Hrói Höttur

Undirritaður er formaður Ungra Frjálslyndra. Í þessum stutta pistli er að finna hugrenningar undirritaðs um nokkur heit mál í íslensku þjóðlífi í dag. Skrifað er um mannauðinn, sjávarauðlindina og náttúru landsins. Ef einhverjar spurningar brenna á lesendum eftir pistilinn um Frjálslynda flokkinn, undirritaðan eða pistilinn sjálfan þá er öllum velkomið að koma spurningum sínum á framfæri.

Mannauðurinn :
Þolinmæðisstíflur þeirra sem hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn á síðustu árum eru flestar brostnar eða við það að bresta. Nýfrjálshyggja Sjálfstæðiflokksins með Hannes Hólmstein Gissurason sem hugmyndafræðing og siðapostula þeirrar hreyfingar í fararbroddi er ógnvænleg. Í nýfrjálshyggjunni er félagshyggjan blótsyrði. Sú stefna stjórnvalda sem er við lýði í dag er ekki heilbrigð frjálshyggjustefna. Heldur er hún er blanda af slæmum kommúnisma og lénsfyrirkomulagi gamla Englands. Þessi stefna er svo krydduð með löstum sem valdagræðgi og ofur-efnishyggju.
Það er ekki góð hagfræði sem felst í samþjöppun ofurblokkanna. Hin ójafna dreifing auðlindarmassans leiðir til milljarðarleka úr íslensku efnahagslífi, stórauknu atvinnuleysi og hrikalegri nýtingu á því hæfileikafólki sem ungt fólk á Íslandi er. Hyglum meðalstórum fyrirtækjum ( að ráði OECD ) og setjum lög er útiloka myndun fyrirtækja með lokaðan viðskiptahring. ( Sbr. Eimskipafélag Íslands ) . Styðjum unga fólkið og gefum þeim tækifæri til athafna í heilbrigðu og réttlátu viðskiptaumhverfi.

Sjávarauðlindin :
Það er frumskilyrði að allir hafi jafnan rétt í þessa auðlind. Styðjum drifkraftinn sem fylgir uppboðskerfinu, innköllum veiðiheimildirnar á fimm ára aðlögunartíma breytinga og bjóðum út daga í nýju sóknarstýrðu fiskveiðistjórnunarkerfi. Félagslegt andrúmsloft landsmanna spilar stóran þátt í afrakstri landsmanna. Ef ekki er góður mórall í liðinu þá verða aldrei glæstir sigrar ofan á. Jöfnum rétt landsmanna, leyfum byggðunum að lifa. Allir liðsmenn vilja réttlæti þjálfarans og réttlætanlegt hlutskipti í kappleiknum með tilliti þess erfiðis sem á undan hefur gengið. Heilbrigð sjávarútvegstefna að mati hagfræðingsins Kaynes er þessi : Ríki og sveitarfélög eiga sjávarauðlindina. Auðlindin er boðin upp til allra landsmanna í svæðisskiptum útboðum en svæðiskiptingin tryggir þá byggðarstefnu sem verður að vera í okkar stærsta iðnaði. Afrakstur uppboðanna mun renna til ríkis og sveitarfélaga og þaðan áfram til íslenskra velferðamála. Sóknarkerfi og uppboð á sóknardögum útilokar brottkast á fiski, opnar fyrir nýliðun og hyglir réttlátri samkeppni. Mórallinn mun lagast og möguleikar á glæstum sigrum verða að veruleika. Að mati færustu hagfræðinga þjóðarinnar er um að ræða 20-30 milljarða íslenskra króna sem árlega myndu streyma inn til ríkis og sveitarfélaga af slíkum uppboðum. Hvernig er farið með sjávarauðlindina í dag ? Hún er færð á silfurfati til örfárra aðila. Þessi misskipting er ekki hagræðing fyrir land og lýð. Höfum við efni á þvi að horfa á sægreifafjölskyldur stinga milljörðum undan eftir að hafa selt aflaheimildir sínar í fang risafyrirtækja ? Þetta er “prinsipp” mál og stærsta kosningarmálið. BURT MEÐ KVÓTAKERFIÐ.

Náttúran :
Íslenska náttúran er gjöf móður náttúru til allrar landsmanna. Auðvitað reynum við að nýta náttúruna okkar og þær auðlindir sem hún hefur fram að færa. En við verðum að sýna aðgát. Við höfum ákveðið að greiða ítölsku fyrirtæki tæpa 100 milljarða íslenskra króna fyrir verktök sem koma að uppbyggingu Kárahnjúka. Slæmt er að ítalska fyrirtækið á í málaferlum vegna saka um mútugjafir í svipuðu verkefni í suðurhluta Afríkuálfu. En Kárahnjúkavirkjun mun alltaf því tvöfalda alla raforkuframleiðslu sem landið býður upp á í dag. Gott og vel. Bandarískt fyrirtæki mun byggja álver sem mun kosta aðra 100 milljarða við Reyðarfjörð og versla af okkur þessa aukaraforku sem verður til. Íslenskir iðnaðarmenn og íbúar Reyðarfjarðar sem og nærliggjandi byggða munu njóta góðs af með þeim hætti að ný atvinna verður í boði, auðvitað ákveðin margfeldisáhrif sem einnig munu eiga sér stað.
Það sem hræðir undirritaðan er sú staðreynd að bandariska fyrirtækið tapaði 18.000 milljónum króna, einungis á síðasta ársfjórðungi. Hræðsla er okkur eðlislæg og nauðsynleg, hún er t.a.m. hvati nokkurs sem við nefnum aðgát. Uppbygging álversiðnaðar í Kína og lækkandi verð á áli er nokkuð sem við verðum að huga að. Ríkisstjórnin sem hefur ráðist í þessar framkvæmdir brenndi byggðir austfjarða svo um munaði með gjafakvótastefnunni í sjávarútvegi. Nú hefur þessi sama ríkisstjórn klætt sig í stakk Hróa nokkurs Hattar frá Skíriskógi og segist vera bjargvættur byggða á sunnanverðum austfjörðum. Nú kastaðist ólykt frá litlu bleki á pappír.
Ég vil botna þennan pistil með því að segja að undrandi er ég að ekki skuli hafi verið farið með annað eins mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir mér hefur þetta þverpólitíska mál ekki snúist um arðsemismat. Ég er náttúrusinni og rómantíkus í eðli mínu. Vegna þessa eðlis er ég á móti virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka og hef alltaf verið. Einfaldlega of mikið náttúruslys. Þá vilja sumir spyrja ; Hefur þú farið og skoðað þessi eyðilönd ? Svarið er nei en aðrir hafa gert það og kannski fer ég í framtíðinni þarna upp eftir. Maður úr ferðamannaiðnaði gæti hafa svarað sömu spurningu með annarri spurningu ; “Er Parísarbúinn sýknt og heilagt að klöngrast upp á Eiffel turninn” ? Það er allt breytilegt, meira að segja við mennirnir, náttúran og geirfuglinn.

Ef líkja má einhverjum stjórnmálaflokki við samfélag þeirra Hróa Hattar, Litla Jóns og félaga þá er svarið án efa XF.

Þakka þeim sem lásu.

Gunnar Örlygsson
Forsvarsmaður Ungra Frjáslyndra

Við óskum eftir skráningu ungra Frjálslyndra.
Áhugasamir sendið inn nafn, kennitölu og síma ( Árgangur 1970 og yngri )
Póstfang : gunnarbond@hotmail.com
Sími : 892-3474 ( Gunnar )