Nú vil ég ekki fara út í heimsspekilegar umræður, heldur aðeins skoða hvernig Íslenska ríkið hefur hegðað sér gagn vart þeim sem það á að þjóna, svo það sé á hreinu.
Fyrir nokkrum árum, þegar alvöru veitingastaðir voru að ryðja sér til rúms (Holtið & Grillið t.d.) þá þótti það afskaplega fínt að þjóna. Það var í raun svo fínt, að fólk fékk á tilfinninguna að það væri að trufla hina stórfenglegu þjóna ef það dirfðist að biðja um áfyllingu á vatnið, þvílíkt var snobbið.
Stundum finnst mér eins og Íslenska ríkið hegði sér enn svoleiðis í dag, þjónusta sem á að vera til fyrir okkur, þjóðina, virkar öfugt, þ.e. það er eins og við eigum að þjóna ríkinu.
Kveikjan að þessum pælingum mínum voru umræður á apple.is varðandi nýja kortadiskinn frá Landmælingum Íslands. (Oft veldur lítil þúfa þungu hlassi). Best að byrja á lögum um LM:
“…Íslenska ríkið er eigandi að öllum réttindum sem Landmælingar Íslands hafa öðlast. Stofnunin gætir hagsmuna ríkisins…”
Allt gott og blessað, en þegar ég (sem ríkið á að þjóna) ætla að fá aðgang að þessum gögnum, þá veitist mér það ansi erfitt. Mér eru skammtaðar úr hnefa þessar upplýsingar, sem ég er búinn að borga fyrir með skattgreiðslum. Þetta er nú dæmið sem urðu kveikjan að þessum hugsunum. Ég er ekki að segja að ég geti labbað inn á LM og heimtað með þjósti ljósrit af kortum, heldur er eins og almenningur, sá sem borgar brúsann sé almennt til ama og leiðinda fyrir stofnunina.
T.d. get ég ekki fengið kortagögn á vektoraformi, heldur bara á myndaformi. LM liggja á þessu eins og ormur á gulli.
Þótt margt slæmt megi segja um ríkið í USA, þá eru þeir með svona lagað á hreinu. Öll gögn sem ríkisstofnanir hafa safnað, eru almenningseign. Ímyndið ykkur ef NASA ynni eins og LM, við fengjum sjálfsagt ekkert frá þeim nema einhverjar frímkerjamyndir af yfirborði Mars og úr Hubble.
Mér dettur fleiri dæmi í hug: Ég hugsa t.d. með hryllingi til þess þegar ég var formaður Nemendafélagsins í HR, eða Tölvuháskóli VÍ, eins og þetta hét þá, og þurfti að fá leyfi fyrir bjórkvöldi. Ég var sendur á milli Lögreglunnar í Reykjavík og Tollsins (Hvað hefur Tollurinn með bjór að gera?). Á endanum gafst ég upp og hætti að standa í þessu pappírsflóði, enda hafði ég nóg annað að gera en að bíða á biðstofum hjá kerfisköllum.
Þetta er að skána sem betur fer, við þekkjum öll hryllingssögur frá tímum haftastefnunnar, þegar viðkomandi þurfti helst að þekkja þingmann eða embættismann sem gat reddað hlutum í gegn um kerfið. Fólk gat ekki skroppið til Kanarí án þess að fá samþykki e-r stofnunnar eða nefndar.
Takk fyrir.
J.