Schengen hefur dregið úr landamæraöryggi Íslands
(www.framfarir.net)

Hefur Schengen-samstarfið þýtt meira öryggi fyrir Ísland eða hefur það dregið úr öryggi landsins? Sem kunnugt er gengur samstarfið út á að landamæraeftirliti á svokölluðum innri landamærum samstarfsins er fellt niður en eftirlit á ytri landamærum þess aukið af sama skapi. Þannig þurfa Íslendingar, á ferð um þau lönd sem aðild eiga að Schengen, ekki að framvísa vegabréfum sínum en þurfa eftir sem áður að hafa þau ætíð meðferðis ef eftir þeim verður leitað af viðkomandi yfirvöldum. Yfirvöldum er það þó ekki heimilt nema ríkar ástæður séu fyrir því. Á móti kemur að fólk, sem kemur t.d. til Íslands frá Evrópulöndum, þarf ekki heldur að framvísa nokkrum persónuskilríkjum við komuna til landsins og getur í raun einfaldlega gengið beint inn í landið án nokkurra afskipta íslenzkra yfirvalda.

Stuðningsmenn samstarfsins hafa viljað meina að landamæraöryggið hafi aukizt við aðildina að Schengen. Með aðildinni hafi íslenzk sjórnvöld fengið „… ný hjálpartæki í landamæraeftirliti okkar, en það er Schengen upplýsingakerfið og formbundið samstarf lögregluliða í Schengen-ríkjunum, sem virkt verður allan sólarhringinn. Þegar hafi komið í ljós hvert gagn er af þessu og þannig hefur þegar verið snúið til baka fólki sem hingað hugðist koma, en hafði að baki lögbrot í öðrum Schengen ríkjum,“ eins og Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, komst að orði í ræðu sem haldin var við gildistöku Schengen hér á landi þann 25. mars 2001. Fyrir utan það að þurfa ekki að framvísa vegabréfum innan Schengen-svæðisins má segja að sameiginlegt upplýsingakerfi Schengen sé eini kostur samstarfsins sem stuðningsmenn þess telja sig geta hangið á. Gallinn við það er hins vegar sú staðreynd að Ísland hefði að öllum líkindum getað fengið aðgang að umræddu kerfi þó landið hefði ekki gerzt formlegur aðili að Schengen-samstarfinu. Þannig hafa bæði Bretland og Írland aðgang að kerfinu þó löndin séu ekki formlegir aðilar að Schengen.

Fjölmargir hafa orðið til að benda á þá staðreynd að við höfum glatað að mjög miklu leyti því öryggi sem felst í náttúrulegum landamærum okkar með aðildinni að Schengen. Þannig má nefna að Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði í ræðu, þann 18. október á síðasta ári, að ekki væri um það deilt að landamæraeftirlit hefði veikst við aðildina að Schengen. Ennfremur sagði hann að þörfin fyrir samstarf eins og Schengen kynni að horfa nokkuð öðruvísi við eyríkjum eins og Íslandi, en löndum á meginlandi Evrópu, „… sem af landfræðilegum ástæðum hafi alla burði til að halda uppi öflugu landamæraeftirliti og ná að því leyti sama eða jafnvel mun betri árangri en að er stefnt með Schengen-samstarfinu. Niðurstaðan í Bretlandi og á Írlandi varð sú, að þeir myndu áfram gæta sjálfir eigin landamæra, en niðurstaðan hér varð sem kunnugt er … sú að flytja eftirlit með landamærum okkar frá Keflavík alla leið til Mílanó, Madrid og Mykonos, svo dæmi séu tekin, svo traustvekjandi sem það kann annars að þykja, og leggja í staðinn traust okkar og trúnað á sameiginlega gagnabanka Schengen-samstarfsins.“

Þó yfirlýst markmið Schengen-samstarfsins sé m.a. að efla eftirlit með ytri landamærum samstarfins hefur slíkt þó gengið misvel í framkvæmd. Eftir að Ísland gekk í Schengen sjáum við Íslendingar um landamæraeftirlit fyrir aðrar aðildarþjóðir Schengen og þær fyrir okkur, þar á meðal ýmis ríki í austan- og sunnarverðri Evrópu þar sem landamæraeftirlit er ósjaldan mjög slakt. Á þessu ári liggur svo fyrir að ýmsar Austur-Evrópuþjóðir gangi í Evrópusambandið og þar með ekki ólíklega Schengen í framhaldi af því. Gera má ráð fyrir að það muni síðan mjög líklega þýða enn verri landamæragæzlu í austri. Fólk sem sleppur t.a.m. inn fyrir austurlandamæri Schengen getur komið óáreitt til Íslands án þess að íslenzk yfirvöld hafi neitt um það að segja, en árlega er talið að hundruðir þúsundir ólöglegra innflytjenda sleppi ólöglega inn fyrir landamæri Schengen. Sama gildir um t.d. smygl á fíkniefnum til landsins, sem mest er stundað frá Evrópu, einkum frá Danmörku og Hollandi, en að mati íslenzkra lögregluyfirvalda hefur aðildin að Schengen þýtt að erfiðara sé að berjast gegn smygli á fíkniefnum til landsins en var áður en Ísland gerðist aðili að samstarfinu.

Í þessu sambandi er einnig vert í lokin að velta fyrir sér til hvaða aðgerða var gripið vegna vorfundar Atlantshafsbandalagsins sem haldinn var hér á landi sl. vor. Þá var tekin sú ákvörðun að taka upp vegabréfaeftirlit gagnvart fólki, sem kom frá Schengen-svæðinu og tilgangurinn með því var að tryggja betur öryggi fundarins. Til sama ráðs var einnig gripið í öryggisskyni í tilefni af heimsókn forseta Kína til landsins í sumar. Til þessara aðgerða hefur sömuleiðis verið gripið af öðrum aðildarríkjum Schengen í ákveðnum tilfellum, s.s. vegna leiðtogafundar Evrópusambandsins um innflytjendamál á Spáni sl. sumar svo og í Danmörku í tengslum við fund æðstu stjórnenda ríkja Evrópusambandsins í desember síðastliðnum.

Kv.

Hjörtur

(Málefnaleg tilskrif takk. Allt skítkast og önnur ómálefnaleg framkoma afþökkuð.)
Með kveðju,