Menn lýsa oft spunaspilum sem sögu sem spilarar og stjórnandi skrifa saman og allir hafa áhrif á gang sögunnar. Þess vegna kom þessi pæling upp í hugann: Er sagan skemmtileg?
Ég hef í gegnum tíðina spilað nánast öll kerfi, með öllum tegundum spilara og stjórnenda. Ég hef gjarnan punktað niður atburði í ævintýrunum sem ég hef verið að spila til að geta lesið yfir seinna meir. Ég verð að segja að mismunandi spilahópar skila af sér misskemmtilegum sögum, sumar eru illa samskeytt röð af bardögum, meðan aðrar sýna skemmtilegt flæði atburða sem byggja upp spennu sem nær svo hápunkti í bardaga við erfiðan andstæðing.
Punkturinn sem ég vildi koma að er sá að sumir hópar hafa mjög óraunhæfa mynd af heiminum (sem verið er að spila í, ekki okkar), sem myndi bara einfaldlega ekki ganga upp.
Þið kannist eflaust við friðsamlega þorpið sem þið komið í og allir eru rosalega vinalegir, en þegar haldið er áfram komiði að risastórri orkabyggð í tíu mínútna göngufæri frá bænum.
Annað dæmi: Hópurinn er búinn að þvælast yfir rykugar auðnir, sletta orkablóði yfir hvern annan, og svamla yfir fúlnuð fen - allan tímann í sömu fötunum. Föt væru nú svo sem allt í lagi, en brynjur og leðurgallar eru ekki mest loftræstu múnderingar sem hægt er að troða sér í! Jú og viti menn, ein persónan vill fá að fara í bað í næsta bæ - “já, en veistu hvað það kostar að fara í bað?”
Hvernig spilar þinn hópur? Er mikilvægt að hafa atburðarás, eða skiptir hún engu máli? Þetta er náttúrulega líka gaman að hakka soldið, en er það allt?