Ég leit á ný í andlit drengsins. Hann var farinn að stálpast, hafði séð á að giska seytján vetur. Augun voru daufgræn og hárið dökkt eins og títt var um fólk á þessum slóðum. Að slepptum óhrjálegum hárlubbanum var stráksi hinn þekkilegasti. Í annari hendi hélt hann á einum af bleðlunum sem ég hafði látið dreifa á krám bæjarins. Á blaðinu var eins og vera bar gaumgæfileg lýsing á einum hinna eftirlýstu, sem og tilgreind fjárupphæð sem veitt yrði þeim sem hefði hendur í hári sakamannsins.
Jæja, sagði ég. Hvar og við hvaða kringumstæður sástu hann?
Drengurinn hefur máls, en ég neyðist til að stöðva hann. Sjö mánuðir á þessum volaða útnára hafa ekki dugað mér til að ná almennilegum tökum á málýskunni.
Hægan, Drengur, hægan. Reyndu að venja þig á greinilegri talsmáta. Og byrjaðu á byrjuninni: Hver þú ert, og hvaðan.
- Herra, ég heiti Aicéth. Ég kem frá Danak.
Gott.
- Faðir minn var kráareigandi í Danak. Hann er það ekki lengur, því maðurinn af spjaldinu drap hann.
Hvernig bar það til?
-Þessi maður sat, segir hann og réttir mér bleðilinn, fyrir tólf dögum við borð í gistihúsinu okkar.
Í Danak?
-já.
Ég kinka til hans kolli, til merkis um að frásögninni skuli haldið áfram. Stráksi tekur sér stutta hvíld, sýgur uppí nefið og heldur áfram:
Það var helgidagur og margt fólk, góð sala. En maðurinn þarna, sat einn útí horni með sorgarsvip. Þegar ég ætlaði að þjóna honum til borðs kemur pabbi til mín og segir: Aicéth, sérðu greyið þarna í horninu.
Já sagði ég auðvitað.
-Þegar menn eru svona á svipinn hafa þeir misst einhvern sem þeir elska, hélt hann áfram. Stundum koma hingað menn að sunnan til að gleyma, einn missti stúlkuna sína, annar krakkana þrjá. Sumum þeirra finnst að vísu sopinn góður, en sorgarfuglar eins og þessi eru beinlínis slæmir fyrir viðskiptin. Hana, láttu mig hafa bakkan, ég skal gá hvort mér tekst ekki að létta karli lund.
Á-áður en pabbi kemur að manninum felur hann bakkann ofan á burðarbjálka. Þetta var eitt af brögðum hans til að koma fólki á óvart, ég hafði svo sem oft séð það gert áður. Næst gengur pabbi tómhentur að borðinu og verður fólk hans þá vart, en lítur þá ráðvilltur í kringum sig. Læst fá góða hugmynd og þylur djúpri röddu nokkur forneskjuleg orð. „Töfrar" svo bakkann ofan af bjálkanum með snöggri handahreyfingu og viðeigandi flírubrosi.
Röddin í strákgemlingnum brestur aðeins í síðasta orðinu og hann lítur niður fyrir sig. Ég klappa honum létt á öxlina og segi: Hvað svo, drengur minn, hvað svo?
É-ég hafði auðvitað séð pabba gera þetta ótal sinnum, og var alveg hættur að fylgjast með honum, en reyndi heldur að sjá í andlit gestanna. Þegar pabbi byrjaði að romsa bullinu upp úr sér varð gesturinn viðundurslega hræddur í framan, ég held ég hafi aldrei séð fullorðinn mann jafn skelkaðann á svipinn. Hann hvítnaði og það var eins og augun ætluðu úr tóftunum. En það var bara í augnablik. Svo stökk hann á fætur, hafði dregið sverð úr felum undan ferðaskikkjuni og -
Lagði til pabba þannig að hann dettur og tekur með sér matarbakkann í fallinu. Það var blóðsúpa, flesk og kál á gólfinu. Svo fór maðurinn bara. Gekk út.
-Út? Hvert þá?
Hann reið áræðanlega til suðurs, hann kom úr norðvestri og hesturinn hans var búinn nægum vistum til að komast alla leið yfir landamærin.
-Gott. Skildi hann nokkuð eftir, einhver verksummerki, eða átti hann vini í bænum?
Hann yrti ekki á nokkurn mann meðan hann var á kránni. En í asanum skyldi hann þetta eftir á borðinu.
Drengurinn dregur nú uppúr vasa sínum litla bók, fjaðurpenna og blekbyttu, og leggur á borðið. Nú brosi ég við stráknum.
-Hreint ekki sem verst! Þú hefur staðið þig með stakri prýði, strákur.
Hann hálfbrosir, ánægður með sig, og sýgur aftur uppí nefið. Ég tel saman átta skildinga gulls og rétti stráknum. Segi um leið og hann tekur á móti:
Þetta voru mér kærkomnar upplýsingar piltur minn, bæði mér og heimalandi mínu. Taktu þetta fyrir þig og móður þína. Jafnframt mun ég, sé það þinn vilji, greiða fyrir inngöngu þinni í varðsveit hólmlendunnar. Thay hefur sannarlega hag af þjónustu greindra og hugaðra ungra manna á borð við þig. En hafðu mig nú afsakaðan, ég þarf að greina yfirmanni mínum frá þessum atburðum.