Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig aðrir stjórnendur undirbúa ævintýri sín. Hvort að þeir skrifi þau, jafnvel semji texta til upplestrar fyrir spilarana. Hversu djúpar pælingar þeirra eru í sambandi við lýsingar á persónum, húsum eða vopnum. Sjálfur skrifa ég upp eins mikið og ég get. Ég spila 95% á íslensku (fyrir utan orð sem einfaldlega eru óþýðanleg) og reyni eftir fremsta megni að vera eins ýtarlegur og hugsanlega má. Ég nota oftar en ekki útgefin ævintýri til hliðsjónar um uppsetningu og slíkt, en get ímyndað mér að slíku nenna ekki allir stjórnendur, þar sem að þetta er tímafrekt og þó nokkur handavinna. Það er fátt samt fátt skemmtilegra en að spila ævintýri sem að maður hefur gert sjálfur frá grunni. Bæði plott og illmenni fá meiri dýpt, auk þess sem að sérhannaðar dyflissur eru bæði skemmtilegar og ögrandi.
Ég er þeirrar skoðunnar að RPG séu viss tegund af bókmenntum og ég tel það synd, ef stjórnendur sinna þeim ekki. Ég er sérstaklega hrifinn af þeirri stefnu sem Sword & Sorcery hafa tekið upp í Ravenloft, þeir gefa ekki út ævintýri heldur mikið af accessory bókum. Þetta hvetur stjórnendur til að semja sín eigin ævintýri.
Það sem mig langar til að hvetja spilafélagið til að gera; sem er í nokkurri andstöðu við það sem ég hef verið að segja; er að annað hvort standa að útgáfu (bara ljósritun og slíku) á ævintýrum á íslensku eða búa til gagnabanka sem hægt er að leita í. Ástæðan fyrir þessu er einföld: Það eru margir stjórnendur að stíga sín fyrstu skref og eru kannski ekki orðnir öruggir á því að semja sín eigin ævintýri eða campaign, sem gætu grætt mjög á reynslu okkar hinna eldri. Einnig þætti mér ekkert leiðinlegt og ábyggilega mjög gagnlegt að geta flett í ævintýri eftir aðra, til að sjá þeirra nálgun.
Hægt er að finna svipaða banka á netinu, en vel flestir eru þeir á ensku, nokkrir á frönsku og ég veit um tvo spænska. Ef að ævintýrin eru skoðuð þar kemur í ljós þó nokkur munur, sem hægt er að rekja til annars vegar tungumáls og hins vegar menningar. Við Íslendingar erum, að ég tel, í engu frábrugnir. Okkar ævintýri litast af okkar ylhýra og þeim menningarheimi sem við hrærumst í. Sannast sagna tel ég ekki að Monte Cook og þeir, þrátt fyrir að semja oft ágæt ævintýri, nái utan um þetta. Auk þess þá hafa WoTC ekki gefið út nein almennileg campaign (Return to the Temple of Elemental Evil var sannast sagna skelfilegt að mínu mati og ég tel að City of the Spider Queen bjóði ekki upp á nógu ýtarlegt roleplay), þau er jú hægt að fá á netinu eða bara hreinlega breyta gömlum TSR campaignum í 3.0 eða 3.5. Einnig er ég viss um að hin kerfin; GURPS, Cthulhu, Shadowrun osfrv.; græði jafn mikið. Eflaust eru einhverjir sem eru tilbúnir að láta af hendi rakna ævintýri í þeim kerfum.