“House, M.D.” eru nýir læknaþættir sem hófu göngu sína á Fox sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum síðastliðið haust. Þeir byrjuðu frekar hægt en hafa aukið áhorf sitt jafn og þétt og eru nú meðal vinsælustu þáttaraða vestan hafs. Það sem greinir þessa þætti frá öðrum í sama geira er að þeir sækja sína fyrirmynd ekki til annarra læknisþátta. Hér er það Sherlock Holmes í líki Dr. House sem er fremstur meðal jafningja. Í hverjum þætti þurfa House og hinir þrír unglæknar sem starfa undir honum að glíma við flóknar læknagátur, díla við sjúklingja sem eru mis samstarfsfúsir og helst ekki drepa þá í leiðinni. Eins og spæjarinn forðum hefur House sinn Watson sér til halds og traust - nema hér heitir hann Wilson og er krabbameinslæknir. Ekkert bólar á Moriarty týpu ennþá en fyrsta sería en er ekki búin enn.
Það sem einkennir þessi þætti öðru fremur er skemmtileg sýn á læknisfræðina og hvernig læknar þurfa gjarnar að þreifa sig blindandi áfram til að detta niður á rétta sjúkdómsgreiningu. Svo er alveg slatti af húmor þarna.
Dr. Wilson: That smugness of yours really is an attractive quality.
Dr. Gregory House: Thank you. It was either that or get my hair highlighted. Smugness is easier to maintain.
Helstu persónur:
Gregory House - dr. Fúll á Móti - er ekkert sérlega vel við sjúklinga og reyni hvað hann getur að forðast þá. Hefur gaman af því að fást við gátur en nennir ómögulega að díla við sjúklinga sem kvarta undan ómerkilegum meinsemdum. Felur sig gjarna á skrifstofu sinni og spilar GameBoy. Þykist ekki geta gert mistök en gerir þau samt. Er haltur og gengur með staf. Bryður sterk verkjalyf eins og Smarties og er háðari þeim en hann vill viðurkenna.
Leikinn af Hugh Laurie sem er sennilega best þekktur fyrir hlutverk sín í breskum gamanþáttum á borð við Black Adder.
Eric Foreman - reyndur læknir sem setur sig gjarna upp á móti House og finnst sér ekki sýnd tilhlíðlega virðing. Ráðinn af House af því að hann hafði verið tekinn fyrir innbrot á unglingsárum. Leikinn af Omar Epps sem lék m.a. í E.R.
Allison Cameron - dugleg og klár en nokkuð óörugg um sjálfa sig. Dýrkar House meira en góðu hófi gegnir. Ráðin af House því honum fannst hún sæt. Leikin af Jennifer Morrison sem er sennilega best þekkt sem dána þroskahefta stúlkan í “Stir of Echos.”
Robert Chase - ástralskur hrokagikkur með massíft pabbakomplex. Á erfitt með að treysta fólki. Ráðinn af House af þvi að pabbi hans er áhrifamaður. Leikinn af Jesse Spencer sem - eins og flestir aðrir ástralskir leikarar - þurfti að þola mörg á í “Nágrönnum.”
James Wilson - viðkunnalegur krabbameinslæknir og vinur House. Sá eini sem House kemur fram við sem jafningja. Leikinn af Robert Sean Leonard sem er best þekktur fyrir hlutverk sitt sem hinn feigi Neil Perry í “Dead Poets Society.”
Lisa Cuddy - stjórnandi spítalans og fyrrum kærasta House. Hefur trú á getu hans og leyfir honum því að leika lausum hala en er alltaf tilbúin að toga í beislið þegar henni finnst hann fara út í öfgar. Leikin af Lisu Edelstein.
Þessir þættir hafa ekki ennþá verið sýndir í íslensku sjónarvarpi en ef einhver er vel vakandi í dagskrárdeildunum er þess vonandi ekki lengi að bíða.
Intern: You're reading a comic book.
Dr. Gregory House: You're drawing attention to your bosom by wearing a low-cut top. Oh, sorry, I thought we were having a “state-the-obvious” contest.
——————