Hækkun eða lækkun skatta?
Alltaf skal ríkisstjórnin vera að hreykja sér af því að lækka saktta í landinu þegar þeir setja fram tölur sínar í viðtölum við fjölmiðla. Það er altaf viðkvæðið að þeir séu svo góðir við almenning og séu að lækka beina skatta með hægri hendi meðan þeir hækka skattana með þeirri vinstri og leyna því fyrir almenningi. Sem sagt eintómur feluleikur, fals og plott. Ég sagði við alla sem heyra vildu árið 97 þegar verið var að semja um launahækkannir og ríkið lagði til skattalækkannir sem áttu að koma til á 3 árum, að í raun væri verið að hækka skattana með því að lækka um leið persónuafsláttinn. Þá var hlegið að mér og sagt að ég væri bara að bulla tóma vitleysu og ég ætti ekki að láta svona lagað út úr mér. Hvað kemur svo á daginn? Jú, það reyndist rétt það sem ég var að segja á þeim tíma. Samkvæmt fréttum stöðvar 2 sunnudaginn 17 des síðastl. Kom fram í frétt frá þjóðhagsstofnun, að skattar hafa hækkað að meðaltali um 4% frá árinu 98 til og með næsta ár. Þetta sýnir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa vísvitandi verið að ljúga að okkur sem kusu þá. Ég hef þá venju þegar þessir “háu herrar” koma fram í fjölmiðlum og fara að tala um ágæti eigin verka að taka því með mikilli varúð og leggja engann trúnað á það sem þeir eru að segja, nema þá þann helst að gruna þá um að vera að fegra verk sín til að fela einhvern gjörning sem þeir eru að framkvæma í bakgrunninum. Það er með ólíkindum að fólk skuli láta bjóða sér svona framkomu ár eftir ár án þess að gera neitt í málunum. Og að mínu viti virðist sem forsvarsmenn verkalýðsfélaga hér á landi séu gjörsamlega ófærir um að gera nokkuð í málum félagsmanna sinna. Reyndar er það svo með verkalýðsfélög, að það eru félagarnir innan þess sem gera það að sterku félagi ef þeir eru virkir. Óvirkur félagi í verkalýðsfélagi er sá sem ekki mætir á fundi eða kýs um málefni félagsins og gerir þar með félagið veikara fyrir en ella. Það er einmitt það fólk sem ætlast til að aðrir sjái um að redda málunum fyrir þá, en gera sér ekki grein fyrir að þeirra atkvæði skiptir líka máli. Þessi eiginhagsmunasemi er veiki punkturinn hjá verkalýðsfélögunum og gerir það að verkum að þau ná ekki fram sínum markmiðum í samningsmálum. Þarna þarf hugarfarsbreytingu á og ekki seinna en strax. Svo er annað í þessum málum. Þegar stjórnvöld koma með svona málamiðlunnartillögur eins og gert var 97, þá er það minsta sem hægt er að gera er að reikna út hvernig það skilar sér til almennings áður en kosið er um það innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að koma í veg fyrir sambærileg mistök eins og síðast. Það er mín von að stjórnvöld fari að gera það sem þeim ber að gera og það er að vinna fyrir fólkið sem kaus það á þing, ekki fyrir einhverja örfáa stórlaxa í þjóðfélaginu sem kallast kolkrabbinn.