Prison Break – 201
Jæja, þá er áhorfi mínu á nýja Prison Break þættinum lokið. Fyrsti þátturinn í splunkunýrri seríu sem virðist ætla að skera sig talsvert frá fyrri seríunni. Borgaði biðin sig? Er hér einungis verið að reyna að græða á okkur með slöku framhaldi? Lítum nánar á það.
Prison Break æðið hefur nú verið í gangi í talsverðan tíma. Nánast allir fylgdust með Michael og gengi er þeir reyndu að brjótast útúr virkinu sem hannað var til að halda þeim inni. Flestir voru á þeirri skoðun að þættirnir hafi heppnast vel. Kannski ekki þetta listræna meistaraverk sem margir vilja meina, en í það minnsta má líta á þessa þætti sem “guilty pleasure.”
Sjálfur fannst mér fyrsta serían vera það síðarnefnda. Hún drógst á langinn, Wentworth Miller er að mínu mati slappur leikari og margar persónur þáttanna voru ekki uppá marga fiska. En maður gat þó notið sín yfir þessum einstöku spennuatriðum eða óvæntu plot twistunum.
Hin almenni spennufíkill hafði líka sínar ástæður til að sækjast í þættina ef ekki bara til að sjá hinar einstöku barsmíðar.
Núna er fyrsti þáttur nýrrar seríu liðinn og, eins og flestir vita, fer hún í talsvert aðra átt en sú fyrri. Núna eru þeir sloppnir úr fangelsi og tekur við sú erfiða þraut að flýja land. Þar sem að þættirnir eiga væntanlega eftir að gerast nánast eingöngu fyrir utan fangelsisveggina búa handritshöfundar yfir talsvert meira frelsi og gætum við því sennilega séð ennþá meira af snöggum, snúnum plot twistum sem snúa þáttunum gjörsamlega við og stundum í hringi. Ekki að það sé alslæmt, það er ágætt að vita aldrei hvað gerist næst.
Það er líka skemmtilegt að sjá William Fichtner koma til sögu sem Special Agent Alexander Mahone. Persóna hans er jú Alríkislögreglumaður en hinsvegar virðist hann vera álíka snjall og Michael Scofield og stefnir allt í að hann eigi eftir að hundelta þá glæpamennina út aðra seríu eða svo. Athyglisverð og spennandi ný persóna sem verður einnig gaman að fylgjast með.
Það er þó alveg klárt mál að Sería 2 fylgir sömu formúlunni sem einkennt hefur fyrstu seríuna og mun framvinda hennar sennilega vera í sama dúr og sjá mátti í fyrri þáttum. Það verður, til að blaðra sem minnst, athyglisvert að sjá hvernig þetta fer allt saman að þessu sinni. Ég er handviss um að Sería 2 eigi eftir að dragast á langinn hér og þar eins og fyrri serían gerði en það gæti þó vel orðið svo að spennan yrði talsvert meiri hér en hún var í fyrri seríunni.
Spurningin er, hvernig ætlar Michael að redda þessu?
Hvernig fannst ykkur þátturinn?