<b>Buffy</b>
Buffy Summers er blóðsugubani. Hún var aðeins 15 ára þegar hún fékk að vita um örlög sín og var hún nokkuð lengi að sætta sig við það hlutskipti. Eftir að hún var rekin úr skóla í Los Angeles fyrir slagsmál og íkveikju flutti hún og móðir hennar til Sunnydale þar sem báðar ætluðu að hefja nýtt líf. En það var fyrst í Sunnydale sem Buffy fór að takast á við hlutverk sitt af einhverri alvöru. Á bókasafninu í skólanum beið hennar Rupert Giles sem var sendur til þess að þjálfa hana og aðstoða enda ekki vanþörf á því bærinn Sunnydale er staðsettur ofan á mynni helvítis og allir árar þessa heims og annarra sækja í orkuna sem stafar af honum.
Fljótlega eftir að hún flutti til Sunnydale og byrjaði í skólanum eignaðist Buffy góða vini. Fyrst í stað tók vinsældar drottningin Cordelia henni opnum örmum en fljótlega kom í ljós að þær áttu ekki vel saman þar sem Cordelia fannst Buffy stórskrítin og Buffy fannst Cordelia vera tík. Í staðinn eignaðist hún trygga vini þegar hún kynnist Willow og Xander sem hafa hjálpað henni mikið í gegnum árin.
Starfið hefði sennilega veist Buffy léttara, að minnsta kosti einfaldara, ef hún hefði ekki kynnst Angel. Fyrst í stað er hann bara spennandi eldri strákur en þegar hún kemst að því að hann er vampíra flækist málið og samband þeirra veður stormasamt og brokkgengt í kjölfarið. Sérstaklega þegar óvæntir hlutir setja strik í reikninginn eins og sálarmissir Angels og þegar Buffy sendir Angel til helvítis. Að lokum skilja þau sem vinir en ennþá eru þau ekki búin að gera upp um öll sín mál.
<b>Willow</b>
Willow Rosenberg er besta vinkona Buffy og ómetanlegur meðlimur Scooby hópsins. Sérstaklega hafa tölvuhæfileikar hennar oft komið að góðum notum svo og nornahæfleikar í seinni tíð.
Willow var lengi vel hrifin af æskuvini sínum, Xander, en hann svaraði ekki í sömu mynt. Willow var alltaf mjög hlédræg, feimin og óörugg en það fór að lagast eftir að hún kynntist og fór að vera með varúlfinum og gítarleikaranum Oz. Á sama tíma uppgötvaði hún að hún hafði einhverja nornahæfileika og hún hefur verður að þróa þá með sér jafnt og þétt.
<b>Xander</b>
Líf Xander Harris umpólaðist þegar Buffy Summers flutti til Sunnydale. Hann varð yfir sig hrifinn við fyrstu sýn en þar sem hún svaraði ekki í sömu mynt sætti hann sig við að vera vinur hennar og aðstoðarmaður ásamt æskuvinkonu sinni Willow.
Xander býr ekki yfir neinum sérstökum eiginleikum nema kannski tilhneigingu til þess að grínast með allt og alla. Hann er ekkert sérstaklega góður nemandi og hefur ekki ákveðna stefnu í lífinu eins og flestir aðrir í kringum hann. En hann bætir það upp með því að hafa hjartað á réttum stað og vera tilbúinn að gera hvað sem er fyrir vini sína.
Xander er sérstaklega laginn við að næla sér í kærustur sem eru ekki eins og fólk er flest. Hann varð skotin í líffræðikennaranum Natalie French sem reyndist vera risa padda og seinna í skiptinemandum Ampata sem reyndist vera lifandi dauð múmía. Þá sneri hann sér að Cordeliu. Það samband entis nokkuð lengi eða þangað til hann tók skyndilega eftir Willow og þau byrjuðu að stinga saman nefjum. Það endaði með ósköpum og næst tók við fyrrverandi dímoninn Anya og það samband virðist ætla að ganga vel.
<b>Giles</b>
Giles er vaktari (watcher) Buffy. Honum ber að þjálfa blóðsugubanann og aðstoða hann í baráttunni við óvættir heimsins. Honum var alltaf ætlað að gegna þessu starfi þar sem bæði faðir hans og amma voru vaktarar. Þau þurftu hins vegar ekki að passa upp á bandaríska unglingsstelpu og fyrir breskan bókasafnsfræðing getur það starf verið frekar erfitt, sérstaklega þegar menningar og kynslóðarbilið segir til sín. Giles er þó allur að koma til og frá því að hann tók fyrst við starfi sínu hefur hann þurft að ganga í gegnum mikla erfiðleika og miklar breytingar. Það hafði gífurlega áhrif á hann þegar kærastan hans, Jenny Calender, var myrt af Angel svo og þegar hann var rekin úr vaktara starfi sínu fyrir að sýna Buffy of mikla umhyggju.
Samband Giles og Buffy er afar sérstakt. Þar sem hún býr hjá fráskilinni móður sinni og sér föður sinn sjaldan hefur Giles verið helsta föðurmyndin í lífi hennar. Óhætt er líka að segja að hann beri föðurlegar tilfinningar í brjósti til hennar og er tilbúinn til þess að gera hvað sem er til þess að hjálpa henni og vernda.
<b>Angel</b>
Angel er flókinn náungi og ekki er ennþá allt vitað um sögu hans. Hann er fæddur á Írlandi einvern tímann á síðari hluta 18. aldar. Fjölskylda hans var ágætlega efnuð en hinn ungi Liam þótti mikill auðnuleysingi og drykkjuraftur. Hann hefur sennilega verið á miðjum þrítugsaldri þegar hann var gerður að vampíru af Dörlu. Næstu 100 árin var hann samviskulaus vampíra þangað til að hann drap sígunastúlku. Fjölskylda stúlkunnar lagði á hann álög sem fólust í því að hann fékk sál sína á ný og var dæmdur til þess að hafa samvisku og kveljast yfir misgjörðum sínum. Ef hann einhvern tímann öðlaðist fullkomna hamingjustund mundi hann missa sál sína.
Angel lét lítið fara fyrir sér næstu 100 árin og forðaðist mannfólk. Þangað til hann hitti Buffy og öðlaðist aftur einhvern tilgang - þ.e. að hjálpa henni. Ástarsamband Angel og Buffy var stormasamt enda erfitt fyrir vampíru og blóðsugubana að aðlagast hvort öðru. Þau áttu þó nokkrar góðar stundir saman - svo góðar að Angel öðlaðist hina fullkomnu hamingju, missti sál sína og varð eftur að hinum miskunnarlausa morðingja Angelusi. Um hríð var hann mikil ógn við Buffy og vini hennar og bar m.a. ábyrgð á dauða tölvukennarans og sígunans Jenny Calender sem hafði reynt að endurheimta sál hans. Misgjörðir Angels náðu hámarki þegar hann reyndi ásamt hinni geðveiku vampíru Drusillu að opna leið inn í helvíti og eyða heiminum. Honum tókst ætlunarverk sitt og opnaði leið en Buffy tókst að bjarga heiminum með því að drepa Angel og senda hann til helvítis. En samt ekki áður en Willow tókst að klára það sem Jenny hafði byrjað á - að gefa Angel aftur sál sína.
En eins og Adam var ekki lengi í Paradís var Angel ekki lengi í Helvíti og einhver æðri máttarvöld slepptu honum út. Það er talsvert breyttur Angel sem kemur aftur inn í líf Buffyar. Hann er aftur orðinn góður en hefur þurft að lifa við mikla kvöl í helvíti í mörg hundruð ár þótt í raun hafi aðeins liðið nokkrir mánuðir. Buffy og Angel gera sér líka ljóst að fyrst að hamingja þeirra á milli muni ávallt leiða til þess að Angel missi sál sína þá geti þau ekki verið saman. Angel ákveður því að fara frá Buffy og Sunnydale og reyna að láta gott af sér leiða annars staðar.
<b>Cordelia</b>
Cordelia Chase er ekki öll þar sem hún er séð. Á yfirborðinu er hún vinsæl, rík, dramblát, sjálfselsk, eigingjörn og yfirlætisfull. Undir niðri er hún hreinskilin, duglega og - já - afskaplega sjálfselsk. Enn lengra niðri má svo finna manneskju sem lætur sér annt um aðra og hefur það í sér að breytast til hins betra. Það er oft mjög erfitt að finna þá manneskju þótt hún hafi látið á sér kræla oftar í seinni tíð.
Þegar Buffy byrjaði í Sunnydale High reyndi Cordelia að vingast við hana því hún sá að þær áttu margt sameiginlegt. Buffy aftur á móti bjó ekki yfir neikvæðum eiginleikum Cordeliu og var of sjálfstæð til þess að horfa upp á hana traðka á fólki. Það varð því ekkert úr þeim vinskap. Cordelia, aftur á móti, dróst smám saman inn í Scooby-hópinn og fór að hjálpa til við baráttuna gegn illum öflum. Sérstaklega eftir að hún lenti í sambandi við Xander.
Það samband entist furðu lengi eða þangað til Xander hélt framhjá. Cordelia lét ekki fara með sig á þann hátt, sagði Xander upp og gerði sitt besta til að fjarlægjast Scooby-hópinn. Ekki batnaði svo ástandið þegar foreldrar hennar misstu alla peninga sína og Coridelia var skyndilega orðin fátæk og neyddist til þess að leita út á vinnumarkaðinn. Hún flytur til Los Angeles til þess að gerast leikkona og þar hittir hún Angel.
<b>Oz</b>
Oz slysast inn í hópinn sem kærasti Willow. Hann er gítarleikari hljómsveitarinnar ”Dingos Ate My Baby“, ekki gjarn á að eyða orðum í óþarfa, mjög klár en ekki hrifinn af skólanum, afkaplega svalur og yfir sig ástfangin af Willow. Hann er líka varúlfur eftir að lítill frændi hans beit hann í puttann. Þrjá daga á mánuði, eftir sólarlag, þarf hann að loka sig inn í búri.
Oz er fullkomlega tryggur Willow og tengsl hans við Scooby hópinn eru algjörlega í gegnum hana.
<b>Anya</b>
Anya kemur inn í líf Buffy hópsins fyrir hálfgerða tilviljun. Í þúsund ár var hún Anyanka, verndari svikinna kvenna og uppfyllti allar óskir þeirra - óskir sem fólust yfirleitt í því að kvelja karlmenn á einhvern hátt. Eftir að Cordelia er svikin af Xander mætir Anyanka og uppfyllir þá ósk Cordeliu að Buffy hefði aldrei komið til Sunnydale. Afleiðingarnar eru hræðilegar þar sem Sunnydale án Buffy er vampírubær undir stjórn Meistarans. Giles tekst þó að komast að sannleikanum og eyða kröftum Anyönku. Eftir stendur venjuleg 18 ára stúlka sem er frekar óviss hvernig hún á að takast á við lífið eftir öll þessi ár. Það fyrsta sem hún gerir er að verða hrifin af Xander og hún lætur sig ekki fyrr en þau eru saman.
Anya er undarleg blanda af óvætt og manneskju. Hún býr yfir bæði þeirri grimmd og skeytingaleysi sem fylgir dímonum gjarnan en um leið hefur hún til að bera barnslega einlægni og er mjög blátt áfram í samskiptum sínum við fólk. Hún hefur þurft að hafa sig alla við við að ná tökum á mannlegum samskiptum á ný og samband hennar við Xander hefur hjálpað mikið til að gera hana að venjulegri manneskju. Ekki er þó enn vitað hvaða stefnu hún á eftir að taka; hvort manneskjulega hliðin mun verða ráðandi eða hvort illskan geri vart við sig á ný.
<b>Spike</b>
Spike er með óvenjulegri vampírum sem Buffy og co. hafa hitt. Hann gekk upphaflega undir nafninu William the Bloody, ekki vegna blóðþorsta síns heldur vegna þess að áður en hann varð vampíra var hann viðkvæmt skáld sem samdi ”bloody awful poetry". Eftir að ung, ensk snót gerir lítið úr tilburðum hans við að heilla hana rekst hann á Drusillu og er mjög móttækilegur fyrir því að vera eitthvað annað. Um hríð unir hann sér vel við blóðsúthellingar við hlið Drusillu, Angels og Dörlu. Fjölskyldan leysist þó fljótt upp þegar Angel fær skyndilega sál sína aftur. Í um hundrað ár leikur Spike lausum hala í Evrópu ásamt Drusillu; fær nýtt viðurnefni og drepur tvo blóðsugubana.
En svo kemur hann til Sunnydale og allt breytist. Fyrst í stað leika hann og Dru sér að því að hrella íbúa bæjarins en svo verður Angel aftur vondur og fer að troða sér inn á yfirráðasvæði Spikes og gera stór plön. Spike er ekki sáttur og vill bara að hlutirnir séu eins og þeir voru alltaf. Hann gerir því samning við Buffy um að hjálpa henni við að stoppa Angel og hann geti þá farið með Dru í burtu. Þetta gengur eftir en Drusilla er ekki sátt við svona vopnahlé og sparkar Spike.
<b>Faith</b>
Faith er blóðsugubani líkt og Buffy en að öllu öðru leyti andstæða hennar. Um tíma vinna þær saman en eftir að Faith drepur mann fara þær í tvær ólíkar áttir. Faith er ekki tilbúin til þess að bera ábyrgð á gjörðum sínum og gengur til liðs við borgarstjóra Sunnydale, Richard Wilkins, sem var að plana alls herja yfrráð og uppfærslu í dímon. En hvorki plön Faith né Wilkins ganga upp og á meðan Faith liggur í dái af völdum Buffy er Wilkins sprengdur í loft upp ásamt skólanum.
Látum þetta duga í bili :)
——————