Umræðan hér á Huga er að mörgu leyti áhugaverð. Sérstaklega hef ég haft gaman af því að lesa fjölda greina um áhugaverð málefni eins og aukið frelsi í áfengissölu, hnefaleika o.s.frv. Mér þykir hins vegar rétt að staldra aðeins við eitt hugtak sem tröllríður öllum þessum hugmyndum en það er “frelsið.”
Það er að verða ein ömurlegasta og ófrumlegasta klisja sem maður heyrir að krefjast réttar síns í nafni frelsis einstaklingsins. Við höfum fylgst með ungum sjálfstæðismönnum fara hamförum í þeirri baráttu, selja bjór á Ingólfstorgi allt í nafni spurningarinnar: Af hverju má ég ekki gera þetta og hitt ef mig langar til þess? Boxa, kaupa vín út í búð, reykja, drekka o.s.frv. Þeir sem svona hugsa eru á hraðri leið til stjórnleysis og eru í raun að kalla yfir sig aðra tegund af höftum og bönnum, helsi nýfrjálshyggjunnar. Einu sinni heyrði ég formann Heimdallar segja það í Sjónvarpinu (sem hann vill örugglega selja) að markaðurinn muni laga allt og meira að segja koma á mannréttinum í milljarðaríkinu Kína. Samkvæmt Biblíum þessara manna á einstaklingurinn að hafa frelsi til að gera það sem þeir vilja á markaðnum. Hvað með þá sem ekki komast á markaðinn? Við skulum ekki gleyma því að grunnurinn að allri markaðshyggju er sá að vara skipti um hendur gegn greiðslu. Það þarf einhver að kaupa vöruna og til þess að kaupa þarf peninga. Til þess þarf að vinna og það þarf að framleiða vöruna sem á að selja. Það munu aldrei allir geta unnið við það að selja á markaðnum vegna þess að einhverjir verða að framleiða. Kerfið krefst þess einfaldlega að einhverjir verði undir í því því annars getur það aldrei gengið upp. Nái síðakapítalisminn fram að ganga munum við standa frammi fyrir kerfi þar sem fáir hagnast á markaðnum og hafa það rosalega gott, margir reyna að hasla sér völl á honum og hafa það ágætt en langflestir vinna við framleiðslu á vörunni sem þar er seld og geta sig hvergi hrært vegna þess að þeir hafa ekki það sem til þess þarf í markaðskerfinu: peninga. Sjáið bara Bandaríkin, Mekka frelsis og markaðshyggju. Glæpatíðni gríðarhá, eiturlyfjaneysla, fátækt, kynþáttahatur, almenn byssueign, dauðarefsingar eru staðreyndir í því samfélagi sem telur að frelsið og lýðræðið hafi sigrað í ný afstöðnu forsetakosningum.
Það er sama hvernig við horfum á málin. Í samfélagi þarf lög og reglu. Hið fullkomna frelsi einstaklingsins hefur einkenni stjórnleysis og óreiðu, anarkisma, og byggist í raun á því að allir megi gera allt. Við verðum þess vegna að fara varlega í notkun á hugmyndum um þetta frelsi og reyna frekar að úthugsa sanngjarnan ramma fyrir það samsafn einstaklinga sem þjóðfélag í rauninni er og reyna að stuðla að því að allir, líka þeir sem hafa ekki tækifæri til að mennta sig og selja verðbréf, fái tækifæri til að láta sér líða vel. Við verðum að láta ákveðin höft yfir okkur ganga og við eigum að gera það með glöðu geði ef við höfum á annað borð snefil af umhyggju fyrir náunganum. Þið sem krefjist eins og annars í nafni einstaklingsfrelsis og markaðshyggju: lítið ykkur nær og hugsið málið. Viljið þið að einhver komi heim til þín og setjist upp á heimili þitt, borði matinn þinn, opni jólapakkana þína, bara af því að hann er frjáls og má gera það sem hann vill.