Changeling - The Lost Nafn: Changeling – The Lost
Tegund kerfis: Nútíma hryllingur
Tengingasett: d10
Útgefandi: White Wolf/CCP North America
Útgáfuár: 2007 (Águst)

Changeling kerfið er fimmta áleggið á það brauð sem er World of Darkness. Hingað til er búið að veita okkur aðgang að hinum klassísku “hryllingsskrímslum” vampírum og varúlfum auk þess að opna fyrir okkur óhefðbundnari yfirnáttúrulegar verur eins og galdrakalla og verur knúnar heilögum eldi. En til eru skrímsli sem að hafa lengi hrakið mannkynið, skrímsli sem að í dag eru oft máluð sem góðhjarta verndarar og uppátækjasamir hrekkjupúkar. En sannleikurinn er allt annar.

Ef þú varst vakandi í íslenskutímum í grunnskóla hefurðu ef til vill heyrt getið til huldufólks, hóp af einstaklingum sem að áttu það til að skemmta sér örlítið með mannkynið, með því að leika á það og svíkja, ræna börnum þess og skilja eftir eitthvað “annað” sem líktist þeim í staðinn. Huldufólkið, sem átti rætur sínar oft að rekja til annara heima eða einfaldlega álfheima, er eitt af megin innblæstri í Changeling – The Lost. Þó er ekki einungis einblínt á hina skandinavísku ára sem að áttu heima í skógum og klettum, heldur einnig goðsagnir víðsvegar úr heiminum sem að fylgja svipaðri þemu.

Í Changeling – The Lost er til sá heimur sem callast Arcadia. Sá heimur er einstaklega fallegur, en ekki á þann máta sem að venjulegt fólk kann að meta fegurð. Því að jafn fallegur og hann er, er hann eins ótrúlegur og ógnvekjandi. Að sjá Arcadia er eins og að horfa á fegurð í tryllingsformi. Í þeim heimi ríkja þær verur er kallast Fae. Fae er frekar vítt hugtak sem að á við um alla hluti sem uppurnir eru frá þessum “álfheimi” eða hulduheimi en meistarar þessa heims eru kallaðir True Fae. Fae-fólkið hefur gert samninga við veraldleg öfl í þessum heimi, samninga sem leyfa þeim að móta og stjórna Arcadia eftir eigin hentugsemi. Í Arcadiu þarf eldur ekki að veita il, þótt hann brenni þig. Í Arcadiu þarft loftið ekki að næra þig, þótt þú andir því. Þetta er heimurinn þeirra og hver sá sem þangað ferðast mun aldrei aftur sá lífsins ljós. Eða hvað?

Jú, nefnilega gerir Fae fólkið (True Fae) það sér til gamans að ræna fólki úr hinum venjulega heimi. Það lokkar það til sín með fölskum loforðum, narrar það eða einfaldlega nemur á brott og flytur það yfir “Gerðið (The Hedge)”, einskonar vegg sem að aðskilur heimana tvo. En sama hvernig þeim mennska var komið yfir í þennan heim, þá bíður þess einstaklings ekkert gott. Hann er þræll eða fangi, ef til vill tilraunadýr í heimi þar sem ekkert vill honum vel, þá sérstaklega “eigandi” hans. Og með tímanum, þá breytist þetta fólk í eitthvað annað. Það verður bæði minna en og meira en mennskt því að þau taka sér hægt og rólega mynd eða form sem að þeim hæfir þeim betur í þessum heimi. Eyru lengjast, hár verður “laufkennt” og útlimir líkjast dýrsútlimum; möguleikarnir eru margir. Á endanum hinsvegar ná nokkrir af þessum föngum að strjúka og flýja aftur yfir “Gerðið” til þess að endurheimta líf sitt sem mannverur, eða í það minnsta komast burt.

Lífið sem þeir mæta svo þegar aftur til hins venjulega heims er snúið er ekki það sem þeir bjuggust við. Tíminn flýgur nefnilega öðruvísi í Arcadiu en í hinum venjulega heimi. Það sem virtust vera 30 ár í Arcadiu hefðu getað verið örfá augnablik eða jafnvel þrefaldur sá tími. Tíminn er svo sannarlega afstætt hugtak, allavega í Arcadiu. Þess vegna er það sem að þessir “breyttu” einstaklingar eiga oft erfitt með að endurheimta fyrri líf, þar sem að fjölskyldur þeirra gætu verið vaxnar úr grasi eða það sem verra er, það kom “eitthvað” í stað hins breytta, einver “hlutur” sem að hermdi eftir honum og tryggði að enginn myndi nokkurn tíma sakna hans.

Að stofna sér nýtt líf eða enduheimtun þess gamla er samt ekki eins erfitt og marga grunar. Þrátt fyrir “breytingar” sínar njóta þessir Changelings (umskiptingar) blessunar ákveðins eiginleika hins venjulega heims sem kallast “The Mask”. The Mask er einskonar tálsýn sem tryggir það að hver sá sem horfir á umskiptinginn sér í rauninni bara “venjulega” útgáfu af honum. Þessi tálsýn virkar þó ekki fyrir þá sem eru sjálfir breyttir eða það sem verra er, fyrir hina áðurnefndu True Fae sem að gætu einn dag ákveðið að koma í veiðiferð að “týndu” umskiptingunum sínum til þess að færa skammirnar aftur til Arcadiu.

Hingað til hafa öll kerfi White Wolf haft fimm “aðal” tegundir af skrímslum, með ýmsum undir-tegundum eða kvíslum undir þeim. Changeling er fyrsta kerfið sem rífur þessa hefð en þó gæti verið góð ástæða fyrir því (meira um það á eftir).

Þessar tegundir kallast “seeming” og fyrst þeirra eru “Beast.” Beast eru þeir sem hafa breyst í átt að einskonar “dýrslegri” hlið sinni. Þeir taka á sig eiginleika dýra, eins og breyttra útlima, horna og þessháttar. Ef þið hafið séð Pan’s Labyrinth, væri “fánninn” þar gott dæmi um slíka. Beast eru hinsvegar ekki fulltrúar dýranna sjálfra, heldur oftast þeirri hugmynd sem fylgir þeim. Auk þess þarf ekki að vera að Beast líkist einungis einni dýrategund, heldur mynda þeir oft einskonar blöndu af ákveðnum eiginleikum þeirra.

Darklings eru þeir sem nálguðust skuggahliðarnar. Þeir eru fölir og dimmir enda una þeir sér best í myrkri þar sem að eiginleikar þeirra fá að skína sem best, ef svo má til orða taka.

Elementals eru þeir sem breytast í átt að frumefnum eða öflum náttúrunnar. Vist þeirra í Arcadiu er oft talin hafa verið afskaplega grimm, þar sem að mörg þeirra hafa minningar af því hvernig það var að vera steinn eða frosin jörð, hjálparvana á móti öllu í kringum sig.

Fairest eru þeir sem breyast í eitthvað svipaðra hinu klassíska huldufólki. Þau hallast í átt að fegurð, en þó ekki alltaf fegurð eins og flestir mennskir skilja hana, heldur þeirri fegurð sem að þeir mundu eftir úr Arcadiu. Fairest svipa mjög mikið til True Fae, eða svo er oft talið, enda koma margir þeirra til baka með svipaða innri grimmd og var sjáanleg hjá fyrrum fangelsurum þeirra.

Ogre er svo næstsíðasta tegundin, sem er samheiti yfir þær verur sem mætti skilja sem tröllslegar eða líkamlega ógnvekjandi. Við könnumst nú flestöll við söguna um tröllið undir brúnni, er það ekki?

Seinastir eru The Wizened. The Wizened svipa mjög mikið til Fairest, en þar sem að Fairest standa fyrir fegurð og tilfinnungum standa the wizened fyrir óskiljalegum hæfileikum. Auk þess virðist vera að fangelsarar Wizened hafi verið hið svokallaðar “smáfólk”, litlar manneskjur sem svipa til álfa þeirra sem við sjáum í barnabókum í dag. Sköpunargáfa litla fólksins er jöfn illsku þeirra og þess vegna muna margir Wizened eftir að hafa verið tilraunadýr í tilgangslausum tilraunum eða bröndurum sem voru þeim óskiljanlegir.

Auk þessara sex aðaltegunda fellur hver og einn undir sérstaka undirtegund, sem kallast “kith” og samsvarar nokkurnveginn blóðlínum eða arflegðum úr öðrum WW kerfum (einskonar sérhæfing á því hvað spilandinn er). Allir eru partur af einhverju “kith”. Eftir því hvaða tegund og kith spilandi velur sér, nýtur hann ákveðinna hæfileika sem hann getur kallað á nánast hvenær sem er. Ef maður tekur “The Fairest” sem dæmi, sér maður að þeir geta nýtt sér ákveðna galdrapunkta (glamour) til þess að auka fjölda teninga sem þeir kasta í Presence, Manipulation og Persuasion köstum. Aftur á móti er hver einasta tegund með sérstaka bölvun, eins og bölvun Darklings sem að dregur úr líkum þeirra að nota galdra/mætti ef að sólin skín eða er þeim sýnileg. Ofan á þetta fylgja margir hæfileikar tengdir því hvaða “kith” spilandinn tilheyrir. Að lokum hefur tegund spilandans áhrif á hvaða contracts (galdramætti) honum þykir auðveldast að læra.

Þessir samningar sem “True Fae” sömdu við náttúruöflin er eitthvað sem strokufangarnir hafa komið með sér til baka, eða allavega litlar klausur sem að þeir geta notfært sér í hinum venjulega heimi. Þrátt fyrir að klausurnar séu margar og að ákveðnum tegundum sé auðveldara að læra þær en ekki, eru nokkrar klausur eða samningar sem að allir af þessum Changelings læra jafn vel og hver annar. Þetta eru einskonar “innbyggðir” hæfileikar, hæfileikar eins og að geta ferðast inn í drauma annara og valdið þar usla eða sótt upplýsingar.

Hæfileikar og samningar Changeling eru knúnir af því sem kallast Glamour. Glamour er einskonar hugtak yfir tilfinningar, sem að er eitthvað sem að Changelings sækjast afar sterklega í. Til þess að ná sér í þetta efni umgangast þeir einfaldlega mennskt samfélag og “uppskera” tilfinningar annara, hvort sem það er ótti, ástríða, löngun, reiði eða eitthvað slíkt. Auk þess geta þeir sóst í efnið beint í gegnum það að stelast inn í drauma annara, þar sem að þeir geta leyst innri tilfinningar úr læðingi. Til eru aðrar leiðir til að safna Glamour en að fara ýtarlegra út í það er óþarfi að þessu sinni.

Kraftur samninganna svipar til vampire kerfisins sem að notaðist við stigvaxandi mælikvarða (frá einum upp í fimm punkta). Það sem gerir samninga Changeling skemmtilega og frábrugðna öðrum White Wolf kröftum eru ákveðnar “svindl” aðferðir sem spilendur geta notað til að komast hjá því að borga Glamour fyrir notkunina. Þetta eru “samningar” eftir allt saman, og allir samningar hafa ýtarklausur og villur sem bjóða upp á “ef” og “þegar”. Þegar þau skilyrði eru uppfyllt er hægt að nota kraftana frítt án þess að borga Glamour. Í “Eternal Summer” samningnum (sérdeild Sumar-hirðar (meira um hirðir á eftir)) er kraftur sem að kallast “Son of the Hearth” og er fyrsta stigs kraftur (1 punktur). Með þessum krafti getur spilandi látið sér líða “vel” í öllum hitastigum og getur meiraðsegja ilað upp herbergi. Ef að spilandinn hrækjir á deyjandi neista eða glóð hinsvegar “svindlar hann” og fær að nota þetta frítt. Með notkun “Splendor of the Envoy’s Protection” (Vainglory 3 kraftur) getur umskiptingur opinberað sig (leyft öllum að sjá hvernig hann lýtur út í raun og veru) án skaðlegra áhrifa. Ef að hann gerir þetta í samkvæmi þar sem að minnsta kosti tylft manna eru staddir, getur hann “svindlað” á þessum samningi. Lokadæmið væri “Red rage of terrible revenge” (Stone 5 samningur) þar sem að ofsafengið en stjórnanlegt bræði fyllir notandann og veitir ákveðna bónusa í bardaga. Ef að þessi kraftur er notaður til að færa réttlæti eða hefnd fyrir hönd ástvins sem hefur verið drepinn eða alvarlega meiddur er hægt að svindla á þessum samningi.

Eins og ég minntist á áðan eru sex grunntegundir ólíkt hinum venjulegu fimm sem hafa verið hingað til. Ástæða þess er ef til vill sú að í þessu kerfi eru ekki fimm pólitískar deildir eins og í öðrum White Wolf kerfum, heldur einungis fjórar. Þessar deildir eru kallaðar “Courts” eða hirðir. Hver hirð er lauslega byggt samfélag sem að var hannað til þess að veita öllum changelings jafnan völl og sameiginlega vernd frá True Fae eða öðrum óvinum. Eins og áður er hver deild eða hirð frábrugðin öðrum þegar kemur að stefnu sinni eða hegðan. Hirðirnar fjórar eru kenndar við árstíðirnar; vor, sumar, haust og vetur.

Vor-hirðin athafnar sig aðallega með því að sökkva sér djúpt ofan í fegurð og þess að njóta lífsins til hins fyllsta. Þeir vilja gleyma hræðilegum sárum sínum frá vistinni í Arcadiu með því að uppfylla löngun sína. Löngun er því eitthvað sem hefur orðið einkennishegðun þeirra í gegnum tíðina.

Sumar-hirðin hinsvegar vill lítið með fegurð og lífsnautn gera, enda bera þeir of mikið hatur og reiði í garð fyrrum meistara sinna til þess að gleyma sér í slíkum hlutum. Þeir vígbúast og verjast, bíðandi þess dags er leiðir þeirra og fyrri meistara skarast á ný.

Haust-hirðin er ekki knúin af hatri eða löngun, heldur ótta. Þeir vita afskaplega vel að þeir eru ekki mennskir lengur og þó þeir séu ekki glaðir fyrir vikið reyna þeir að gera hið besta úr því. Þeir vilja muna og læra allt það sem Arcadiu kemur við, til þess að þeir geti notað nýfundna hæfileika sína og samninga á móti fyrri meisturum sínum skildi sá dagur einhverntímann renna upp.

Vetrar-hirðin heillar marga nýsloppna umskiptinga, enda snúast þeir um leyndarmál og undirferli. Að fela sig og forðast vanda er þeim mikilvægast. Það virðist vera sem að vetrarhirðin vilji einfaldlega vera “fluga á veggi” sem enginn tekur eftir. En maður veit aldrei hvað flugur sjá og heyra.

Hverri hirð fylgir ákveðin tilfinning; löngun fyrir vor, reiði fyrir sumar, ótti fyrir haust og sorg fyrir vetur. Fyrir utan það að einkenna hirðina betur hefur þessi tilfinning ákveðið hlutverk fyrir spilið sjálft, þar sem að Glamour-uppskera af þeirri tegund hirðar sem maður tilheyrir veitir meiri Glamour heldur en aðrar uppskerur. Einnig veitir innganga í hirð auðveldari aðgang að ákveðnum samningum, tvo fyrir hverja hirð fyrir sig.

Einn af athyglisverðari þáttum hirða er eitthvað sem kallast “Mantle” (kápa). Mantle er nýr Merit sem að táknar hversu djúpt sokkinn sá einstaklingur er orðinn í eiginleikum þessarar árstíðar. Því lengra sem hann er kominn, því meira andrúmsloft af viðeigandi týpu fylgir með honum, auk ákveðinna bónusa. Til dæmis fylgir oft ákveðin “hita-tilfinning” sumar-hirðmönnum og auk þess fá þeir sem eru með þrjá punkta í Mantle (Summer Court) 1 punkt af brynju sem að ver þá alltaf. Þessar tálsýnir hinsvegar eru ekki sýnilegar mönnum undir venjulegum kringumstæðum og hafa í raun lítil áhrif á spilið, fyrir utan ákveðna virðingu sem fylgir því að vera tileinkaður einhverjum málstað. Því tileinkaðri sem einstaklingurinn er, því meira vægi hefur hann einnig meðal þeirra sem sæta við viðeigandi hirð.

Það sem kallast “Power-stat” í White Wolf kerfunum er eiginleiki sem sýnir hversu yfirnáttúrulegur og “öflugur” maður er. Í Vampire kerfinu var þetta Blood Potency, í Werewolf var það Primal urge, til dæmis. Hér í Changeling – The Lost kallast þessi eiginleiki “Wyrd” og líkt og allir hinir “Power-stattarnir” sýnir hann hversu mikinn forða af krafta-efni (glamour í þessu tilfelli) maður getur innihaldið, hversu mikið maður getur notað í einu og hversu hátt eiginleikar manns geta risið yfir fimm punkta, sem að eru “mennsk takmörk”. Wyrd kemur hinsvegar með frekar skemmitlegan snúning á þetta, þar sem að virkilega öflugir Changelings þurfa að hlýða afar sérstökum og skondnum reglum. Á hærri stigum Wyrd, mynda þeir Bönn og Bana (Taboos og Banes). Til eru tvö stig af þessum bönnum og bönum, æðri og lægri og fær einstaklingurinn fleiri og fleiri af þeim því hærra sem hann rís.

Bann (Taboo) eru kringumstæður eða atburðir sem að neyða einstaklinginn til þess að hegða sér á ákveðinn máta. Þetta er eitthvað sem spunameistari og spilandi ættu að vinna saman að til að koma upp með eitthvað frumlegt. Þetta getur verið eitthvað einsog að þurfa að telja og sópa upp poka með hrísgrjónum sem að helltist úr eða þurfa að herma eftir fuglshljóði í hvert skipti sem að maður heyrir þau. Bani aftur á móti er eitthvað sem að veldur alvarlegum óþægindum og skaða fyrir þolandann. Dæmi um þetta gætu verið hljómur úr kirkjubjöllum eða snerting við rósir. Lægri tegundir Banna eða Bana eiga það sameiginlegt þó að þetta eru bæði óalgengar kringumstæður sem að ættu ekki að valda of miklum óþægindum. En svo koma æðri bönnin og banarnir. Þá verður þetta virkilega fyndið.

Ímyndaðu þér að hafa það Bann eða reglur að þurfa í sífellu að ganga afturábak. Hvað þá að hafa þann bana að hljóta skaða af því að vera nálægur börnum. Fleiri dæmi gætu verið það að meiðast við snertingu við hveiti eða yfirgnæfandi tilhneyging til þess að móðga alla sem brosa til þín. Að vera öflugur hefur sína galla þegar þú ert Changeling.

Með allar þessar reglur, snúna samninga og mengandi áhrif frá heimi Arcadiu er það auðséð að Changelings eru alls ekki mennskir lengur, þó þeir reyni að endurheimta gamla lífstíla. En það reynist erfitt, þar sem að þeir vita stundum ekki sjálfir hvað er raunverulegt og rétt, vegna þess hvernig vist þeirra í hinum heiminum tvístraði skilning þeirra á raunveruleikanum og særði sál þeirra djúpt. Þess vegna fylgja Changelings ekki venjulegu “Morality” til þess að tákna tengsl þeirra við sjálfa sig og siðferði, heldur notast þeir við það sem kallast “Clarity”.

Clarity segir til um hversu skýrt þeir geta séð í gegnum lygarnar og tálsýnirnar sem að fylgja með nýju lífi þeirra. Með hátt Clarity gæti maður flokkast sem nokkuð heilbrigður, með tök á raunveruleikanum og skörp skilningsvit sem að hjálpa manni að flokka í sundur raunveruleika og galdra. Reyndar er tekið fram að ef þú hefur hátt Clarity færðu tveggja teninga bónus á það að aðskilja raunveruleika og galdra. En á hinn bóginn eru þeir sem sökkva of djúpt ofan í tálsýnirnar og lygarnar, þeir sem gleyma því að þeir eru, eða réttast sagt voru; mennskir. Þessir glötuðu einstaklingar missa alveg sýn á hvað er að gerast í kringum sig, alltof truflaðir af innri ruglingi og vanhæfni til að einbeita sér. Á endanum, ef þeir missa algjörlega sjónar af raunveruleikanum verða þeir ekkert nema geðsjúkir, orðnir sturlaðir af eigin ranghugmyndum og óstöðugleika.

Það er ekki mikil innri barátta meðal umskiptinga, þá sennilega vegna sameiginlegs óvins þeirra, True Fae, sem fangelsuðu þá. Þó að stefnur þeirra og upprunar séu mismunandi, og að margir Changelings séu afar vantreystandi eða taugaveiklaðir, virðist það ekki hafa stofnað til innbyrðis haturs eða keppnisskaps líkt og milli vampíranna í Vampire – The Requiem eða varúlfahópanna forsaken og the pure í Werewolf – The Forsaken. Samt sem áður eru alltaf einhverjir svikarar eða brjálæðingar sem spretta upp og reyna að valda usla. Ef umskiptingar vilja sækjast í áflog hinsvegar ættu þeir að hafa nóg fyrir stafni í samningagerðum meða annara umskiptinga eða þá í líkamlegri baráttu við “Fetch”, sem er það sem umskiptingar kalla það sem er skilið eftir þegar manneskju er rænt af True Fae.

Changeling – The Lost er spil sem að segir frá flótta og bata frá áfalli. Þau voru færð nauðug yfir í óskiljanlegan heim til þrælkunar eða fangelsunar þar sem að óskiljanlegar verur hæddust að þeim og pyntuðu eða létu þá framkvæma tilgangslausar athafnir í sífellu sér til skemmtunar. En sumir sleppa frá vist sinni og stofna ný líf með aðstoð annara síns líka. Það mætti lýsa þessum einstaklingum sem fólki á batavegi, í leit að nýjum tækifærum og lífsfögnuði þrátt fyrir yfirvofandi ógn um að einn daginn verði þau numin á brott á ný af kvikyndislegum föngurum sínum. Til að lifa þá ógn af, verða þeir að nota það litla nothæfa sem vist þeirra í hinum heiminum færði þeim, brögð og samninga auk einstaks hæfileika til að vera afskaplega sveigjanleg og smjúg. Aðstæðurnar og reglurnar breytast í sífellu nefnilega og ef þú getur ekki breyst með þeim, þá ertu sama og týndur.


Það er lítið annað hægt að segja um kerfið nema að það sé skemmtilegt. Áhugavert í minnsta falli. Ég set það á æðri stall en ákveðin önnur White Wolf kerfi, en hvaða kerfi það eru er leyndarmál. Ástæða þess er sú að mér þykir þessi bók hafa nokkuð einfaldar reglur og auðskiljanleg hugtök. Það eru nokkrar undantekningar að vísu, en ekki svo flóknar að þær verðskuldi skammarstrik. Auk þess verð ég að játa að ég hef alltaf haft gaman af huldufólki og þeim goðsögnum sem hafa fylgt þeim. Sú gothíska flóttatilfinning sem að ríkir í Changeling – The Lost er því eitthvað sem hittir beint í mark, allavega hvað mig varðar.

Þó ég hafi afskaplega litla reynslu af kerfinu myndi ég þess vegna telja það mjög gott kerfi hingað til. Einu vandamálin sem mér sýnist spretta upp meðal spilenda og spunameistara er reglnatúlkun milli undirkerfa (Ef Mage eða Vampíra gerir A mun Changeling þá þurfa að gera B til að C gerist ekki) og minniháttar árekstrar en ég vil minna á að öll White Wolf kerfin hingað til eru í raun bara aukahlutir. Allar staðreyndirnar og reglurnar gætu verið sannar, en á endanum er það upp undir spunameistara og spilahópi hans að ákveða hvað þeir ætli að spila með og hvað ekki.
EvE Online: Karon Wodens