Þegar líður að kosningum og gamla rispaða grammófónplata frambjóðenda í prófkjöri tekur að hljóma í eyru, þar sem allir hver um annan þveran þykjast hafa látið sig hin og þessi málin varða og til þess að reyna að sanka sem flestum atkvæðum er vinsælt að velja sér velferðarmálin.

Það er hins vegar eitt að kenna sig við velferð og annað að vita hvað um er að ræða í því sambandi, því flestir sitjandi stjórnmálamenn bera ábyrgð á því óheilbrigða velferðarkerfi sem nú er við lýði með einum eða öðrum hætti, þar sem óhófleg eyðsla af almannafé hefur viðgengist til þess að þjóna þeim hluta landsmanna er hafa aðgengi að sérfræðiþjónustu lækna á einkastofum.

Allir flokkar á þingi eiga sinn þátt í almannatryggingum og flókindum þeirra, en enginn hefur getað komist í gegn um endurskoðun laga þeirra, þing eftir þing.

Þessir sömu stjórnmálamenn flestir hafa einnig samþykkt það þrælahald er viðgengst gagnvart þorra launafólks í formi skatta,
þar sem hluti vinnandi manna hefur verið hlunnfarinn þeim mannréttindum að geta lifað af launum fyrir fulla vinnu.
Fullvinnandi fólk á láglaunatöxtum flokkast nefnilega undir fátæktarmörk hins opinbera að lokinni greiðslu skatta allra, og lögboðinna gjalda hvers konar svo ekki sé minnst á þjónustugjöld í hið rándýra heilbrigðiskerfi á höfuðborgarasvæðinu þar sem
þeir er hafa efni á ganga beint í dýrustu þjónustu á sviði lækninga. Allir landsmenn borga með ofursköttum án þess að njóta þjónustunnar svo nokkru nemi.


Enginn stjórnmálaflokkur þorir svo mikið sem að nefna innflytjenda mál á nafn, enn sem komið er og alla þá hræsni sem í því felst að
þykjast bjóða fólk af erlendu bergi brotið velkomið til þess að lifa við verri kjör en við sjálf, viljum lifa við.

Enginn þykist heldur vita af þeim vanda er hin Norðurlöndin hafa mátt takast á við í málum þessum , líkt og slíkt væri á annarri pláhnetu. Verkalýðshreyfingin er alltaf að koma úr jeppaferðum af fjöllum í þessu efni sem öðru.

Hér er því um að ræða kjarkleysi sitjandi fulltrúa almennings sem
ekki þora að ræða öll mál, bara sum, sem henta þannig að viðkomandi og hans persóna falli ekki mjög álitslega út í frá og
taki í raun aldrei nokkra afstöðu heldur sé með eða á móti til skiptis að hentugleikum hverju sinni.

Sömu menn með sama miðjumoðið kjörtímabil eftir kjörtímabil.
Engum dettur í hug að víkja fyrir nýjum mönnum innan eigin flokka og kanski mæla með þeim, þó slíkt væri eðlilegt og sjálfsagt.

Kynslóðaskipti þurfa að eiga sér stað í pólítik á Íslandi ef þoka skal málum fram á við, ekki hvað síst í þágu, ungra , aldraðra og sjúkra hér á landi, þar sem gjá milli þjóðfélagshópa hefur verið mynduð með vitund sitjandi stjórnmálamanna allra.

kveðja.
gmaria.