Ég er nú ekki alveg sammála þessu dæmi sem þú nefnir, ég held að þetta snúist ekki um hvort fólkið í kringum mann og maður sjálfur sé í meiri lífshættu þegar maður ekur bíl eða drekkur áfengi. Þú verður ekki háður því að keyra bíl og það hefur ekki slæm áhrif á líkamann.
En hitt er annað mál að ég vil að maður megi kaupa áfengi 18 ára og að það sé hægt að kaupa áfengi og léttvín í verslunum. En það þarf þá að passa mjög vel að það séu engir yngri sem geta keypt það þó þeir líti fullorðinslega út, eins og raun er með sölu á tóbaki, og það þarf að hafa mjög háar sektir við slíkum brotum
Málið er að það er ekki til neins að hafa lög sem allir brjóta, annað hvort verður að fylgja núverandi löggjöf vel eftir og taka á málunum eða breyta henni, ég segi “breytum henni”.
Hvað ætli mörgum finnist það í raun vera slæmt mál að 18 ára unglingur/fullorðin manneskja sé farin að drekka? Ég veit ekki um marga. Það eru örugglega fleiri foreldrar sem væru mjög á móti því að börnin þeirra giftu sig eða steyptu sér í einhverjar skuldir 18 ára en að þau byrji að drekka.
Og í sambandi við að selja bjór og léttvín í verslunum, þá myndi það vissulega auka útbreiðslu áfengis um landið, þá gæti fólk sem býr í minni byggðalögum keypt sér áfengi án þess að panta það í póstkröfu. Kannski að það leysi byggðavandann :)
Ég held líka að ef ég gæti skroppið í 10-11 og keypt mér bjór eða léttvín, þá myndi ég frekar hafa léttvín með mat og kannski fá mér einn bjór yfir sjónvarpinu á virkum degi. Þetta myndi held ég bæta vínmenningu Íslendinga.
Við myndum drekka minna en oftar, og þegar aðgengi er orðið meira að áfengi þá myndi fólk líka drekka minna af landa.
En það sem alþingismennirnir okkar hræðast mest í þessu sambandi er…að við það að 18 ára fólk megi kaupa áfengi verði aðgengi yngri krakka meira að því…og þeir vilja ekki missa þær tekjur sem ríkið hefur af þessari einokun sinni á sölu áfengis.
Jæja, þá er það komið held ég, endilega gagnrýnið ef ég er að segja eitthvað vitlaust eða ef þið eruð ósammála mér.
Kveðja, Xenia