Þátturinn sem sýndur var föstudaginn 2. maí var talsvert frábrugðin því sem venjast má af Buffy þáttum. Hann hét einfaldlega “The Body” var skrifaður og leikstýrt af höfundi þáttanna, Joss Whedon. Í stuttu máli sagði hann frá því hvernig Buffy kom að líki móður sinnar, þegar hún sagði systur sinni tíðindi, hvernig vinir hennar brugðust við fréttunum og þegar þau söfnuðust saman á spítalanum þar sem þau fengu að vita dánarorsök. En þetta er bara það sem gerðist á yfirborðinu. Í raun var ekki um neina sögu að ræða heldur gekk þátturinn út á það að segja á sem raunsæjastan hátt hvernig það er að upplifa dauðsfall einhvers náins. Allir sem hafa einhvern tímann upplifað það skilja nákvæmlega hvað Buffy og vinir hennar ganga í gegnum. Við fáum að sjá allar mismunandi hliðar þessarar óskemmtilegu upplifunar í gegnum mismunandi persónur; Buffy er dofin og kennir sér um, Dawn er í afneitun, Willow fellur saman og einblínir á að segja og gera allt rétt, Xander er reiður, Anya skilur ekki tilganginn með dauðanum og Tara er einfaldlega sorgmædd. Hvert um sig standa þau fyrir allar þær tilfinningaflækjur sem koma upp hjá einni manneskju við slíkar aðstæður. Þrátt fyrir það er hið daglega líf ekki langt undan; bílar fá stöðumælasektir, börn leika sér úti í sólinni, fólk stendur sig að því að hlægja, elskendur kyssast og vampírur rísa upp frá dauðum. Dána manneskjan sjálf verður líka allt of hversdagsleg - rifbeininn brotna við lífgunartilraunir, líkið getur ekki lagað pilsið sem fer úr skorðum, það er ekkert eftir af manneskjunni og líkið er flutt til, sett í poka, fötin klippt af því og það krufið.
“The Body” er ekki auðveldur þáttur að horfa á - en hann er sennilega raunsæjasti þáttur sem sést hefur í sjónvarpi - hreinskilinn, átakanlegur, nakinn - en um leið áþreifanleg sönnun þess að við göngum í gegnum sömu hlutina þegar ástvinur deyr og það er allt fullkomlega eðlilegt.