Í september síðastliðnum hóf SkjárEinn sýningar á þáttunum the L Word. Í fyrstu þáttaröð voru 14 þættir sem sýndir voru á miðvikudagskvöldum klukkan 10. Þessir þættir hafa hlotið mjög góða dóma úti í heimi og notið gífurlegra vinsældra og þá sérstaklega Bandaríkjunum og Kanada, en hér á Íslandi hlutu þeir mjög misjafna gagnrýni. Við skulum bara segja sem svo að það þetta land sé enn yfirfullt af fólki úr “the old school”, fólk sem getur ekki horfst í augu við samkynhneigð. Þar sem þetta eru tvímælalaust með besta sjónvarpsefni sem ég hef séð og nánast engin umræða um þessa þætti á huga.is, þá datt mér í hug að senda inn grein til þess að kynna þá aðeins betur. Svo skrýtið er það nefnilega að það vita mjög fáir eitthvað um þessa þætti, stundum held ég að fólk haldi að það verði að vera samkynhneigt til að geta horft á þá (sem er alls ekki satt).
Áður en ég byrja að fjalla um þættina þá vil ég vekja athygli að ég er frekar hlutdræg ef ég á að orða það þannig, ég á alla þáttaröðina á DVD sem ég horfi á í tíma og ótíma svo ég hef að sjálfsögðu ákveðnar skoðanir á öllu.
Þættirnir fjalla í stórum dráttum um hóp vinkvenna í Los Angeles, sem flestar eru sam- eða tvíkynhneigðar, og hvernig lífi þeirra er háttað. Þættirnir eru skrifaðir af Ilene Chaiken sem sjálf er lesbísk og byggir þættina á sinni eigin reynslu.
Aðalnúmerið í hópnum er Bette Porter, leikin af Jennifer Beals (varð fræg fyrir að leika í Flashdance). Bette er greinilega sú elsta og mest lífsreyndasta af vinkonunum og hún er alltaf með góð ráð á höndum fyrir alla. Hún er ráðrík, en oftast á góðan hátt, og um leið og hún tekur ákvörðum um eitthvað þá stendur sú ákvörðun. Bette er fáguð kona, berst við að koma sér áfram í starfinu sínu (forstjóri California’s Art Centre) sem gengur vel en er of stressandi á köflum. Auk þess þarf hún að ganga í gegnum ýmislegt varðandi barneignir með Tinu, konunni sinni, og þar með er of mikið á hana lagt og hún heldur öllum tilfinningum inni í von um að bregðast ekki vinkonum sínum og virðast vera fullkomnari sem aldrei fyrr. Jennifer Beals leikur hlutverk Bette Porter fáránlega vel og fyrir vikið er Bette mín uppáhalds persóna í þáttunum (ég byrjaði að horfa á þættina vegna þess að ég vissi að Jennifer Beals léki í þeim).
Laurel Holloman leikur Tinu Kennard, konu Bette. Hún er undirgefin ástinni sinni og hætti algjörlega við sinn starfsframa til þess að undirbúa líkama sinn fyrir þungun. Hún virðist taka öllu mótlæti meira inn á sig en Bette, en í raun felur Bette það bara mjög vel. Hún er gjörólík Bette, hún er ekki eins fáguð og álit annarra skiptir minna máli fyrir hana, Tina er bara eins og hún er sem er frábært. Hún virðist á köflum vera algjörlega háð Bette og fái engu að ráða um líf sitt en svo sannar hún þegar lengra dregur á þáttaröðina að hún getur alveg verið sjálfstæð.
Samband Tinu og Bette er í byrjun eins fullkomið og hægt getur en þegar líður á þættina fara að koma brestir. Bette tekur Tinu sem sjálfsögðum hlut og Tina gleymir að pæla í því að Bette þarf að hugsa um sinn frama og vinna fyrir heimilinu. Bette er hálf svört þó það sjáist ekki vel (Jennifer Beals átti sjálf svartan bandaríska pabba og á írska mömmu) svo að hún velur svartan sæðisgjafa án þess að pæla í því hvað Tinu finnst, sem veldur miklum vandræðum í sambandinu. Í síðustu þáttunum heldur hún framhjá Tinu með Candace Jewell, smiði sem vann fyrir hana á listasafninu (kölluð Candass af flestum aðdáendum þáttanna). Tina og Bette missa fóstrið sem þær börðust svo lengi fyrir því að eignast og þegar Tina kemst að framhjáhaldi Bette flýr hún á dyr.
Næst í röðinni er Alice Pieszecki, leikin af Leishu Haily (betur þekkt úr tónlistarheiminum, var í sambandi við K.D. Lang í langan tíma og er í hljómsveitinni The Murmurs eða Gush, bæði nöfn notuð). Alice er vinur allra ef svo má orða það. Hún er fréttamaður sem segir mjög mikið um persónuleika hennar - hún þarf alltaf að vita allt. Þessi karakter er ótrúlega fyndinn, Alice kann yfir höfuð ekki að halda munninum á sér saman og í hvert skipti sem hún er á skjánum verður maður ekki fyrir vonbrigðum. Hún og Bette voru saman fyrr á árum en núna er Alice á lausu og segist vera tvíkynhneigð, leitandi af því sama í fari konu og karla. Í fyrstu þáttaröðinni er hún með Gabby í smá tíma (stelpu sem hafði áður notað hana) en segir henni svo upp á ótrúlegan hátt. Því næst á hún svo í sambandi með lesbískum karlmanni, Lisu, en fær svo nóg af honum (sem betur fer).
Dana Fairbanks er sæta stelpan í hópnum, leikin af Erin Daniels. Hún virðist vera yngst og óreyndust af þeim öllum og er svolítið seinheppin sem er frekar fyndið. Í byrjun er hún algjörlega inni í skápnum sem reynist stundum vera frekar erfitt þar sem hún er rísandi tennisstjarna og fer hjá sér þegar fólk ber kennsl á hana í partíum. Dana gengur í gegnum erfitt tímabil þegar hún fær stóran samning hjá Subaru og auglýsingarnar gefa til kynna að hún sé samkynhneigð, en þá neyðist hún til þess að gera skjöldinn hreinan frammi fyrir foreldrum sínum. Dana er stórskemmtilegur karakter sem lítur upp til Bette og Tinu, á ótrúlega gott samband við Alice (persónulega er ég á því að þær eigi að byrja saman) og er óheppin í ástum.
Í lokin ákveður Dana að giftast Tonyu, stelpu sem greinilega er með henni vegna komandi frægðar og allar vinkonur Danu þola ekki, og Alice verður að taka til sinna ráða og fer heim til Danu og kyssir hana.
Shane McCutcheon, leikin af Kate Moenning, er þessi týpa sem fordómafullt fólk ímyndar sér þegar það hugsar um lessur. Shane er ótrúlega töff, örugg með sig og stundar ekki sambönd. Hún fer með nýja gellu heim um hverja helgi og lendir einu sinni í miklum vandræðum með brjálaða stelpu sem var yfir sig hrifin af Shane. Samband Bette og Tinu til sjö ára heldur samt voninni í Shane um að finna einn daginn sína einu sönnu ást. Hún er mjög fær en vanmetin hárgreiðslukona og kemst óvænt upp á stjörnuhimininn í þeim bransa en fellur fljótt niður aftur þegar hún sefur hjá rangri manneskju. Hún á vingott við einn kúnna sinna, Cherie, sem kemur henni á framfæri í hárgreiðsluheiminum en Shane endar með að verða ástfangin af henni sem er leitt, því Cherie á mann og barn.
Tim Haspel (Eric Mabius) er nágranni Tinu og Bette. Hann fer í sjálfu sér með frekar lítið hlutverk í þáttunum en hann er sundþjálfari og fær kærustuna sína, Jenny, til að flytja til sín frá Iowa. Hann biður hana um að giftast sér en það fer ekki allt eins og hann ætlaðist til.
Jenny Schecter (Mia Kirshner) er ungur og efnilegur rithöfundur sem er yfir sig ástfangin af Tim sínum. En þegar hún flytur til hans frá Iowa, þar sem hún var vön lífinu sem venjulegustu, verður hún vitni að Shane og hennar “vinkonu” vera að gamna sér í sundlaug Bette og Tinu, og upp frá því verður hún mjög forvitin um kynhneigð sína. Hún trúlofast Tim en einungis vegna þess að henni fannst það vera rétt. Hún er kynnt fyrir Marinu í veislu hjá Bette og Tinu og það var neistaflug hjá þeim strax í byrjun. Hún hélt framhjá Tim með Marinu og á endanum labbaði Tim inn á þær og allt var búið þeirra á milli.
Marina Ferrer (Karina Lombard) er þessi seiðandi og útlenda kona. Hún heillar Jenny upp úr skónum með fegurð sinni og bókmenntagáfum. Þegar samband Jenny og Tim er búið telur Jenny sig vera ástfangna af Marinu, en verður fyrir miklum vonbrigðum þegar hún kemst að því að Marina á eiginkonu sem ferðast mikið og er sama þó að Marina sé með öðrum konum á meðan.
Kit Porter (Pam Grier, fræg fyrir að leika Foxy Brown) er stóra systir Bette, reyndar bara hálfsystir. Þær eiga sama föður sem veldur þeim báðum vandræðum. Kit er fræg söngkona og á í samstarfi við hinn fræga Slim Daddy (Snoop Dogg). Samband Kit og Bette er á köflum mjög óstöðugt, Kit á í vandamálum með drykkju og þær rífast of oft um pabba þeirra. Kit á í vinasambandi við lesbíska konu (sem upplifir sig sem karlmann) í lokaþáttunum.
Nú hef ég lokið umfjöllun á helstu persónum þáttanna og rakið söguþráð fyrstu þáttaraðar. Fyrir áhugasama þá hefst önnur þáttaröð í Bandaríkjunum þann 22. febrúar næstkomandi, og SkjárEinn hefur sýningar á henni 8. september klukkan 22:00 (sem að mínu er alltof seint því þáttaröðin verður væntanlega komin út á DVD og ég búin að kaupa mér hana). Það er alls ekki vonlaust að byrja að horfa á þættina í annarri þáttaröð, maður kemst það fljótt inn í þá. Svo er auðvitað hægt að kaupa fyrstu þáttaröðina á DVD á netinu (hún er að sjálfsögðu ekki til á Íslandi) ;). Ef einhverjar undirtektir verða á þessari grein þá er aldrei að vita nema ég komi með upplýsingar og spoilera um þáttaröð nr. 2. :)