Nokkur atriði um stefnu flokks framfarasinna (www.framfarir.net):

Á heimasíðu framfarasinna segir:
Flokkur framfarasinna er algerlega mótfallinn þeirri stefnu að íslenskt þjóðfélag eigi að þróast út í að verða svokallað fjölþjóðasamfélag þar sem mörg ólík þjóðfélög þróist samhliða. Til að tryggja áframhaldandi frið í landinu, svo og þjóðfélagslega einingu, verður að sjá til þess að hér verði eitt þjóðfélag í framtíðinni en ekki mörg.

Hér væri gaman að vita hvað átt sé við með fjölþjóðasamfélagi? Á ekki frekar að tala um fjölmenningarþjóðfélög eða þjóðríki sem býr yfir menningarlegri fjölbreytni. Er kannski verið að tala um að það eigi að koma í veg fyrir að til verði sjálfstjórnarsvæði á Íslandi, t.d. sjálfstjórnarsvæði Vestfjarða eins og sumir Vestfirðingar hafa verið að tala um. Eða er verið að vísa til þess að “landlausum” hópum eins og sígaunum verði aldrei úthlutaður landskiki á Íslandi og þar sem þeir setja upp sjálfstjórnarsvæði. Eða er verið að vísa til þess að landinu verður aldrei skipt upp í ríki eins og gert er í BNA með eina alríkisstjórn.

Á heimasíðu flokksins segir einnig:

Flokkur framfarasinna er ekki andvígur jákvæðum og uppbyggjandi erlendum menningaráhrifum en slík áhrif ber að meðhöndla á íslenskum forsendum og aðlaga að íslensku þjóðfélagi. Ekki gengur að taka slík áhrif hrá inn í landið sem hafa orðið til og þróast við allt aðrar aðstæður en til staðar eru á Íslandi auk þess sem slík menningaráhrif gætu ekki talist íslensk.
—-
Hér væri gaman að vita hvaða stofnun á að gerast þessi menningarlögregla. Víst að svona stefnumál er sett fram þarf víst einhver að fylgjast með hvaða áhrif landarnir eru að bera inn í landið. Segjum nú að þessi menningarlögga komist að því að pizzur og indverskur matur hafi slæm áhrif á íslenska matarmenningu. Á þá að banna erlenda matargerð og jafnvel sekta þá sem leggja stund á hana og hafa kynnt fyrir Íslendingum? Hefði átt að banna pönkið, atómkveðskap og afríkandansa? Setja þá í fangelsi sem eru að innleiða slík erlend menningaráhrif?

Einnig segir:
Draga þarf verulega úr innflutningi erlendra ríkisborgara til landsins. Aukning í fjöldi erlendra ríkisborgara í landinu upp á tugi prósenta á ári er engan veginn ásættanleg staða mála. Tryggja þarf meiri ábyrgð og aðhald í málaflokknum í því skyni að lágmarka þau vandamál sem gjarnan vilja fylgja náinni sambúð fólks af ólíkum uppruna.
—-
Á að banna fyrirtækjum að ráð til sín erlenda starfsmenn þegar skortur verður á vinnuafli? Er ekki nóg að skerpa innflytjendalög eins og flokkurinn leggur til, afhverju þarf að vera að draga úr flutningi erlendra ríkisborgara hingað. Við erum fámenn þjóð og veitir ekki af fjölgun í okkar stóra landa. Það gerir ekkert nema að auka hér fjölbreytni og sérhæfingu. Það eflir okkur sem þjóð og styrkir.

Síðasta tilvitnunin er síðan:
Í íslensku þjóðfélagi eru ákveðin aldagömul gildi ríkjandi sem aðfluttir einstaklingar verða að gangast undir ef þeir hafa í hyggju að setjast hér að. Sama gildir um Íslendinga sem setjast að í öðrum löndum til frambúðar, það er álit flokksins að þeim beri að sama skapi að aðlagast þeim sem fyrir eru í viðkomandi landi.
—-
Gaman að vita hver þessi aldagömlu gildi eru. Eitt sinn var það gildi ríkjandi að leggjast í víking og höggva mann og annan. Skv. alþjóðlegum rannsóknum á gildismati Íslendinga þá virðist gildismat okkar einna líkast gildismati nýrra samfélaga eða landnemaþjóðfélaga í Ameríku, Ástralíu og Nýjasjálandi. Þetta eru allt samfélög þar sem ólíkir menningarstraumar hafa mæst, þar sem gildi upprunamenningarinnar hafa verið endurskoðuð, færð í nýstárlegan lagabúning, leitt af sér frjóa sköpun í listrænum efnum. Ég sé því ekki betur en að rætur íslenskrar menningar sé einmitt fjölmenningarsamfélag með þeim kostum og göllum sem það hefur í för með sér. Er því ekki stefna framfarsinna einmitt í andstöðu við menningararfleið okkar?

M.