Nú er kominn talsverður tími síðan ég lofaði ykkur yfirliti yfir sögu heimsins sem ég byrjaði að skapa í þræði hér rétt fyrir neðan. Þar hefur ekkert verið sagt heillengi og því finnst mér ólíklegt að einhver sé að lesa hann ennþá, svo ég skelli tímalínunni sem er loksins nokkurnveginn birtingarhæf bara á sérþráð.
Þar sem eftirfarandi tímalína inniheldur nöfn sem ekki hafa verið kynnt áður, þá ætla ég að gera smá lista sem tengir bókstafaþjóðirnar úr gamla þræðinum við nýju heitin:
Menn A - Ekkert nafn komið ennþá
Menn B - Marathia
Menn C - Þjóð Drekans Mikla, í bili amk. Hljómar ekki vel á ensku svo ég er ekki endanlega sáttur með þetta.
Menn D - The Seaborn, áður Tesh-Kaljameans
Menn E - Toris
Menn F - Istaria
Menn G - Verslunarsambandið, í bili. Þarf að finna eitthvað betra.
Menn H - Saldea
Jæja, þá er mér ekkert að vanbúnaði, gjöriði svo vel!
[Fyrir sögulega tíma] – Drekar stjórna heiminum
[-10000] – Drekum fækkar, álfar stofna fyrstu borgirnar sem og heimsveldi sitt.
[-8000-3000] – Gullöld álfa, þeir stjórna löndunum umhverfis innhafið, dýrka gömlu goðin í miklum hofum, ástunda máttuga galdra og reisa glæstar borgir úr hvítum marmara.
[-2500] – Dvergar koma að norðan og stofna ríki sitt í fjöllum sem þeir skýra Doranak-fjöll og festist við þau. Einn ættbálkur þeirra telur þó hyggilegra að leita lengra vestur eftir hentugu búsvæði, til hans spyrst ekkert næstu árþúsundin. Álfarnir líta á dvergana sem hverja aðra villimenn eða drýsla og upphafleg kynni þeirra eru ekki vinsamleg. Eftir skammvinnar skærur átta álfarnir sig þó á mistökum sínum og bjóða dvergunum frið. Dvergarnir sættast á það með semingi, illviljugir til að fyrirgefa en ráða ekki við mátt álfanna.
[-2100] – Gnómar setjast að í skógunum rétt sunnan við austanverð Doranak-fjöll.
[-1800] – Dvergneski ættbálkurinn Nerak grefur námur sínar dýpra og dýpra og uppgötvar loks, fyrri tilviljun, hellakerfi djúpt ofan í jörðinni og flyst þangað, í leit að auðævum. Jarðskjálfti eyðileggur göngin fyrir ofan þá og þeir eru taldir af.
[-1650] – Ráðist er á dvergnesku borgina Kosh Tarrog af dvergum með gráa húð og furðulega galdrahæfileika sem grófu sig inn í borgina neðanfrá. Mikið dvergfall verður í fyrstu en þegar tekst að skipuleggja varnir gegn þessari nýju ógn er árásinni hrint – í bili. Á næstu áratugum verða fleiri fjallaborgir fyrir árásum af þessu tagi, sem fljótlega eru tengdar við dularfullt hvarf Nerak-ættbálksins.
[-1200] – Álfar byrja að kenna mönnum, sem hingað til hafa verið villimenn, um siðmenningu og allt sem henni fylgir, þar með talið gömlu goðin.
[-900-800] – Hópur álfa með meirimáttarkennd sem líkar ekki velgengni og hröð fjölgun mannanna tekur upp á því að ráðast á mennskar byggðir. Megnið af álfunum er hinsvegar mótfallinn þessum aðförum og reynir að fá þá ofan af þessu. Það tekst ekki og endar með blóðugri borgarastyrjöld. Mann-hatararnir taka smám saman upp aðra lifnaðarhætti til að forðast aðra álfa og verða náttverur. Þeim fækkar nóg til að mönnum hættir að stafa stór ógn af þeim og eftirlifendur fara í felur, dýpst í myrkustu skógunum og sumir hyljast jafnvel í hellum sem liggja djúpt undir fjöllin í suðri. Þessir álfar verða þekktir sem svartálfar eða, algengara: myrkálfar.
[-700] – Álfaveldið byrjar að dragast saman vegna fjölgun annara kynstofna og stríðsins við myrkálfa, sem skildi eftir djúp sár. Mennsk ríki (Toris, Saldea) stofnuð í austri. Skógar umhverfis innhafið smátt og smátt hoggnir niður af mönnum eftir því sem álfarnir hopa til að skapa pláss fyrir ræktarland.
[-481] – Ríkið Tesh-Kaljame stofnað á stórri eyju austan meginlandsins.
[-435] – Nýr keisari tekur við í Toris, Gorsas I. hinn herskái. Gorsas hyggst stækka ríki sitt verulega og hefur hernaðarundirbúning og þjálfun.
[-432] – Fyrstu landamæraskærurnar milli Toris og smárra nágrannaríkjanna í norðaustri. Nágrannaríkin algjörlega óviðbúin þegar Toriskar skjaldborgir hertaka þau flest á fáeinum vikum.
[-432-403] – Ríki Toris stækkar hratt undir stjórn Gorsasar I. og síðar sonar hans, Gorsasar II. hins mikla. Árið -430 ná landamæri ríkisins að Sverðflóa, um -425 að núverandi suðurlandamærum Saldeu, og árið –416 hefur mestallt svæðið sem nú er Istaria verið hertekið. Konungi Saldeu (Szertan IV.) líst ekki á blikuna og fyrirskipar byggingu landamærakastala til varnar, komi til stríðs við Toris. Gorsas II. hefur í hyggju að innlima Saldeu einnig í ríki sitt, en hugðist taka sér lengri tíma til þess. Þegar hann fréttir af byggingu kastalanna sér hann hins vegar ekki annarra kosta völ en að blása til sóknar. Þetta leiðir til mikils mannfalls í báðum herjum, þó sérstaklega þeim Toriska, veturinn -414. Umsátur hefjast víða og endast víða árum saman, þökk sé jafnt varnarmætti Saldeu og þrautseigju Gorsasar II. Á endanum falla þó kastalarnir einn af öðrum, og restin af Saldeu er innlimuð í Toris um -403.
[-400-390] – Sonur Gorsasar II., Helestan I. tekur við verki feðra sinna eftir að Saldeskur þjóðernissinni myrðir föður hans. Hann beinir sjónum sínum fljótlega til norðvesturs, þar sem lítt hervætt verslunarsamband hefur risið. Árið -399 marsera Toriskir hermenn inn á landsvæði Verslunarsambandsins og mæta lítilli mótspyrnu. Næstu árin fara í að innlima landsvæðið norðan innhafsins fullkomlega. Svæðin handan þess í vestri freista ekki keisarans, enda að mestu leyti skógur undir stjórn álfanna á þessum tíma.
[-315-302] – Vorið -315 er gerð uppreisn í höfuðborg Saldeu, Tarádrisz, gegn Torisku hersetuliði. Samtímis ræðst dvergneskt herlið inn í norðurhéröðin og hertekur borgina Orosz. Um mitt sumar er höfuðborgin öll á valdi uppreisnarsinna. Samskonar uppreisnir eiga sér stað vítt og breitt um Saldeu á næstu árum, og dvergneski herinn aðstoðar uppreisnarmennina við að tortíma Torisku skjaldborgunum. Þáverandi keisari Toris, Filnios IV., neyðist til að draga hersveitir frá ríkjum Verslunarsambandsins til að hafa stjórn á uppreisnum í Saldeu, sem dugar þó ekki til og eftir mikla orrustu við Readai árið -304 yfirgefa síðustu erlendu hersveitirnar Saldeu, sem er frjáls á ný, þökk sé aðstoð dverganna. Með enga landtengingu við landsvæði Verslunarsambandsins reynist Toris um megn að halda úti herliði þar, og árið -302 er það dregið til baka einnig.
[-156] – Hafgyðjan tortímir eyjunni Tesh-Kaljame sem refsingu fyrir hroka íbúanna, sem höfðu smám saman hætt að tilbiðja hana eftir því sem þjóðin auðgaðist á viðskiptum. Meirihluti eyjunnar sekkur í sæ í miklum hamförum svo einungis hæstu fjallatindar standa nú upp úr hafinu og mynda eyjaklasa. Þeir sem lifðu tortíminguna af eru útvaldir af gyðjunni til að sigla um höfin, forðast að stíga á land og vera eftirleiðis auðmjúkir þjónar hennar. Þeir verða eftirleiðis þekktir sem Hinir Sæbornu.
[-15] – Mennskur spámaður kemur fram og predikar orð fimmta guðsins, sem hann nefnir Ether. Aflar hratt fylgis sem og andstæðinga. Trúarbragðastríð brjótast út í kringum innhafið.
[0] – Nýja trúin kemur út ofaná, spámaðurinn deyr píslarvottsdauðdaga og er gerður að fyrsta dýrðlingnum. Kirkja Ethers stofnuð formlega ásamt ríkinu Istariu, þá einungis borgríki á vesturströnd Saldeu. Næstu árhundruð stækkar Istaria talsvert þegar fleiri og fleiri héröð kjósa frekar að heyra undir stjórn nýju kirkjunnar en Saldesku galdramannaættirnar. Áhrifin teygja sig einnig inn í Viðskiptasambandið, og á endanum greiðir allur Terim-skagi tíund til Ether-kirkjunnar í Istariu.
[2-10] – Þeir sem aðhyllast enn gömlu trúna hörfa til vesturs, hópur manna siglir vestur í leit að nýjum löndum. Finna gjöfult land handan Sólseturshafs, stofna þar keisaraveldi byggt á gömlum gildum. Rekast á afkomendur dverganna sem héldu vestur fyrir löngu, og höfðu stofnað þar lítið keisaraveldi í fjöllunum. Lenda í stríði vegna tortryggni dverganna sem höfðu engan hitt síðustu 2500 árin nema drýsla og risa.
[178] – Akhdor, ríki risanna, stofnað á suðurströnd innhafsins af eyðimerkurhirðingjum sem kjósa að setjast að við ströndina.
[266] – Istarianskur aðalsmaður að nafni Verdian setur saman lítinn flota og siglir þvert vestur yfir innhafið til að stofna þar ríki. Hann kemur að rústum borgarinnar Nessith Tel, sem álfar höfðu yfirgefið árhundruðum áður. Hann stofnar þar borgina Khalast og ríkið Marathiu, gerist Verdian I. konungur, síðar þekktur sem hinn guðlausi.
[275-310] – Landnemar flykkjast frá Istariu og Toris til Marathiu í von um betri lífsskilyrði. Marathia stækkar því hratt fyrstu áratugina og fleiri bæjir og borgir eru stofnaðar, margar á rústum yfirgefinna borga álfanna. Sonur Verdians I., Ridias I., tekur til við að skipuleggja ríkið betur eftir að hann tekur við embætti við lát föður síns veturinn 289. Kemur á fót lénsskipulagi að Istarianskri fyrirmynd, án jafn sterka tengsla við kirkjuna hins vegar.
[703] – Þjóð drekans mikla ryður sér leið að norðan í gegnum Doranak-fjöll, leidd af spámanni sem boðar fyrirheitið gnægtaland sunnan við fjöllin. Setjast að á norðanverðum sléttum Marathiu, í óþökk nýrra nágranna sinna.
[1022] – Núna.
Öll hjálpleg komment vel þegin. Ég veit að nánasta saga ætti að vera nákvæmari, og hún á eftir að vera það. Ég hef bara verið í nógu basli við að skipuleggja fjarlægari fortíð að ég hef skilið hana eftir í bili :)
Peace through love, understanding and superior firepower.