Þar sem ég er ekki Framsóknarmaður né Sjálfstæðismaður, heldur meðlimur í Samfylkingunni þá sé ég þetta Ingibjargarmál greinilega á annan hátt heldur en hávær hluti þeirra sem eru að rita á huga þessa dagana. Ég held meira að segja að ég komi að málinu að meira hlutleysi, því mér er í raun sama hvort Ingibjörg bjóði sig fram eða ekki, því flokkurinn minn var kominn uppí 32% í skoðanakönnunum áður en þingframboð hennar varð aðal fréttaefnið, sem er aðeins 8,5% minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn.
Mér finnst rétt að byrja á því að benda á að Ingibjörg hefur verið í Samfylkingunni frá upphafi. Þegar hún varð borgarstjóri fyrst þá var hún þingmaður Kvennalistans sem varð partur af Samfylkunni, og þá var hún þingmaður og borgarstjóri samtímis til skamms tíma. Þess má líka geta að allir ráðherrar íslands eru líka þingmenn og þeir bera mun meiri ábyrgð á velsæld okkar landsmanna en borgastjóri og það eru mörg fordæmi fyrir því að borgarstjóri sé sitjandi þingmaður einsog borgarstjóraframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins Björn Bjarnason stefndi á að vera.
Ingibjörg kemur að þessu samstarfi flokkanna þriggja sem borgarstjóraefni þeirra og er því sá aðili sem á að vera málsvari þeirra allra í borgarstjórn, en þrátt fyrir það hefur hún alltaf verið hluti af Samfylkingunni sem er langtum stærsti flokkurinn af þessum þremur eða nær helmingi stærri en þeir báðir til samans samkvæmt skoðanakönnunum síðastliðna mánuði.
Það að hún bjóði sig svo fram á þing fyrir þann flokk sem hún er í borgarstjórn fyrir breytir engu hvort hún megi vera borgarstjóri eða ekki, nema í augum Framsóknarmanna. Ingibjörg vill efna sín heit við kjósendur og vera borgarstjóri út allt kjörtímabilið, en það er Framsóknarflokkurinn sem rekur hana frá embætti, gegn hennar vilja. VG gáfu eftir strax á öðrum degi viðræðna, enda er R-lista samstarfið eini vettvangurinn á landinu þar sem VG eru með einhver völd.
Ingibjörg er ekki búin að svíkja einn eða neinn, hún hefur svarað eftir sinni bestu vitneskju á sínum tíma og það hefur verið gengið mjög hart að henni í spurningum þannig að það er hægt að hnoða saman mörgum “vafasömum” svörum af andstæðingum hennar, á þann aumingjalega hátt sem við sjáum t.d. hér á Huga nú. Það svar sem Ingibjörg hefur komið með sem segir mest er að stjórnmálamenn verða að bregðast við aðstæðum á hverjum tíma, sem hún er að gera, því þeir sem gera það ekki munu aldrei ná sínu fram í pólitík.
Eina loforðið sem Ingibjörg hefur gefið kjósendum í Reykjavík er að hún muni vera borgarstjóri út þetta kjörtímabil, sem hún reyndi einsog hún gat að efna. Ég held að andstaðan við framboð hennar mótist frekar af því að Halldór Ásgrímsson flutti framboð sitt til Reykjavíkur til að reyna afla flokknum sínum fylgi, en virðist nú verða heppinn ef hann kemst á þing.
Ingibjörg mun að öllum líkindum koma aðeins veikari útúr þessum hamagangi, R-listinn er líklegast búinn útaf framgöngu framsóknarmanna þótt hann muni kannski endast út kjörtímabilið. Samfylkingin mun örugglega styrkjast við að fá Ingibjörgu til liðs við sig í kosningunum, því kannanir sýna að meirihluti kjósenda í Reykjavík eru hlynntir framboði hennar.
Framsókn mun hinsvegar koma verst útúr þessu upphlaupi öllu, því ég get ekki ímyndað mér að borgarbúar séu ánægðir með þegar kvótakóngur að austan fer að skipta sér að framboðsmálum í Reykjavík. Enda hefur Framsókn ekkert að bjóða Reykvíkingum, og Ingibjörgu Sólrúnu nú verið gefið skotleyfi á þá og frammistöðu þeirra í ríkistjórn með afsögn sinni sem borgarstjóri.