Þessi póstur minn seinast var síður en svo í einhverjum tilfinningahita, öðrum en hneykslun á því hvað þetta var fáránlegt hjá manninum, og var ég þá helst að gagnrýna það hversu ofboðslega lítið hann veit greinilega um þau mál sem hann gagnrýnir.
Einkavæða RÚV? Mögulega… persónulega er ég hlutlaus í því máli þar sem mér finnst hinar stöðvarnar alveg jafn leiðinlegar og RÚV, mér leiðist sjónvarp yfirhöfuð. :) En ef ég ÞARF að gefa álit á því, myndi ég kjósa á móti því, vegna þess að ég tel samkeppnismarkað sjónvarpsstöðva ekki nógu þroskaðan hérlendis til þess að hætta á það. Það væru allar líkur á því að Jón Ólafsson myndi bara kaupa það sem yrði af RÚV, og þá værum við nú ekki í neitt sérstaklega góðum málum, hvorki frá hagfræðilegu né pólitísku sjónarmiði.
Hvort Samfylkingin er líkari Sjálfstæðisflokknum eður ekki má líka endalaust væla yfir. Þeir eru jafnaðarmenn og trúa á rétt allra t.d. til menntunar eiga að vera hinn sama. Svo er ekki að sjá á aðgerðum Sjálfstæðisflokksins, en eins og ég segi, það er ekki málefnin sjálf sem ég var að gagnrýna, heldur augljósa fáfræði höfundar.
Persónulega er ég á móti Ingibjörgu Sólrúnu, eftir að hún sýndi fram á skilningsleysi sitt á algerum lágmarks mannréttindum með því að koma á tímabundnu (og ólöglegu) banni á einkadans. Þess skal tekið fram að ég er fullkomlega hlutlaus í þeirri baráttu, ég neyti ekki einkadanss og hef engan áhuga á því, en ég nýt mannréttinda, sem ég vil vernda.
Forsendur og aðstæður Ingibjargar Sólrúnar í framboði hafa nú bara víst breyst mjög hratt. :) A.m.k. gerðu fjölmiðlar mjög mikið í því að velta sér upp úr þessu og mikil umræða varð, sem eitt og sér er í sjálfu sér nóg til þess að flokksmenn skipti um skoðun oft, samhliða þjóðfélaginu… enda flokkarnir þarna til staðar til þess einmitt að tjá meintan vilja þjóðarinnar.
En ég ætla ekkert að verja Samfylkinguna sem vinstri/hægri. Mér finnst það að slá jafnvel Sjálfstæðisflokknum sem vinstri/hægri vera meiriháttar rugl í nútíma-stjórnmálum. Ég bendi aftur á
http://www.politicalcompass.org. Landsvirkjun á að selja, eflaust… þekki það ekki og hef ekki skoðun á því.
Íslenskir vinstrimenn mega vel vera vinstrisinnaðari en vinstrimenn meginlands Evrópu hvað varðar samhjálp, en þrátt fyrir það eru þeir ansi langt Kommúnismanum, sem höfundur hefur greinilega mótað skoðanir sínar á vinstristefnunni á.
Og ég held nú að umhverfisverndarsinnar njóti landsins ágætlega áður en það á að virkja það. :) Þeir sem gera það ekki hinsvegar, frétta að sjálfsögðu ekki af því fyrr en um það þarf að berjast.
Enda, eins og ég segi, ég er á móti Kárahnjúkavirkjun persónulega vegna þess að mér finnst vera farið og geyst í þetta, sem mér finnst benda til spillingar… þ.e.a.s. að hagsmunirnir sem er í húfi fyrir ráðamenn, eru þeir sömu og þeirra sem munu sjá um að koma þessu í framkvæmd.
Ég ætla að kjósa Samfylkinguna næst, ekki vegna þess að ég tel hana verða betri en Sjálfstæðisflokkinn eftir jafn langan stjórnartíma, heldur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er svo greinilega gjörspilltur (og ég velti því oft fyrir mér hvað þurfi til þess að fólk sjái það), að nýtt blóð, JAFNVEL ÞÓ að einstaka málefni á dagskrá þeirra sé andsnúið mínum skoðunum, sé ekkert miðað við verðmæti þess að fá nýtt afl inn í ríkisstjórn.
Og ég ítreka, að ég var að gagnrýna hugsanagang höfundar. Spurning hans fjallaði um vinstri/hægri, ég svaraði með tilliti til þess, ekki með tilliti til þeirra málefna sem hann nefndi, heldur hvernig hann bar þau á góma.
Með því að afhjúpa algerlega sjálfan sig.