Það hefur e.t.v. ekki komist fullkomlega til skila í svari mínu til Tigercop hér að ofan, en allt frá fyrstu jólunum mínum hér á Huga hefur stærsti kubbur forsíðunnar, greinakubburinn, fyllst af jólaóskum ár hvert. Þar eð þetta eru mín fyrstu jól hér á vefnum sem stjórnandi höfðu deilur um þetta málefni á stjórnendaáhugamálinu síðustu jól farið fram hjá mér, og því stóð ég í þeirri trú að þessi siður væri enn við lýði. Greinilegt er á fjölda greina svipuðum minni að mörgum þykir missir af honum.
Hvað gagnrýni þína varðandi veru mína sem stjórnandi hér verð ég að segja að hún kemur mér nokkuð á óvart. Öll réttmæt gagnrýni á störf mín sem stjórnandi er vel þegin, en til að hún gagnist mér að einhverju leyti til að bæta mig er ég hræddur um að þú þurfir að rökstyðja hana. Hvaða atriði eru það sem hafa landað mér þeim titli í þínum huga að ég “standi mig með afbrigðum undarlega”?
Ég veit reyndar að það hafa heyrst óánægjuraddir hér á áhugamálinu tengd stjórnun, þó að þær snerti mig ekki eingöngu. Það hefur eitthvað borið á því að fólk kvarti undan linkind stjórnenda gagnvart þeim sem fara offari í umræðum hér á áhugamálinu, jafnvel með því sem þeir telja tröllaskap og persónuárásir. Ég hef áður sagt að mikil ritskoðun sé mér ekki að skapi, en sé það almennt mál manna að henni sé ábótavant mun ég að sjálfsögðu eftir bestu getu fara eftir því sem notendur áhugamálsins ætlast til af mér.
Hvað hæfniskröfur stjórnenda varðar eru þær í stjórnendaumsókn, en hana má nálgast
hér. Ég tel mig hafa ágætis þekkingu á áhugamálinu, enda hef ég stundað spunaspil í rúm ellefu ár, þar af reglulega með sama hóp í tæp níu. Er ég vel kunnugur því kerfi sem flestir hér leika eftir, D&D 3.5, en hef einnig spilað Ask Yggdrasils, Cyberpunk 2020, MERP og Exalted, og hef kynnt mér gamla White Wolf kerfið ágætlega. Þetta þótti vefstjóra nóg á sínum tíma til að hleypa mér hér að sem stjórnanda, og er ég þakklátur fyrir það. Hvað hinsvegar vinnureglur okkar stjórnenda varðar er ég ekki fullviss um hvað ég má láta uppi, en ég get þó með sanni sagt að ég hef reynt að fara eftir þeim í öllu.