Mjah, jájá, point taken, að flest ef ekki öll vandamál séu peningatengd, en tökum sem dæmi vímuefnavandamálið, vændis- og klámmálin hræðilegu. Þetta eru vandamál sem koma peningum jafnt og ekkert við, þó að auðvitað séu peningar þar inni eins og fólk (enda peningar mjög stór þáttur tímans). Það að ríkið geti sparað meiri peninga þarf ekkert að vera lausn, þó að það sé auðvitað jákvætt, að því gefnu að það sé þess virði að fórna því sem sparað er í. Ég hugsa reyndar að þegar á botninn hvolft sé, þá séum við nokkuð sammála um það, en ég tel að það geti verið hættulegt að líta á peninga sem aðalvandamál. Þá get ég eins og áður nefnt vímuefnamálin, sem auðvitað koma fjárútlátum *einhvern veginn* við, en peningar eru langt frá því að vera ofarlega á lista yfir hluti sem þarf að laga á þeim bæ. Sama hvað við spörum, við munum aldrei geta neitt í vimuefnamálum án margra annarra þátta.
Já, ég hef heyrt það áður að það séu ekki lélegar samgöngur úti á landi sem fær fólk til að flytja, heldur fyrst og fremst takmarkað úrval bæði þjónustu og dægradvalar. En þá eru samgöngur einmitt lykillinn að því að laga það. Að auka samgöngur yfir á smábæi er einmitt til þess að hvetja þá til þess að dafna, ekki bara til þess að halda fólki þar sem þar er nú þegar. En það má endalaust hjala um hvaða göng og aðgerðir borga sig og hvaða ekki. Almennt er ég á móti því að menn reyni að halda byggðalaginu eins og það var sautjánhundruð-og-súrkál… búferlaflutningar þurfa ekkert að vera með öllu illir, sérstaklega í ljósi gríðarlegra tækniframkvæmda sem njóta sín ekki nema á fjölmennum svæðum. En ég vil fara mjög varlega í að gagnrýna það sem er gert fyrir litlu bæina almennt, þó að það eigi svosem að gagnrýna eins og allt annað.
Að gera laun kennara árangurstengd er eitt og sér mjög góð hugmynd að mínu mati, en almenningsskólarnir VERÐA að vera áfram. Við búum ekki lengur í trjánum þar sem er hægt að læra af foreldrum og vinum allt sem læra þarf til þess að taka þátt í samfélaginu. Mér finnst það hreint út sagt ómannúðlegt að bjóða hvaða barni sem er, óháð foreldrum þess, upp á að taka þátt í samfélagi án þess að búa það undir algera lágmarksmenntun, sem er grunnskólinn. Mér er alveg hlandsama um réttindi foreldra í þeirri umræðu, það er barnið sjálft sem ég er að tala um.
En sú umræða að koma upp einkareknum grunnskólum er vægast sagt erfið og flókið. Það eru margar hugsanlegar afleiðingar af slíkum aðgerðum, bæði gagnvart efnahagnum til lengri tíma yfirhöfuð, sem og gagnvart gæðum og hvatningu ríkisskólanna. Sem betur fer sýnist mér sú umræða sífellt komast á aðeins skynsamlegra plan og menn ekki að hunsa mikilvæga hluti eins og tekjusöfnun, einokun og verulega stéttaskiptingu… sem vissulega eru þættir í þeirri umræðu og verður að taka inn í dæmið, það er ekki nóg að bara skera burt hluta dæmis til þess að einfalda það, því þá færðu einfaldlega ranga útkomu.
Fullt af foreldrum hefðu ekki efni á því að senda krakkana sína í skóla, þrátt fyrir 10% skatta, einfaldlega vegna þess að hætta er á að efnahagskerfið geti ekki boðið öllum vinnu með launum sem bjóða upp á það. Það er því hætt við að það myndist einangraðir fátækarhópar sem ættu sér aldrei sanngjarna von um að komast upp úr fátæktinni, og það er bara alls ekki nógu gott. Án menntunar erum við nákvæmlega ekki neitt í nútímanum, hún er eitt af því fáa sem aðskilur nútímamanninn frá frumbyggjanum.
Svo er auðvitað önnur saga að VERULEGA þarf að taka til í skólakerfinu. Ég tel algeran óþarfa að skera niður beint, ég held að betra skipulagi væri hægt að koma á án þess að skerða þjónustuna nokkuð. Reyndar er ég nokkuð viss um að mikill kostnaður skólakerfisins sé “overhead”, þ.e.a.s., að hægt væri að spara peninga með því að gera þjónustuna betri. Bæði til skemmri tíma fyrir skólakerfið sjálft, sem og til lengri tíma fyrir efnahagskerfið (sem lifa jú hvort á öðru).
15 milljarðar fyrir 2-3000 hræður er reyndar… já, ef þú veist um slíkt dæmi; fáránlegt. :) Mér hefur alltaf þátt Akureyri undarlegur en mjög heillandi bær, sem og Húsavík, og finnst mér nærri lagi að einbeita sér við að nýta þá rísandi byggðakjarna sem þegar eru fyrir hendi (og t.d. Akureyri fer rísandi, 1.x% fjölgun árlega), heldur en að reyna að halda upp á einhverjar hræður sem er nok sama hvar þær búa hvort sem er. Það er löng, þreytandi og dýr umræða, en það gilda sömu reglur þar og annars staðar, að það má ekki einfaldlega skera burt viðmið einhverra bónda úti á landi vegna þess að skoðun þeirra þykir ekki nógu merkileg (ekki að ég sé að saka þig um að hafa gert það).
Með vímuefnin þá líst mér nákvæmlega ekkert á það að aðgengi sé hindrað með því að auka skriffinnsku, enda ert þú kannski að tala um aðstæður sem við þekkjum ekki, þ.e.a.s. þar sem Íslendingar hafa virkilega tekið utan um þá hugmynd að kannski séu núverandi leiðir til varnar vímuefna ekki að virka. Íslendingar eru með afbrigðum gjarnir á að kasta fordómum og upphrópunum á vímuefnamálin almennt, en að auka “red tape”-factorinn tel ég reyndar alveg glataða lausn. Eins og ég segi, mér finnst mikilvægast að lögleiða framleiðslu, eign og neyslu kannabisefna til einkanota en halda áfram banni á sölu og dreifignu. Þegar þjóðfélagið venst því má ganga lengra og að lokum taka til baka þau hræðilegu mistök að banna þetta til að byrja með. Svo mætti ganga í harðari efnin þegar lengra væri komið.
Hvað vímu- og fíkniefnin varðar (sem er ekki hið sama, andstætt því sem heilagir móðursýkissinnar vilja meina), verður nefnilega að muna að Íslendingar hafa ekki fengið tækifæri til þess að þroskast meðfram löglegum vímuefnum að neinu ráði (sbr. því að Íslendingar eru með afbrigðum óskynsamir í allri vímuefnaneyslu, allt frá áfengi upp í amfetamín), og þess vegna þarf að gera þetta hægt. Lögleiðing efna og þroski samfélagsins þurfa að haldast hönd í hönd ef það á nokkurn tíma að gera eitthvað af viti í þessu, og það tekur ofboðslega langan tíma, því miður.
Og já… að minnka fasisma gagnvart áfengi er auðvitað lykilatriði líka, en þar þarf að mínu mati að fara jafnvel enn varlegar en í kannabisefnunum, þar sem afleiðingar áfengisneyslu eru óútreiknanlegri heldur en afleiðingar kannabisneyslu.
Ég er reyndar farinn að þvaðra of mikið um vímuefnin hérna, en þau eru líka mínar ær og kýr í pólitík þessa dagana. ;) Skal skrifa grein með nánari útskýringu einhvern tíma… þó ég viti að það verði allt vitlaust, eins og venjulega þegar rætt er um eitthvað sem allir þykjast hafa hundsvit á en fáir hafa.
En það sem ég held að ég hafi upprunalega ætlað að segja (þó ég nenni ekki að lesa gamla svarið mitt til staðfestingar), er að sparnaður á peningum og magn peninga er gjörsamlega gagnslaust ef ekki er farið varlega með þá. Við gætum líka eytt tíma okkar í að spara eins mikinn tíma og við mögulega gætum, en þegar uppi væri staðið, myndum við gera okkur grein fyrir því að það er ekki neinn einn þáttur í ríkisrekstri sem skiptir meira máli heldur en hinn, ef ekki er jafnvægi þeirra á milli. Að eyða peningum í tóma þvælu má vel vera að sé sérgrein Íslensku ríkisstjórnarinnar, og það á auðvitað að laga það, en ég get ekki imprað nógu mikið á því að það er ekki hægt að leysa öll vandamál með peningum einum saman… og þ.a.l. verður peningasparnaður aldrei lausn á öllum vandamálum þjóðarinnar. :)
Annars, gaman að spjalla við þig. ;)