Jæja, þá er frábær helgi að baki. Virkilega gaman að sjá hversu margir mættu í spunaspilin og ég vona, að allir hafi skemmt sér vel.
Á laugardaginn var í fyrstu boðið upp á kennslu í spunaspilum. Flestir stjórnendur tóku að sér um klukkustund og reiknast mér til, að á milli 30 og 40 manns hafi komið og prófað spunaspil. Upp úr klukkan 17 hófst síðan spilamennskan fyrir alvöru. Þar var boðið upp á 11 mismunandi kerfi á jafn mörgum borðum. Var setið í 52 af 54 sætum sem í boði voru, en eitt borð var fellt niður. Voru síðustu spunaspilarar að halda heim á leið upp úr kl. 02 aðfararnótt sunnudags.
Í dag, sunnudag, var boðið upp á Súper-ævintýrin svokölluðu. Í öðrum salnum var spilað á 4 borðum í D&D, þar sem markmið hópanna var að koma í veg fyrir að trúarregla guðsins Nerull næði að endurvekja guð sinn, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir heiminn. Þar voru ævintýrin sett upp með línulegri frásögn, þ.e. story driven ævintýri, og þurftu grúppurnar að safna sér sigurstigum (victory points). Hverri grúppu stóðu 5 stig til boða, en sameiginlega þurftu hóparnir að ná 16 í heildina. Því miður tókst það ekki, grúppurnar komust ansi nærri og náðu 14 stigum. Það lítur því illa út fyrir borgina Fossatún og nærliggjandi sveitarfélög, og kemur það því í hlut hetjanna á næsta stórmóti að verja borgina gegn árás trúarreglunnar.
Í hinu súper-ævintýrinu var boðið upp á Vampire the Requiem kerfið. Þar var ævintýrið mun pólitískara og mun meira character-driven. Er skemmst frá því að segja, að tvær grúppur voru þurrkaðar út en Kjartan, yfirstjórnandi, bætir kannski við lýsinguna á því.
Tóku 43 leikmenn þátt í spiluninni í dag.
Umgengni og framkoma leikmanna var til einstakrar fyrirmyndar og hjálpsemi við tiltekt og frágang á eftir til eftirbreytni. Það gerir okkur sem erum í umsjón verkið mun auðveldara þegar við finnum hve spunaspilarar eru tilbúnir að leggja sig fram um að gera mótin sem allra, allra skemmtilegust.
Mættu margir byrjendur, sá undirritaður amk. 8 ný andlit á mótinu. Skemmtilegast fannst mér þó, að sjá þarna ‘reyndari’ spilara (lesist: eldri), suma hverja sem ég hef ekki séð á móti í háa herrans tíð. Um leið og það er markmið okkar að fjölga í hópi spunaspilara, þá er einstaklega gaman að sjá þegar þeir sem eru eldri en tvævetur í þessum geira blása rykið af gömlu teningunum og mæta til að spila með okkur.
Mig langar að þakka öllum þeim sem komu og tóku þátt í að gera þessa upplifun skemmtilega. Án svona hóps, án svona samheldni og góðrar stemningar væri sú vinna sem við leggjum í að halda mót umtalsvert leiðinlegri.
Þetta er þó bara fyrsta stórmótið. Við viljum sífellt vera bæta okkur og tryggja að upplifun allra sé sem allra best. Það væri því afskaplega vel þegið að fá ábendingar frá ykkur um hvað var skemmtilegt sem og hvað mætti betur fara.