Fyrsti þátturinn hófst á því að sérfræðingar á vegum leyniþjónustu Bandaríkjanna eru sendir á skip í Atlantshafið því þar er ekki allt með felldu. Þegar sérfræðingarnir rannsaka skipið komast þeir að eitthvað yfirnáttúrulega tákn sem á sér stað í mörgum víddum heimsins, birtist skipverjum og fljótlega fara þeir að týna tölunni. Nokkrir skipverjanna komust frá borði en þeir öðluðust ofurmannlegan kraft fyrir utan að smitast af þessu yfirnáttúrulega krafti sem enginn veit ennþá hvað er en hvað sem það er, gerði það þá ofbeldisfulla og stórhættulega. Sérfræðingarnir leggja sig í lífshættu við að reyna að klófesta skipverjana því þeir munu svara mörgum spurningum sem brenna á vörum þeirra.
Þættirnir eru virkilega spennandi og sumir hafa líkt þeim við X-files. Þeir eru ágætlega vel gerðir en styrkur þeirra felst fyrst og fremst í handritinu, bæði er plottið vel útpælt við fyrstu sýn og afar trúverðugt. Það sem er athyglisvert er hvort þetta gæti virkilega gerst, er eitthvað þarna úti sem við vitum ekki um og ef það er eitthvað, hvað vill það okkur? Threshold er í flokki spennu-dramaþátta en það er ekki langt í húmorinn.
Leikur og samtöl eru ásættanleg, helstu aðalhlutverk eru í höndum misþekktra leikara en sú þekktasta er tvímælalaust Carla Gugino en hún gerði það gott í Spy Kids trílogíunni og hallærislegu lögguþáttunum Karen Sisco sem SkjárEinn sýndi á tímabili. Einnig leikur stórt hlutverk Brian Van Holt en hann hefur leikið aukahlutverk í myndum á borð við S.W.A.T., Black Hawk Down og Confidence. Önnur hlutverk eru í höndum minni spámanna.
Það er sjónvarpsstöðin CBS sem framleiðir Threshold og hafa þeir fengið prýðis dóma en svo virðist vera að þeir séu ekki að ná til áhorfenda í Bandaríkjunum. Ég hef verið að reyna afla mér upplýsinga hvort þátturinn hafi verið cancellaður en ekki haft erindi sem erfiði. Mér sýnist þó að þátturinn sé ennþá framleiddur.
Hvort sem Bandaríkjamenn hafa ekki tekið Threshold opnum örmum þýðir það ekki að við Íslendingar þurfum að herma eftir en ég mæli allavega með að fólk kíki á þessa þætti við tækifæri. Þeir eru spennandi og plottið er skemmtilegt en þeir eru ekki gallalausir og þeirra Akkilesarhæll er fyrirsjáanleiki af minni hálfu.
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.