fram að hún gefi af sér 800 til 1.300 milljónir króna árlega. Erfitt er þó að sjá hvernig slíkar tölur fái staðist. Kannanir hafa sýnt fram á að ekki komi ýkja margir ferðamenn til landsins eingöngu til að skoða hvali.
Vitað er með nokkurri vissu hversu stór hvalastofninn við Ísland er núna og mun vera nóg af hvali á Íslandsmiðum. Hafrannsóknarstofnun hefur í framhaldi af því m.a. lagt til veiði á 250 hrefnum árlega sem gæfu u.þ.b. 900 milljónir króna í útflutningsverðmæti til þjóðarbúsins. Einnig hefur Hafrannsóknarstofnun lagt til töluverða veiði á langreyð og sandreyð sem gæfu margfalt á við hrefnuveiðarnar. Það þarf síðan ekki að fjölyrða um afrán hvala á Íslandsmiðum. Þeir éta um 6 til 7 milljónir tonna af átu og fiski á hverju ári. Til samanburðar má nefna að Íslendingar veiða um 2 milljónir tonna árlega.
Hjörtur J. Hjartar
(Tilvísun: http://www.framfarir.net/greinar/240203.htm)
Með kveðju,