Desperate Housewifes eru byrjaðir aftur!
Já, þá er þriðja sería hafin og mætti segja að það sama gamla sé komið á nýjan leik. Eva Longoria hefur reyndar sleikt sólina talsvert síðan sería 2 var á kreiki.
Desperate Housewifes hafa unnið sig inní hjörtu karla og kvenna undanfarin ár og stimplað sig inn sem spennandi, dramatískir og umfram allt kómískir þættir sem taka létt á nánast hverju sem er. Þættirnir hafa boðið uppá þægilega afþreyingu og hefur það verið afslappandi að tylla sér niður og horfa á húsmæðurnar vinna úr sínum dagsdaglegu málum… Þótt það sé í raun ekkert dagsdaglegt við þessi mál.
Því var það með mikill eftirvæntingu sem ég setti fyrsta þátt þriðju seríu í gang. Og í stuttu máli mætti segja að hinar Aðþrengdu Eiginkonur séu komnar aftur.
Persónulega varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum, skrifin virðast ekki vera jafn kómísk og spennandi og áður en þetta er þó einungis fyrsti þátturinn og megum við sennilega búast við miklu á næstunni.
Felicity Huffman, Teri Hatcher, Eva Longoria og Marcia Cross snúa hér að sjálfsögðu allar aftur og geislar af þeim eins og vanalega… Felicity Huffman stendur þó ennþá uppúr sem besta leikkona þáttarins en það skal þó segjast að þær standa sig allar með sóma.
Þátturinn gerist 6 mánuðum eftir endalok seríu 2 og hefur lítið breyst í Wisteria Lane og kom það á óvart. Í raun var þátturinn fyrirsjáanlegur að vissu leiti, hinsvegar eru strax nýjar fléttur komnar í spilið og er því aldrei að vita nema að serían eigi eftir að enda geysivel.
Ég ætla ekki að spilla honum fyrir þeim sem ekki hafa ennþá komið sér í það að horfa en í stuttu máli sagt ætlar serían að byrja rólega. Hinsvegar hef ég fulla trú á því að hinar aðþrengdu eiga eftir að veita okkur nóg af hasar í næstu 20 þáttum eða svo.