Nýjasta útspil Ástþórs Magnússonar “friðarpostula” sannfærði mig endanlega að maðurinn sé ekki með fullu viti.

Hann hefur sent út bréf þar sem hann vara allan almenning við því að ferðast með íslenskum loftförum, vegna hættu á hryðjuverkum. Þetta byggir hann á rammasamningi sem flugfélögin Air Atlanta og Flugleiðir hafa gert við ríkið að ef til átaka komi; þá muni ríkið geta leigt flugvélar af þessum flugfélögum til flutninga á ýmiskonar dóti að átakasvæðunum. Hann minnist ekki einu orði á það að hvorugt flugfélagið hefur skuldbundið sig til þessa, að hvorugt hafi gert þetta eða jafnvel muni gera þetta.

Það að geta gert hluti er ekki sama og hafa gert hluti, og mér er ómögulegt að sjá að þetta þýði að íslenskar flugvélar séu stríðstól. Samkvæmt þessum rökum eru allir palestínumenn réttdræpir, því þeir geta gert sjálfsmorðsárásir á Ísrael. (Án þess að ég vilji fara út í þá sálma, nóg er af því hér á Huga).

Þetta bréf hefur einn og aðeins einn tilgang; að skapa ótta og hræðslu hjá almenningi við að fljúga með íslenskum flugvélum, láta líta út að hryðjuverk sé yfirvofandi. Það mætti flokka sem hryðjuverk í sjálfu sér.

Það er ekkert annað en hryðjuverk gegn öllum íslenskum flugfélögum að reyna að fá fólk til að fljúga ekki með þeim ef það er hægt. Ástþór gengur jafnvel svo langt að segja að fólk eigi að forðast íslensk loftför, en láist þó að geta þess að það eru önnur íslensk flugfélög í rekstri víða um heim eins og t.d. MD-Airlines. Þar er Ástþór búinn að eyðileggja starfsemi þess flugfélags, ásamt hinum áðurnefdu, ef almenningur erlendis tekur þetta skoffín trúanlegt.

Samkvæmt sinni eigin skilgreiningu er Friður 2000 þá orðið löglegt skotmark NATO-herja því hann flutti gjafir, lyf og annað þvíumlíkt til Íraks fyrir jólin (í fyrra eða árið þar áður) í trássi við viðskiptabann SÞ. (Skrítið að fara sem jólasveinn til fólks sem trúir ekki á jólin.)

Einnig á <a href="http://www.peace2000.org">heimasíðu sinni</a> tekur hann fram að hann hafi verið handtekinn, en gleymir að segja að íslensk stjórnvöld litu á bréf hans sem hótun. Sá málstaður sem þolir ekki allan sannleikan getur ekki verið góður, eða hvað?

Ástþór reynir hér að eyðileggja áratugastarf íslenskrar ferðaþjónustu fyrir sínar 15 mínútur í sviðsljósinu. Og það mætti alveg flokka undir hryðjuverk í versta falli, aumingjaskap í besta falli.

Kveðja,
Fresca
Kveðja