Lost - nýir þættir Nú er ný sjónvarpsvertíð byrjuð í Bandaríkjunum og þrátt fyrir holskeflu raunveruleikaþátta og ótímabæran dauðdaga verðugra leikinna þátta er víst ennþá til fólk með frumlegar hugmyndir og hugsjónir. J.J. Abrams - skapari Alias þáttanna - hefur a.m.k. ákveðið að fara ótroðnar slóðir og framleiða (í samstarfi við ABC stöðina sem hefur reynst honum vel) glænýja og rándýra seríu sem gerist hvorki í réttarsal né hjá lögreglunni. “Lost”, sem hefur göngu sína á ABC í Bandaríkjunum 22. september, fjallar um hóp af fólki sem lifir af skelfilegt flugslys á eyju einhvers á Kyrrhafinu. Einagruð frá umheiminum, með eitthvað stórt og ógnvekjandi (og óséð) eltandi þau í skóginum reyna þau að lifa af við þessar ómannúðlegu aðstæður. Hver þáttur segir frá ca. tveimur sólarhringum í lífi þeirra og er planið að láta alla seríuna - 22 þætti - spanna 40 daga á eyjunni. Svona líkt og syndaflóðið og ku það vera engin tilviljun. Miðað við það sem komið hefur fram í viðtölum við höfunda má búast við áhugaverðri félgaslegri stúdíu ásamt drama og spennu í hæfilegu magni þar sem strandaglóparnir reyna að búa til einhvers konar samfélag á eyjunni.
Eins og ég sagði á eftir að frumsýna þættina og sjálf hef ég aðeins séð pilot þáttinn sem hefur verið að velkjast um á netinu undanfarnar vikur og er víst ekki hin endanlega útgáfa. Það er því erfitt að bæði dæma þá og segja meira um framvindinuna því lítið meira er vitað.
Aðalleikarar eru ca. 13 - að viðbættum 33 af þeim sem lifðu slysið af. Fremstur í flokki er læknirinn Jack - leikinn af Matthew Fox sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt sem elsti bróðirinn í væluþáttunum Party of five. Einnig Naveen Andrews (The English Patient), Dominic Monaghan (Lord of the Rings), Harold Perrineau (Oz), Terry O'Quinn (The Stepfather), Daniel Dae Kim (Angel), Ian Somerhalder (Rules of Attraction) og svo mætti lengi telja. Það eru líka kvenmenn í þættinum en þær eru flestar alveg óþekktar og fer það Evangeline Lilly nokkur fremst í flokki.

Þá er bara að vona að “Lost” verði ekki kippt af dagskrá eftir 3 þætti eins og svo mörgum öðrum þáttum sem hafa ekki CSI eða Law & Order í titlinum.
——————