Ég get viðurkennt með stolti að ég beið spenntur eftir hverjum þætti af Sleeper Cell. Þættirnir fjalla um múslimskan hryðjuverkahóp af mismunandi kynþáttum í Los Angeles sem ætlar sér að toppa hryðjuverkin 11. september og gott betur en það. Við fáum að fylgjast með Darwyn Al-Saayed sem er múslimi af afrískum uppruna, hann er FBI lögreglumaður sem með mikilli kænsku og snilldar brögðum laumar sér inn í þennan hættulega hryðjuverkahóp og verður einn af “þeim.” Fylgst er með vinnu hans innan hópsins, hvernig hann ávinnur sér traust þeirra og svo hvernig mikil ábyrgð FBI starfsins hvílir á herðum hans. Minnstu mistök hjá honum kosta hann lífið því þessir menn svífast einskis til að komast upp með planið sitt. Micheal Ealy, sem leikur Darwyn Al-Saayed, er sannfærandi í sínu hlutverki. Það er líka höfuðpaur hryðjuverkahópsins, Oded Fehr (The Mummy 1+2) sem leikur Farik. Hann er greinilega “útlenskur” í útliti en persónutöfrar hans og myndarlegt útlit gera hann fullkomin til að blandast amerísku lífi án þess að vekja athygli. Hann hins vegar er með hjarta úr stáli og er kaldranalegur náungi, virkilega “frightening” gaur. Það er líka merkileg staðreynd að Oded Fehr er Ísraeli sem gerir hann gyðing sem er mjög kalhæðnislegt í ljósi deilna Ísraela og Palestínumanna.
Eins og góðum spennuþáttum er lagið fáum við að kynnast sögu hvers og eins sem er innan þessa hóps. Allir hafa þeir mismunandi bakgrunn og koma frá ýmsum löndum en tvennt eiga þeir sameiginlegt: 1) Trúna, 2) Þeir vilja kenna Bandaríkjamönnum lexíu. Til þess að það takist verða þeir að vera gríðarlega skipulagðir og engin mistök má gera. Minnstu mistök verða til þess að allt er unnið fyrir gýg. Sem gerir einmitt þættina ennþá dýpri því það er greinilega togstreita innan hópsins, álagið og stressið segir til sín.
Aðall Sleeper Cell er hve vel skrifaðir þeir eru. Trúverðugleiki þáttanna er mikill enda er það ljóst að handritshöfundar þáttanna hafa mikinn skilning og þekkingu á viðfangsefninu. Eins og vænta má, eru trúmál í þáttunum mikið rædd og vitnað í Kóraninn hvenær sem tækifæri gefst. Það er magnað að sjá hve siðblindir þessir hryðjuverkamenn eru. Þeir eru blindaðir af málstað geðsjúklinga sem mistúlka Kóraninn því hvergi stendur í Kóraninum að það skuli deyða annað fólk sem ekki fer eftir “lífsstíl” Kóranins. Bandaríkjamenn eru kallaðir “trúvillingar” og ég veit ekki hvað og hvað. Að mínu mati er múslimatrú ekkert verri en önnur trú, það eru svona menn sem koma óorði á múslimatrúna. En hvað um það, þessi grein fjallar ekki um það.
Sleeper Cell eru aðeins 10 þættir og því “mini sería”. Þættirnir hefðu alveg plummað sig með að vera aðeins fleiri svo maður sæi betur hvernig hópurinn undirbyggi sig. En það er svo sem alveg fínt að fá stútfulla og þétta spennuþætti en ekki hálfgötótt efni eins og Prison Break og LOST voru orðnir á tímabili (sérstaklega LOST). Það hefði verið auðvelt að klúðra þessu viðkvæma efni en handritshöfundarnir og creatorar, Cyrus Voris og Ethan Reiff, falla ekki í þá gryfju að gera Ameríku að píslarvottum eða fórnarlömbum heldur fær landið sinn skammt af gagnrýni og utanríkisstefna Bush stjórnarinnar.
Það er ákveðið að gera aðra seríu af Sleeper Cell sem er bara gott, spennandi verður að sjá hvernig hún er.
Fyrsta sería af Sleeper Cell fær 9 af 10 mögulegum. Þessir þættir skilja þig eftir í sjokki og algjörlega kjafstopp. Magnaðir þættir sem eiga meiri athygli skilið.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.