Staða innflytjendamála í Danmörku í stórum dráttum
(www.framfarir.net)

Eins og þekkt er hafa dönsk stjórnvöld nú komið einhverri ströngustu innflytjendalöggjöf sem þekkist í Evrópu á í Danmörku. Ástæður þess eru ekki úr lausu lofti gripnar enda hafa innflytjendamál landsins verið látin svo að segja afskiptalaus í landinu um áratuga skeið og öll almenn, lýðræðisleg umræða um málið verið nánast bannfærð. Í skjóli þess hafa vandamál, tengd sífellt meiri innflytjenda-straumi til landsins, vaxið ár frá ári undir yfirborði sem reynt hefur verið til hins ítrasta að láta líta vel út. Danskir jafnaðarmenn bera sögulega ábyrgð á þessari þróun mála, að flestra ef ekki allra mati, enda hafa þeir verið allra flokka lengst við völd í landinu sl. áratugi og mótað þá stefnu sem lengst af hefur verið fylgt.

Samsteypustjórn Íhaldsflokksins og frjálslynda flokksins Venstre komst til valda í Danmörku eftir þingkosningarnar í nóvember 2001. Fylgisaukning flokkanna, svo og Danska þjóðarflokksins, er ekki sízt þökkuð þeirri stefnu þeirra að vilja takmarka eða stöðva innflytjendastrauminn til landsins og jafnvel að vísa fólki af erlendum uppruna úr landi ef það uppfyllir ekki ákveðin skilyrði. Vert er að hafa í huga í þessu sambandi að það eru ekki einhverjir vondir stjórnmálamenn sem vilja takmarka innflutning erlends fólks til landsins. Þeir eru aðeins að efna kosningaloforð sem þeir gáfu háttvirtum kjósendum í lýðræðisríki.

Danska ríkisstjórnin lét það vera eitt sitt fyrsta verk að samþykkja ný innflytjendalög í byrjun síðasta árs. Samkvæmt þeim fá innflytjendur t.a.m. ekki varanlegt landvistarleyfi fyrr en eftir sjö ára dvöl í landinu í stað þriggja áður. Innflytjendur verða að hafa náð 24 ára aldri til að makar þeirra fái landvist í stað 18 ára aldurs eins og staðan var áður. Mjög hefur sömuleiðis verið hert á reglum um að fjölskyldumeðlimir innflytjenda fái landvist og opinberir styrkir til innflytjenda hafa verið takmarkaðir. Að lokum hafa heimildir yfirvalda, til að vísa útlendingum úr landi, verða rýmkaðar verulega.

Innflytjendum fjölgar hratt

Innflytjendum í Danmörku fjölgar hraðfara. Árið 1998 voru 5% íbúanna fædd erlendis. Í upphafi árs 2002 voru þeir orðnir um 8%. Eftir 20 ár verður hlutfallið orðið 20% og eftir 60 ár gera danskir fræðimenn ráð fyrir að Danir verði orðnir minnihlutahópur í sínu eigin landi ef ekkert verði gert til að stöðva þá þróun. Þá verða múslimar orðnir um helmingur allra íbúa landsins en fjölgun meðal þeirra er hvað hröðust.

Ástæðurnar fyrir mikilli fjölgun innflytjenda umfram Dani eru einkum tvær. Mikill straumur innflytjenda til Danmerkur á ári hverju og sú staðreynd að innflytjendur frá þriðja heims löndum eignast mun fleiri börn en Danir. Þannig eignast danskar konur að meðaltali 1,7 barn á ári á meðan að konur frá þriðja heims löndum eignast að meðaltali 3,3 börn, eða um tvöfalt fleiri.

Hin mikla fjölgun útlendinga í Danmörku á sér stað þrátt fyrir að í gildi hafi verið innflytjendabann í Danmörku frá þriðja heims löndum síðan á 8. áratugnum. Einungis er þannig tekið við flóttamönnum frá þeim heimshluta. Engu að síður er fjölda manns veitt hæli í landinu árlega þó þeir uppfylli ekki skilyrði þess að geta talizt flóttamenn samkvæmt alþjóðalögum. Þannig fengu t.a.m. árið 2001 6.000 meintir flóttamenn pólitískt hæli í Danmörku. Um 12.000 ættingjar fylgdu með. Um helmingur þess fólks voru múslimar.

Gríðarlegur kostnaður

Kostnaður danskra skattgreiðenda vegna innflytjenda og flóttamanna, umfram aðra íbúa landsins, var um 1.200 milljarðar íslenskra króna (1.200.000.000.000 íkr.) árið 2000 skv. útreikningum danskra hagfræðinga. Kostnaðurinn af innflytjendamálum hefur tvöfaldast síðan árið 1995, en heildarreikningur þess árs hljóðaði upp á um 600 milljarða króna skv. opinberum tölum.

Kostnaðurinn af innflytjendum árið 2000 var um 350 milljörðum meiri en allur kostnaður danska ríkisins af lífeyrisskuldbindingum og sex sinnum meiri en heildarkostnaður ríkisins af leikskólum og annari dagvistun barna. Til viðbótar má nefna að á meðan Danir borguðu að meðaltali um 227.000 íslenskar krónur á mann til danska ríkisins árið 1997 þá þurfti ríkið að greiða um 582.000 íslenskar krónur að meðaltali til hvers innflytjenda sem kom frá löndum utan Vesturlanda.

Stór hluti innflytjenda í Danmörku lifir á opinberum bótum og meira en helmingur þeirra er án atvinnu. Á meðan 75% Dana á aldrinum 16-66 ára voru í vinnu árið 2000, var hlutfallið aðeins 38% hjá innflytjendum sem voru annars staðar að úr heiminum en frá Vesturlöndum. Afgangurinn af þeim var meira eða minna á framfærslu hins opinbera og/eða viðriðnir einhvers konar glæpastarfsemi.

Glæpatíðni innflytjenda mjög há

Samkvæmt lögregluskýrslum hefur glæpum sem útlendingar fremja í Danmörku fjölgað um 153% undanfarin ár. Á sama tíma hefur glæpum sem Danir fremja aðeins fjölgað um 13%. Glæpatíðni í einstökum hverfum danskra bæja og borga hækkar eftir því sem fleiri innflytjendur búa í þeim. Í Danmörku eru um 70% nauðgana framdar af múslimum og um 70% fangelsaðra eru sömuleiðis múslimar.

Feðra- og bræðraveldið flytja múslimar með sér til Danmerkur og það ofbeldi og nauðung sem því fylgir. Af því berast óhugnanlegar fréttir. Samkvæmt upplýsingum frá dönsku lögreglunni hafa verið framin eitt til tvö “ærumorð” á ári þar í landi á síðustu tíu árum, þ.e. sem vitað er um. Afbrotatíðni múslima helgast m.a. af því að þeir eiga sín eigin lög og margir hverjir þeirra hvorki skilja né virða dönsk lög eða það sem talin er sæmileg hegðun þar í landi.

Því má svo bæta við að innflytjendur í Danmörku voru þrisvar sinnum líklegri til að fremja afbrot en Danir á árunum 1993-1998 og afkomendur innflytjenda átta sinnum líklegri til að gerast sekir um glæpsamleg athæfi en Danir á sama tíma skv. Jótlandspóstinum. Samkvæmt fréttum sama blaðs þurfa dönsk ungmenni nú vernd gegn ofbeldisfullum árásum vopnaðra klíka ungra innflytjenda í Kaupmannahöfn, þá einkum í þeim hverfum þar sem innflytjendur eru í meirihluta.

Innflytjendur aðlagast illa

Dönum þykir þjóðfélag þeirra vera að breytast og það ekki til hins betra á mörgum sviðum. Einkum þykir Dönum innrás múslima víðsjárverð. Þeim fjölgar tiltölulega ört og þeir mynda gjarnan sína eigin söfnuði og samfélög sem enga samleið eiga með dönskum lífsháttum. Þegar innflytjendamálin í Danmörku fóru fyrst að vera verulega umfangsmikil álitu menn að vandamálin væru mest í upphafi en myndu síðan minnka samfara aukinni aðlögun. Þetta hefur hins vegar þróast í þveröfuga átt. Vandamálin voru mikil í upphafi en hafa síðan aukizt samfara auknum fjölda innflytjenda í landinu.

Þeir spádómar að innflytjendur blandist Dönum með tíð og tíma ætla ekki að ganga eftir. Önnur kynslóð innflytjenda samlagast ekki þjóðinni, sem býr fyrir í landinu, fremur en þeir sem fyrstir koma. Athyglisvert er t.d. að glæpatíðni meðal annarar kynslóðar innflytjenda er margfalt meiri en meðal fyrstu kynslóðar innflytjenda. Innflytjendur leggja gjarnan undir sig heilu hverfin í útjöðrum stærri borga og bæja og lifa þar og hrærast meira eða minna í einangrun í siðum og venjum gamla landsins. Þeir hunsa margir þau gildi sem danskt þjóðfélag er byggt á og neita að aðlaga sig að því.

Árekstrar í skólakerfinu

Í skólamálum verða einnig árekstrar. Kennsluefnið í dönskum skólum er danskt og kristið en börn helmings innflytjendanna búa í múslimsku umhverfi þar sem siðir og hugsanagangur er allt annar en í danska skólakerfinu. Þarna koma upp illleysanleg vandamál. Danir ætlast til að innflytjendur lagi sig að þeirra þjóðfélagi en í múslimabyggðunum er lögð rík áhersla á að trú og lífsvenjur forfeðranna séu virtar. Múslimskir foreldrar hafa ekkert á móti því að börn þeirra sæki danska skóla en þar á að kenna þeim múslimsk fræði en ekki dönsk.

Danska ríkisstjórnin hefur kynnt áform þess eðlis að fella niður alla móðurmálskennslu fyrir útlendinga í ríkisreknum grunnskólum landsins. Er þetta m.a. liður í viðleitni ríkisstjórnarinnar til að minnka gífurlegan kostnað ríkisins af innflytjendamálum en þó einkum vegna þeirrar reynslu Dana að móðurmálskennsla útlendinga dragi verulega úr líkunum á því að þeir aðlagist dönsku þjóðfélagi. Einkum á þetta við um svokallaða kóran-skóla múslima, en hert hefur verið eftirlit með slíkum skólum vegna fjölda vísbendinga um að í þeim sé kynt undir trúaröfgum hjá ungum múslimum og alið á hatri í garð Vesturlanda. Varast skal að alhæfa en reynslan sýnir að kristni og íslam eiga allajafna afskaplega illa saman, hvað sem allri óskhyggju líður.

Lokaorð

Danir hafa verið taldir með umburðarlyndustu þjóðum heims og því koma viðbrögð þeirra ýmsum mjög á óvart. Ástæðan er hins vegar einföld; danskir kjósendur hafa upp til hópa fengið sig fullsadda af ástandinu aðgerðaleysinu og þykir ennfremur nóg um fjölda og lífshætti aðkomufólksins. Álit sitt létu þeir í ljós í síðustu þingkosningum þar í landi, hvort sem öðrum líkar betur eða verr.

(Heimildir m.a.: DV 11/04/02, Fréttablaðið 15/10/02, Rúv 29/11/02 og ýmsar fréttir Jótlandspóstsins s.s. dags. 30/08/00)
Með kveðju,