Ravenloft - hugleiðing um Campaign setting
Ég hef allt frá því ég byrjaði að spila verið mikill aðdáandi Ravenloft Campaign setting. Það er eitthvað við þennan dökka, gotneska og illa heim sem heillar mig. Ég er því ekki lengi að drífa mig niður í Nexus og kaupa þessar bækur, þegar þær koma til landsins. Mig langar til að fjalla eilítið um settingið og rýna aðeins í það.
Það er hægt að skipta Ravenloft settinginu í tvennt, annars vegar eins og það birtist í útgáfu TSR og hins vegar eins og Sword&Sorcery útfærir það. Hvort um sig byggir þó á sama grunninum. Ravenloft er demi-plane þar sem ‘the Dark powers’ hafa fangelsað mikið af illmennum og gert að landstjórum (svona flesta), hver yfir sínu ríki, en eru engu að síður fangar og þurfa að upplifa í sífellu einhvers konar niðurlægingu, pínslir eða andlegar þjáningar. Allt umhverfis plane’ið er síðan rammgöldrótt þoka sem enginn virðist kunna skil á eða þekkja, nema Vistani sígaunarnir.
Upphafið að Ravenloft settinginu er ævintýrið Castle Ravenloft, sem kom út fyrir mörgum árum. Það var byggt á skáldsögunni um greifann Dracula og varð strax alveg gríðarlega vinsælt. Ravenloft heimurinn fylgdi í kjölfarið nokkrum árum síðar og var þar lagt upp með að skapa heim, þar sem undeads og aðrir ‘gothic-horrors’ væru algengari. Einnig fylgdi settinginu sérreglur, þe. um fear, horror og madness. Hetjur gátu nú orðið máttlausar af hræðslu og skelfingu, án þess að spilarar fengu nokkuð að gert. Eitt failed save og þú gast þurft að horfa upp á hóp af náætum éta uppáhaldspersónuna þína. Heimurinn varð strax töluvert vinsæll.
Það kom því ekki nokkrum á óvart að heimurinn skildi verða endurútgefinn fyrir 3.0 til að byrja með og síðan 3.5. En í endurútgáfunni voru gerðar nokkrar mikilvægar breytingar frá því sem áður var. Ég tel þá merkustu vera, að nú geta spilarar búið sér til native-Ravenloft persónu. Í TSR útgáfunni, hvort heldur sem settinginu eða ævintýrum, þá er alltaf gert ráð fyrir því að persónur flytjist á milli heima með hjálp þokunnar og snúi jafnvel heim aftur að ævintýrinu loknu. Fyrir vikið var stundum svona ‘helgar-fílingur’ á Ravenloft. Persónur skelltu sér í demi-plane’ið á föstudegi og voru komnir heim í tæka tíð fyrir kvöldmat á sunnudegi. Í Sword&Sorcery útgáfunni er ekki búið að taka fyrir þetta, en hins vegar er búið að opna fyrir möguleikann á því að persónur hafi alltaf búið í Ravenloft og þekki ekkert annað. Fyrir vikið er þetta orðinn meiri heimur í anda hinna, þó með sína sérstöðu.
Á sínum tíma gaf TSR út ótrúlega mikið af ævintýrum fyrir Ravenloft. Það hafa eflaust mjög margir heyrt um The House of Strahd, Web of Illusions eða Thoughts of Darkness. Sum ævintýranna voru tengd saman, t.d. Grand Conjunction serían eða Requiem serían. Í dag eru ekki gefin út ævintýri, heldur ítarlegar upplýsingar um hvert ríki fyrir sig, auk ýmissa hugmynda um ævintýri. Ég tel þetta vera góða þróun, því áður fyrr fékk maður hvergi jafn góðar upplýsingar um þorp, landsvæði eða ríki nema í gegnum ævintýrin, þar sem að settingið sjálft var ekki nógu nákvæmt, svona eins og gerist og gengur. Í gömlu ævintýrunum var barátta góðs og ills í algleymingi, persónurnar öttu kappi gegn darklordinum. Plot-hugmyndirnar sem er að finna í Gazeteer snúa ekki margar að þeim, heldur að einhverjum öðrum öflum, góðum jafnt sem vondum innan hvers ríkis. Það er einnig munur á því hvað er gefið út, eins og áður sagði var gefið út áður fyrr töluvert af ævintýrum auk þess sem Van Richten’s upplýsingabækur voru vinsælar, en þær fjölluðu um hin ýmsu gothic-skrýmsli og -verur (vampírur, uppvakninga, sígauna og varúlfa svo einhver séu nefnd). Í dag eru þetta nær eingöngu player aids (Heroes of light, Champions of Darkness, Van Richten’s Arsenal) og Dungeon Master aids (Gazeteer, Van Richten’s Guides).
Ég tel að hin nýja útgáfa af Ravenloft sem mun ríkari en sú gamla. En ég verð þó að viðurkenna að ég dreg oft fram gömlu ævintýrin og hugsa hlýlega til þeirra kvölda og nótta sem ég eyddi í þau. Það er ekki að ég sakni þess að kljást við Darklordana, ætli þetta sé ekki frekar nostalgía.  Hins vegar tel ég að Sword&Sorcery hafi tekist að fá marga Ravenloft aðdáendur til að sjá heiminn í nýju ljósi, endurskapað hann í raun og veru og fyrir mína parta, þá má segja að ég hafi endurupplifað ánægjuna af því að spila þennan myrka heim. Það eru að vísu ekki allir jafn sáttir og ég, en það er aldrei hægt að fullnægja þörfum allra.
Engu að síður, fær þessi útgáfa bara fína einkunn frá mér. Heimurinn er ítarlegur, spennandi og skemmtilegur. Maður verður reyndar að sætta sig við, eins og með Dark Sun, Forgotten Realms og Dragonlance, að það eru til einstaklingar sem eru miklu öflugri en þú og maður ætti ekki að vera rífa kjaft við. En þannig er það bara alls staðar, ekki satt?