Petya hafði ekki fyrr mælt síðasta orðið í töfraþulunni þegar allt varð hvítt. Bókstaflega. Hann birtist á nákvæmlega sama stað í litlausa dalnum og áður en í þetta skiptið var hann bæði vopnaður og geislaði sjálfur réttum litum. Firan bróðir hans stóð þarna rétt hjá og heilsaði honum með bros á vör.

“Velkominn aftur kæri bróðir. Hvernig gekk?”. Sagði Firan glottandi út í annað. Hann vissi vel að allt hefði gegnið eftir áætlun enda hafði hann haft mikinn tíma til að skipuleggja og undirbúa þetta og hann hafði líka fylgst með allan tíman en Petya vissi það ekki og þurfti í sjálfu sér ekkert að vita það til að þjóna sínum tilgangi.

Petya varð dálítið skömmustulegur á svipinn. “Skoooooh….!”. Hann hugsaði hvernig best væri að orða þetta. “Góðu fréttirnar eru þær að ég fann þennan Kravin félaga þinn vandræðalaust.”. Firan horfði á Petya fullur eftirvæntingar. “EEeeeen…”.

“Slæmu fréttirnar?” sagði Firan glottandi og reyndi að vera hjálplegur.

“Ég er hræddur um að hann hafi svikið þig. Þegar ég fann hann og kynnti mig rést hann á mig. Ég neyddist til að drepa hann. Alveg óvart. Það var sjálfsvörn sko. En það verður ekki mikið gagn í honum héðan af.” útskýrði Petya og vonaði að hann væri ekki búinn að eyðileggja einu von Firans um mannsæmandi eftirlíf.

“Nú, nú?” spurði Firan enn brosandi “Segðu frá.”.

“Tjah, um leið og hann fattaði hver ég var kastaði hann einhverri helvítis bölvun á mig sem virtist sjúga úr mér allan kraft og færa yfir í hann. Þetta víxlaði meira að segja á fötunum okkar og vopnum.” sagði Petya hálf skömmustulega. “Bara verst að hann var hvorki í brynju né vopnaður svo ég stóð bara þarna eins og asni, vopnlaus, varnarlaus og nánast máttlaus.”. Honum leið frekar illa að rifja upp hversu bjargarlaus hann hafði verið. Hann hafði ekkert spáð í því á meðan á því stóð en nú gerði hann sér grein fyrir því hversu slæm staða hans hafði verið og það var í raun og veru bara ótrúleg slembilukka að hann hefði lifað þetta af.

“Hmm…frekar slæm staða heyrist mér. Hvernig tókst þér að drepa manninn svona illa búinn?” spurði Firan og þóttist vitaglórulaus.

Petya ver ekki alveg viss um það sjálfur hvernig hann hafði gert það sem hann gerði en bauð fram einu skýringuna sem hann gat látið sér detta í hug. “Ja, ég hugsa að hann hafi eitthvað misreiknað sig í galdrinum. Hann saug úr mér allan kraft en ég hugsa að hann hafi óviljandi látið mig hafa einhvern töfrakraft í staðin, sem sagt víxlað á kröftum eins og fötunum. Ég kastaði allavega einhverjum eldgaldri og þá var málið útrætt”

“Funafingur er hann kallaður í daglegu tali meðan kunnugra” útskýrði Firan.

“Ha…?” hváði Petya aulalega.

“Særingin sem þú framkallaðir er kölluð Funafingur. Litlir logar frussast með miklu afli frá puttunum og brenna allt sem fyrir þeim verður.”.

“Hvernig vissirðu…ég sagði aldrei…?”

“Og nei, það voru ekki töfrakraftar Kravins sem hjálpuðu þér að gera það sem þú gerðir. Kravin karlinn var það sem við köllum algjörlega kynngiþroskaheftur en hann þjónaði samt sem áður sínum tilgangi fullkomlega.”. Firan fékk einhvern hættulegan glampa í augun þegar hann sagði frá þessu.

“En hann kastaði þessari bölvun á mig?? Ég skil ekki, hvernig þjónaði hann hvaða tilgangi?!?”. Petya var ekki búinn að vera hér í þessum furðuheimi Firans í nema nokkrar mínútur en var strax farið að líða eins og versta hálfvita. “Ég er hættur að fatta.”.

“Bölvunin sem ég lét Kravin fá var svo einfaldlega uppsett að sæmilega vel gefið vörtusvín hefði getað virkjað hann.” útskýrði Firan. “Sæmilega vel gefið vörtusvín er reyndar ágætis lýsing á honum Kravin.” bætti hann svo við.

“Lést þú hann hafa þennan galdur?” spurði Petya forviða.

“Já, og hann Kravin stóð sig með prýði og gerði allt það sem ég skipaði honum að gera.” svaraði Firan.

“Hvað??”

“Og þú stóðst þig líka með prýði bróðir sæll og gerðir nákvæmlega það sem ég bjóst við af þér.” hélt Firan áfram.

Petya var með svona þúsund og tvær heimskulegar spurningar í kollinum og skildi hvorki upp né niður. Hann var hinsvegar kominn með alveg nóg af þessum skrípaleik bróður síns. “Útskýra takk!”. Urraði Petya þungur á brún.

“Þó það nú væri.” svaraði Firan. “Seinast þegar þú varst hérna gaf ég þér gjöf kæri bróðir.”

“Öllu má nú nafn gefa.” hnussaði Petya.

“Ertu búinn að átta þig á því hver sé gjöf var.” spurði Firan með fölskum blíðleika.

“Dálkur í görn?” svaraði Petya kaldhæðnislega.

Umræddur rýtingur birtist í hægri hendi Firan. Hann hélt um blaðið og rétti hann hægt til Petya með skaftið fram.

Petya hikaði aðeins en tók svo við hnífnum.

“Stingdu þig.” sagði Firan rólegur.

“Hoppaðu upp í rassgatið á þér.” svaraði Petya með svipuðum tón.

“Þetta er ekki hnífur Petya. Það sem þú skynjar hér sem líkama þinn er ekki líkami þinn. Þegar ég stakk þig með hnífnum var þér engin hætta búin.” útskýrði Firan. Það að Petya hefði ekki verið í neinni hættu var haugalygi en þar sem hann hafði lifað sjokkið af þurfti hann ekkert að vita um það. “Það er mjög óþægileg reynsla þegar mjög örar breytingar eiga sér stað í sálu þinni og huga. Þess vegna varð ég að gefa þér gjöf mína í formi rýtings. Það er óþægileiki og sársauki sem þú skilur. Ef ég hefði gert það sama við þig án þess að gefa huga þínum neina hugmynd um hvað væri að gerast hefðir þú hugsanlega getað misst vitið og það viljum við varla?”.

“Huh, þú hefðir nú samt getað varað mig við.” röflaði Petya.

“Já, mjög sniðug Nei, Petya, hæ, gaman að sjá þig, má ég stinga þig með þessum hníf?” svaraði Firan. “Hefði það virkað betur?”.

Petya þagði. Hann þoldi ekki að hafa engin svör á reiðum höndum.

“Stingdu þig með hnífnum. Ekkert djúpt, bara smá skurður einhverstaðar. Einbeittu þér svo að sárinu og reyndu að kalla fram mynd af mömmu okkar í huga þér.” sagði Firan.

Petya hugsaði sig aðeins um og færði rýtinginn svo hægt að vinstri lófanum. Hann gaut augunum grunsamlega í átt að Firan sem brosti til hans allur hinn sakleysislegasti. Petya dró blaðið létt yfir lófann og beit á jaxlinn þegar sársaukinn sagði til sín. Hann fylgdi fyrirmælum Firan og lokaði augunum og einbeitti sér að sárinu og fann strax að hann var ekki að finna sársauka. Ekki líkamlegan sársauka allavega. Hægt og rólega fjaraði þessi tilfinning út uns bara örlítill fiðringur sat eftir. Petya mundi ekkert eftir móður þeirra bræðra svo hann skildi ekki hvers vegna hann átti að reyna að sjá hana fyrir sér, hann hafði reynt það án árangur í 25 ár, en um leið og hann fór að hugsa út í þetta birtist í huga hans mynd af gullmyndarlegri álfakonu. Hún var um 250 ár, með ljóst, nánast gulllitað slegið hár sem náði langt niður á bringu, góðlegt andlit og nákvæmlega sömu augu og Petya. “Mamma?” missti Petya út úr sér af undrun. Undrunin var hinsvegar ekki vegna þess að hann var að sjá móður sína í fyrsta skiptið. Undrunin var vegna þess að hann þekkti þessa konu. Hann hitti hana fyrir rúmum tveimur áratugum. “En þetta er…” byrjaði Petya en setningin dó út.

“Já, þetta er hún.” svaraði Firan brosandi.

“En…vissi hún?…að ég var…að hún væri…?”.

“Ég held það já.”.

“En….”. Petya var enn að sjá svipmyndir af móður sinni í huga sér. Gamlar löngu týndar minningar flugu um kollinn hans og hann bar þær saman við nýlegar minningar hans af þessari konu sem hann gerði sér nú fyrst grein fyrir því að var móðir hans. “…af hverju sagði hún ekkert…?”.

“Hvað gat hún sagt? Þú mundir ekkert. Þú varst ekki einu sinni sami maðurinn. Þú varst ómótað barn í líkama sonar hennar. Það eina sem hún gat gert var að sýna þér skilyrðislausa ást.” svaraði Firan.

Petya opnaði aftur augun dolfallinn. “Þetta útskýrir frekar margt. Ég skildi aldrei hversvegna hún tók mig í flokkinn eins gagnslaus og ég var þá.”.

“Það er henni að þakka að þú ert sá maður sem þú ert í dag Petya minn. Hún ól þig í raun tvisvar upp og tókst bara bærilega í bæði skiptin. Merkilegast þykir mér hversu svipuð persóna þín er að vissu leiti þeirri persónu sem þú hafðir að geyma áður.”. Petya gat ekki betur en að það mótaði fyrir einhverri einlægni í röddu bróður síns þegar hann mælti þetta.

“Svo hnífurinn gaf mér minningarnar mínar?” spurði Petya.

“Hluta af þeim, já.” svaraði Firan. “Afganginn færðu þegar þú hefur hjálpað mér.”.

“Þú veist vel að ég hjálpa þér hvort sem ég fæ eitthvað í staðin eða ekki.” sagði Petya hálfmóðgaður.

“Kannski svo já en mér líður betur að hafa smá tryggingu.” sagði Firan dálítið kuldalega. “Sjáðu til, þú ert í raun mín eina von. Ef þú hættir einhverra hluta vegna við þá dúsi ég hér til eylífðar nóns og sennilega lengur. Mér líður betur ef ég veit að þú hefur einhverja hvattningu aðra en bara bróðurkærleik. Þetta er nú það sem þú ert búinn að vera leita að síðustu ár, ekki satt?”.

“Lengur.”

“Einmitt, en nú er leitin á enda. Hjálpaðu mér og minningarnar verða þínar. Ef ekki þá muntu aldrei muna meira en þú gerir núna, sama hvað þú reynir.”.

Petya reyndi að lesa úr andliti Firans hvort þetta var einhverskonar hótun en svipur Firans gaf bara til kynna að hann væri að segja frá óhagganlegum staðreyndum eins og að vatn væri blautt.

Petya var í þann mund að fara að spyrja hvernig stæði á því að hann hefði misst minnið og hvers vegna Firan einn gæti gefið honum þær aftur þegar honum datt skyndilega önnur spurning í hug sem hann þurfti að fá svar við sem fyrst. “Ef ég fékk enga krafta frá Kravin, hvernig gat ég þá galdrað?”.

“Minningar voru ekki eina gjöfin sem í hnífnum bjó.” sagði Firan.

Petya beið þögull eftir frekari útskýringum.

“Manstu eftir Gríffona-klúbbinum okkar gamla?” spurði Firan. Petya kinkaði kolli. “En manstu að það varst þú sem varst langklárastur okkur krakkana þegar koma að töfrum?”.

Petya varð frekar sauðalegur á svipinn. Þessu mundi hann ekki eftir. Firan var, eða hafði verið í lifanda lífi, kraftmikill og metnaðarfullur seiðkarl. Ef hann ætti að giska á að einhver krakkana í Gríffona-klúbbnum stæði frama en allir hinir í kyngilistum þá hefði hann giskað á bróður sinn. En ég vildi bara bogann?“ sagði hann.

”Jú, mikið rétt, þú hafðir ekki mikinn áhuga á þeim krafti sem bjó innra með þér en þú áttir samt sem áður alveg ótrúlega auðvelt með að stjórna honum. Þú hafðir líka ótrúlegt lag á að hjálpa okkur hinum að skilja þessa krafta og kenna okkur að nota þá. Ég gerði mér ekki grein fyrir því hversu góður kennari þú varst og hversu mikið og við öll höfðum lært af þér fyrr en ég hóf formlegt lærlingsnám hjá alvöru galdrameistara. Hugsunarháttur hans var svo íhaldsamur og lokaður. Hann skildi ekki orkuna, kunni bara að stjórna henni með leiðum sem hann lærði utanbókar og bjóst við að ég gerði hið sama. Hann bar enga virðingu fyrir töfrunum, áleit sjálfan sig meistara þeirra þegar hann var í raun bara að nýta ómerkilegt brotabrot af orkunni sem flæddi í kringum hann. Kerfisbundinn og ósveigjanlegur. Gat ekkert spunnið af fingrum fram af því hann skildi ekki töfrana. Skildi bara þulur og rúnir og hreyfingar. Hann hafði ekkert að kenna mér. Ég, þú og festir aðrir krakkarnir vorum komin langt fram úr honum í hæfileikum þegar við vorum tuttugu og fimm og það var að megninu til þér að þakka.“.

Petya starði á Firan með opinn munninn.

”Manstu eftir fyrsta galdrinum sem þú kenndir mér? Í skiptum fyrir fyrsta bogan þinn?“.

Petya reyndi að muna betur eftir fyrstu ”vöruskiptum“ hans og Firans. Hann sá sjálfan sig æfa sig með boganum skjótandi í skotmark sem hann hafði rist tré, bara grunnt í börkinn til að tréð myndi jafna sig, á meðan Firan las skjalið sitt í bak og fyrir. Petya sá hvernig Firan æfði hreyfingar og framburð tímunum saman. Hann þegar Firan reyndi aftur og aftur að mynda ísinn sem galdurinn átti að gera. Hann sá Firan missa stjórn á skapinu af pirringi og gremju, krumpa skjalið saman og fleygja því í grasið. Hann sá sjálfan sig taka skjalið upp og slétta út því. Hann skoðaði skjalið, las í gegnum galdurinn og sá hvernig hreyfingarnar og hljómfallið var til þess ætlað að skapa ákveðnar sveiflur í andrúmsloftinu í kring um hönd lesandans. Hann sá fyrir sér í huganum hvernig með einbeitningu hann gæti breytt orkunni sem flæddi í gegnum hann og alla hluti þegar hún flæddi í gegnum huga hans. Ekki mikil breyting en nóg til að beina ákveðinni tegund af þessari orku á ákveðna staði í nógu miklu magni til að framkalla breytingu á nánastaumhverfi. Eftir það var þetta bara spurning um keðjuverkun. Ein ögn af ís sem myndaðist myndaði aðra og svo koll af kolli þarfi ákveðnu lágmarki var náð. Síðan var orkuflæðinu aftur breyt með því að mynda ákvenar bylgjur með réttum hljóðum og beygja einbeitninguna á aðeins annan hátt til að sama orka og skapaði ískristallana myndi nú hrekja þá með ógnarhraða frá kastaranum. Petya sá sjálfan sig útskýra þetta fyrir Firan á myndrænan hátt. Hann leitaði að nýjum og nýjum leiðum til að sýna Firan hvernig hann tók stjórn þessarar orku í sínar hendur og hvað það var sem framkallaði galdurinn frekar en að sýna honum bara hvernig hann átti að fara að. Petya sá Firan reyna aftur að kasta galdrinum með leiðsöng sinni. Eftir þriðju tilraun þaut hárbeitt ísnál frá lófa Firan og splundraðist á skotskífu Petya í þúsund litla ísmola sem hægt og rólega bráðnuðu í miðdegissólinni.

”Þarna kom það.“ sagði Firan.

”Hættu að lesa hugsanir mínar lufsan þín. Ég get alveg sagt þér hverju ég man og man ekki eftir“ sagði Petya pirraður.

”Ég þekki huga þinn betur en þú sjálfur. Af hverju á ég að hætta að lesa hann?“ svaraði Firan af bragði glottandi. ”Síðan ertu lítið annað en hugsunin ein hérna á þessum stað. Ég gæti ekki hætt að lesa huga þinn þó ég glaður vildi.“

”Þetta er bara frekar niðurlægjandi að þú vitir hvað ég er að fara að segja áður en ég segi það.“ svaraði Petya fýldur.

”Þú veist ekki hvað niðurlæging er. Hvernig heldurðu að það hafi verið að láta tíu ára gamlan litla bróðir sinn hjálpa manni að læra ein einfaldasta galdur í heimi?“. Firan varð grimmilega sár á svipinn þegar hann sagði þetta. ”Galdrar voru mér allt. Það eins sem mig langaði að vera frá því ég man eftir mér var galdramaður eins og pabbi okkar. Þú hafðir engan áhuga á því en þú fékkst alla hæfileikana.“.

”Þú varst bara fjórtán ára gamall sjálfur og þú framdir galdur sem flestir álfar ná ekki tökum á fyrr en upp úr sextugu ef þeir þá ná tökum á honum yfir höfuð.“ svaraði Petya rólegur. ”Það var bara óraunhæft af þér að búast við því að geta kastað honum snurðulaust í fyrsta skiptið sem þú reyndir.“

”En þú þurftir ekki einu sinni að reyna! Þú bara sást. Þú bara skildir. Þú bara gast.“ öskraði Firan. ”Og þú þurftir ekki einu sinni að hafa fyrir því.“ bætti hann við aðeins rólegri.

Bræðurnir horfðust vanræðalega í augu í smá stund. ”En það er liðin tíð.“ sagði Firan aftur rólegur. ”Og ég hef ávalt verið þér þakklátur fyrir aðstoðina þrátt fyrir að það hafi verið niðrandi. Ég varð betri töframaður þökk sé þér. Mun betri en þú gerir þér grein fyrir.“. Seinustu setninguna virtist hann segja bara fyrir sjálfan sig, Petya heyrði hana varla.

”Með hnífsstungunni fylgdi líka bróðurparturinn af gamla töframætti þínum. Það er að segja tengingu þinni við þá óendanlegu orku sem við köllum töfra.Hérna á þessum stað greinir þú þessa orku sem liti. Þetta er eins konar vasa vídd, á milli heima, haldið saman með töfrum. Þess vegna virðast bara hlutir sem ríkir eru af töframætti vera raunvörulegir. Allt annað virkar bókstaflega litlaus. Eins og þú varst áður en ég “stakk” þig.“

”Af hverju man ég þá ekki hvernig á að galdra?“ spurði Petya.

”Töfrar eru miklu, miklu flóknari hlutir en einfaldar minningar. Minningar eru bara skrifaðar í hausinn á þér en töfrar eru samofnir sálu þinni og anda. “Það verður svolítill tími þar til þú öðlast aftur þá færni sem þú hafðir þegar við vorum strákar. En þú manst samt Petya minn, það er þarna innst inni í þér. Það þurfti bara dálítið öfgafullar aðstæður til að kalla það fram.”

“Kravin?”.

“Einmitt. Undirmeðvitundin leitar allra leiða til að bjarga sér. Þess vegna þurfti að svipta þig öllum þeim bjargarleiðum sem þú hefur stólað á síðastliðin ár til að undirmeðvitund þín leitaði nógu djúpt til að finna það sem ég gaf þér. Eftirleikurinn voru bara viðbrögð. En sjokkið var nóg til að þú færir hægt og rólega að gramsa um í gömlu minningunum þínum.”.

“Fyrirskipaðir þú Kravin að ráðast á mig?” spurði Petya. Honum var að hitna í hamsi.

“Ég hafði ekki tíma til að bíða eftir að þú færir þér sjálfur að voða. Ég varð að framkalla aðstæður sem myndu koma þér í samband við nýja krafta þína. Eða gamla ef þú vilt líta þannig á það?”.

“Svo þú fórnaðir lífi saklauss manns fyrir þína eigin hagsmuni?” öskraði Petya á bróðir sinn? “Og hvað ef þetta plott hefðir klikkað? Ég væri dauður!”.

“Eins og ég sagði Petya þá þekki ég huga þinn miklu betur en þú sjálfur. Þetta var engin áhætta af þinni hálfu.”. Meiri lygar en dæmið hafði gengið upp svo Petya þurfti ekki að veita annað. “Og varðandi Kravin…enginn er saklaus, sérstaklega þessi rotta svo farðu rólega í að dæma menn saklausa án þess að vita betur.”. Firan lagði höndina yfir augun á Petya. “Slakað á, ég ætla bara að sýna þér dálítið.”.

Petya lokaði augunum og sá strax myndir birtast í huga sér. Hann sá Kravin í skuggalegum húsasundi einhverstaða í bryggjuhverfi Mirrosar. Hann var að greiða öðrum álíka subbulegum, feitlögnum manni með alskegg tvo koparskildinga. Maðurinn snéri sér að hurðinni sem hann stóð fyrir framan, opnaði hana og benti Kravin að ganga inn. “Góða skemmtun.” sagði karlinn og hló ógeðslega. Petya sá Kravin ganga inn í lítið geymsluherbergi og loka hurðinni á eftir sér. Í herberginu var einn gamall kollur og einn skítugur beddi. Á beddanum sat stúlkubarn og hjúfraði sig upp að löppunum sínum með skítugt lakið vafið um sig. Hún leit upp til Kravins með og hræðslan skein í gegnum tárin í fagur bláum stórum augunum. Skítugt ljóst hárið lafði niður að öxlum og Petya sá toppinn á oddhvössum eyrum standa út undar hárinu. Þetta var um 7-8 ára gamalt álfabarn. Kravin var búinn að klæða sig úr skyrtunni og var að losa beltið og labbaði kokhraustur í áttina að barninu og sagði “Svona, svona, Pabbi er hér.” og hneggjaði ógeðslega úr hlátri.

Petya reif höndina á Firan frá andliti sínu og öskraði “Þetta er nóg!”. Hann sagði Firan það ekki en nú var hann fegin að hann hafði drepið Kravin á þennan hátt. Firan var líka vafalaust löngu búinn að lesa það í hugsunum hans.

Petya fannst komið alveg nóg af útskýringum í bili en eitt varð hann þó að vita. “En af hverju missti ég minnið og töfrana til að byrja með…” byrjaði Petya að spyrja en Firan sussaði niður í honum

“Uss, bíddu!” sagði Firan og starði einkennilega út í loftið í augnablik og leit svo grafalvarlegur á Petya. “Þú þarft að fara!”.

“Hvað?” spurði Petya frekar furðulostinn á þessum viðbrögðum.

“Nákvæmlega núna er ekki mjög góður tími fyrir þig að vera ekki með líkamanum þínum!” svaraði Firan. “Þú þarft að fara til baka og þegar þú ert búinn að leysa það vandamál sem bíður þín þarftu að finna gamla rannsóknastofu sem ég helt uppi á árum áður nálæg Stilkabrún.”.

“Stilkabrún í Álfheimum? Hvað í ósköpunum varst þú að gera…” en Petya komst ekki lengra.

“Eftir um það bil hálfa mínútu,” greip Firan fram í fyrir Petya “verður ráðist á þig og ef hugur þinn er ekki þar til að stjórna líkama þínum þá verður sú árás freka stutt og við dúsum hér báðir næstur milljón árin eða svo.” sagði Firan æstur. “Þú þarft að fara NÚNA!”

“Nú, sendu mig þá til baka!” bað Petya.

“Þú komst hingað sjálfur í þetta skiptið, það eru þínir töfrar sem halda þér hér núna, ekki mínir.”

“Sagðirðu ekki að þeir virkuðu ekki strax??”

“Lýttu á sjálfan þig Petya. Þetta sem þú skynjar sem liti hér eru töfrar. Kraftmikil náttúruleg orka sem flæðir í gegnum þig og þú getur stjórnað. Það sem þú vilt getur þú látið gerast, þú getur stjórnað öllu með þessari orku ef þú lærir að nota hana rétt. Þú ferð til baka einfaldlega með því að vilja það. FLJÓTUR, viljaðu þig til baka, STRAX!”. Firan var orðin virkilega æstur.

Petya lokaði augunum fast og einbeitti sér. “Ég vill ekki vera hér. Ég vill fara til baka. Ég vill vakna. Ég VERÐ að vakan! HLÝDDU!!” hugsaði hann. Ekkert gerðist. “Þetta gengur ekki!” sagði hann pirraður og opnaði augun.

- - -

Hann var staddur í rjóðrinu þar sem hann hafði ákveðið að eiga næturstað. Varðeldurinn logaði glatt og varpaði hlýrri birtu sinni á tötralega klæddan mann sem labbaði ákveðinn í áttina að Petya með stutt sverð sem hann var að reiða til höggs. Annar maður, betur til fara, klæddur í sæmilega heila leðurbrynju yfir ómerkilegum en heillegum vinnumannaklæðum. Sá var vopnaður stærra sverði en það lá á jörðinni við hlið hans þar sem hann kraup hinumegin við eldinn og gramsaði í gegnum söðultösku Petya. Petya hafði lítinn tíma til að hugsa en var kominn með allat þær upplýsingar sem hann þurfti. Í einni svipan kastaði hann sér framfyrir sig í kollhnís í átt að fyrri ræningjanum og í miðjum snúningnum dró hann sitt eigið stuttsverð úr slíðri sínu, trix sem hann hafði mikið æft í gegnum árin svo þegar hann kláraði kollhnýsinn stóð hægri hönd hann með sverðinu útrétt beint fram og skriðþungi hans rak það á bóla kaf í mjúkan kviðinn á manninum sem hafði réttilega haldið að Petya væri ekki með meðvitund en það hafði breyst 10 sekúndum nógu snemma. Petya ýtti deyjandi durgnum til vinstri en tók sjálfur hliðardýfu til hægri og rúllaði sér í heilan hring, staðnæmdist og eins snöggt og hann gat greip hann kasthnífinn sem reifaður var við vinstri úlnliðinn og fleygði af öllu afli í seinni ræningjann sem var nú búinn fleygja verðandi ránsfeng sínum til hliðar,grípa upp sverðið sitt og var hlaupandi í áttina að Petya. Hnífurinn hitti marks en ekki eins vel og Petya hafði vonað. Blaðið lenti hálf skakkt í brjóstkassa brynjunar, einmitt þar sem hún var þykkust. Hnífurinn dreif í gegn en myndaði aðeins smá skeinu og gerði lítið annað en að tefja manninn um nokkrar sekúndur á meðan hann barði hnífinn úr brynjunni. Þessar sekúndur voru samt sem áður nægilegur tími til að Petya gæti dregið seinna sverðið sitt og komið sér fyrir í þægilegri stellingu. Hann kom vinstri fæti vel fyrir framan sig en hvíldi hins vegar mestallan þunga sinn á hægri fæti. Sverðið reiddi hann yfir höfuð sér og beindi oddi blaðsins bein að andstæðingi sínum. Í vinstri hendinni var hann vanur að hafa styttra sverð sitt sem hann notaði til að bægja frá árásum til að greiða leið fyrir banahögg með hægri hendi. Nú var vinstri höndin hinsvegar tóm, svo hann hélt henni bara útréttri og benti á ræningjann. Vita tilgangslaust en nokkuð ógnandi og í svona aðstæðum gat það skipt sköpum.

- - -

Akkor var æfur af reiði. Hann var skapstór maður að eðlisfari með stuttan þráð og að sjá bróðurson sinn rekinn á hol af svona álfadruslu var miklu meira en nóg til að hann missti gjörsamlega stjórn á sér. Honum brá hinsvegar gífurlega þegar hann sá hvað álfurinn bjó yfir miklum hraða og snerpu. Á augnabliki var hann búinn að velta sér burt frá deyjandi líkaman Antons unga og kasta í Akkor hníf. Sem betur fer var kastið lélegt en Akkor varða að reikna með þar hefðu örlaganornirnar verið á hans bandi frekar en að álfurinn kynni ekki til verka, nóg var hann vopnaður en bar þó enga brynju, það var plús. Hann sló í hnífinn sem var nóg til að losa hann út leðrinu en þegar hann leit aftur upp og ætlaði að vaða í álfsafstyrmið sá hann að dýrið var búið að draga sverð og koma sér vel fyrir í bardagastellingu og beið þolinmóður eftir honum. Akkor kæfði niður reiðina…í bili að minnsta kosti. Hér var greinilega á ferðinni álfur vel þjálfaður í bardagalistum. Akkor hætti við árásina og brá fyrir sér sverðinu. Hann bakkaði eylítið og byrjaði að hringsóla í kring um eldstæðið þar til logandi varðeldurinn var kominn á milli mannanna tveggja. Álfurinn hreyfði sig ekki öðruvísi en að snúa sér alltaf að Akkor enn bendandi á hann eins og hann væri að skora á hann að koma. Eða var hann bara að láta Akkor vita að hann væri næstur? Hann hristi þessa hugsun úr hausnum á sér. Hann þurfti ekki að berjast við álfinn, bara halda athygli hans í smá stund í viðbót, Valdin hlaut að hafa heyrt dauðaópið í syni sínum og hann myndir afgreiða álfinn fljótt og örugglega með boganum sínum. Akkor hélt hausnum beindum beint að álfinum en leit með augunum til hliða til að athuga hvort hann sæi bróður sinn koma. Honum brá svo mikið þegar hann leit aftur fram að hann náði ekki einusinni að bregða fyrir sig sverðinu. Álfurinn kom svífandi yfir eldinn með sverðið reitt til höggs, enn bendandi og með stígvéluðum vinstri fæti spartaði blaðinu til hliðar. Um leið og hann lenti beint fyrir framan Akkor þar sem sverðið hans hafði verið sekúndu fyrr, greip hann fast í úlnliðinn á Akkor og hélt sverðhendinni fastri um leið og hann lét höggið þruma niður á Akkor. Akkor heyrði í blaðinu söngla framhjá vinstra eyranu og hann heyrði leður rifna og hljóð sem svipaði mjög til þess þegar sprek eru brotin. Hann leit ringlaður niður og sá að sverð álfsins stóð út úr brjóstkassanum hans. Sársaukinn kom hinsvegar ekki fyrr en hann sá gapandi skurðinn sem lá frá öxlinni og alveg niður að sverðinu. “Djöfull verður þetta lengi að gróa!” hugsaði hann um leið og hann missti sverðið. Hann var skyndilega orðinn eitthvað svo máttlaus. Það seinasta sem hann hugsaði áður en allt varð svart var “Hvar er Valdin?”.

- - -

Ræninginn missti máttinn í hnjánum og hrundi niður og sverðið hans Petya kipptist úr höndunum á honum við það. Það stóð pikk fast í manninum. “Eins gott að þeir voru ekki fleiri.” hugsaði Petya “Ég er bara með hnífa eftir.”. Í sömu andrá sá hann hvar inni í skóginum beint fyrir framan hann stóð maður í skugganum með spenntan boga miðaðan á hann og var í þessu andartaki að sleppa örinni. Bölvaður seinni ræninginn hafði byrgt honum sýn. “Sjitt!” sagði álfurinn upphátt og tíminn virtist líða svo afskaplega hægt þegar örin þaut í áttina að honum. Petya var dálitla stund að átta sig á því að örin hafði ekki hæft hann. Hún þaut framhjá honum, óþægilega nálægt hausnum. Hann heyrði hana hæfa eitthvað. Hann heyrði sársauka kvein. Hann heyrði einhvern detta niður á sprek og birtan frá varðeldinum kæfðist niður um helming. Maðurinn fyrir framan hann var ekki að spenna bogan aftur heldur stóð kyrr. Petya leit aftur fyrir sig. Hálfur á varðeldinum lá maður svipað klæddur og hinir tveir, einnig klæddu í veðraða leður brynju sem var byrjuð að grillast á eldinum. Við bak hans var tjóðraður stór bogi og örvapoki. Ein ör, allt öðruvísi skreytt en þær sem stóðu út úr poka mannsins, stóð hálf út úr brjóstkassa hans, beint í hjartastað. Vinstri hendi hans lá fyrir ofan höfuðið og ryðgaður rýtingur hvíldi í samankrepptum lófanum. Eftir fljótlegan útreikning sá Petya að ef ekki hefði verið fyrir bogamanninn væri þessi rýtingur nú í bakinu á honum. Hann leit aftur framfyrir sig og sá að skyttan leyndardómsfulla var búin að slíðra bogann sinn og labbaði nú rólega í áttina að honum.