Klukkan er 00:58, kominn tími á fréttir
Þetta er helst í fréttum:
Tap deCODE 24,2 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi
Fleiri bjóða í hlut filippseyska ríkisins í PNOC
Mikil lækkun í Kauphöll OMX á Íslandi
Hagnaður Ryanair jókst um 26%
VIÐSKIPTI
Tap deCODE 24,2 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi
Tap af rekstri deCODE, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, nam 24,2 milljónum dala, jafnvirði 1436 milljóna króna, á þriðja ársfjórðungi samanborið við 23,6 milljónir dala á sama tímabili á síðasta ári. Tap á fyrstu níu mánuðum ársins nam 63,1 milljón dala, jafnvirði 3760 milljóna króna, samanborið við 62,2 milljónir dala á sama tímabili og í fyrra.
Tap á hlut var 0,40 dalir á þriðja ársfjórðungi eða það sama og á síðasta ári. Fyrstu níu mánuði ársins nam tapið 1,03 dalir á hlut samanborið við 1,11 dali í fyrra.
Tekjur á þriðja ársfjórðungi nam 10,9 milljónum dala, jafnvirði 646 milljóna króna, en voru 8,6 milljónir dala á sama tímabili 2006. Fyrstu níu mánuði ársins voru tekjurnar 27,1 milljónir dala, jafnvirði 1607 milljóna króna, samanborið við 29,1 milljón í fyrra.
Fram kemur í tilkynningu félagsins, að helsta ástæða aukinna tekja á þriðja ársfjórðungi sé aukning í erfðaprófum.
Handbært fé deCODE nam í lok september 118,6 milljónum dala en það var 152 milljónir dala í lok síðasta árs
Fleiri bjóða í hlut filippseyska ríkisins í PNOC
Fjárfestingafélagið Filinvest Development Corp. (FDC) hefur ákveðið að bjóða í hlut filippseyska ríkisins í orkuveitunni PNOC Energy Development Corp. ásamt alþjóðlega fyrirtækinu International Power, sem er skráð í Kauphöllinni í Lundúnum.
Eins og áður hefur verið greint frá hefur First Gen Corp., annað stærsta orkufélag Filippseyja, gert samkomulag við Reykjavik Energy Invest um að bjóða í hlut filippseyska ríkisins í PNOC Energy Development Corp.
Filippseyska ríkið vill selja 60% hlut sinn í PNOC og nota söluverðið til að greiða niður fjárlagahalla.
Hlutabréf í FDC lækkuðu um 1,5% í Kauphöllinni í Manilla í morgun eftir að tilkynnt var um að félagið hygðist bjóða í hlut ríkisins í PNOC-EDC. Jafnframt lækkaði PNOC-EDC um 1,3% í dag.
Mikil lækkun í Kauphöll OMX á Íslandi
Úrvalsvísitalan hefur lækkað skarpt frá því að viðskipti hófust með hlutabréf í Kauphöll OMX á Íslandi í morgun. Nemur lækkunin 2,23% og stendur vísitalan í 7.731 stigi. Kaupþing hefur lækkað um 3,08%, FL Group um 2,74%, Exista um 2,5% og Straumur um 2,43%. Einungis eitt félag hefur hækkað það sem af er degi, Eik banki um 0,46%.
Í Ósló hefur hlutabréfavísitalan hækkað um 0,23%, í Kaupmannahöfn nemur lækkunin 0,08%, í Helsinki hefur vísitalan lækkað um 0,7% og í Stokkhólmi um 0,31%. Nordic 40 vísitalan hefur lækkað um 0,19%.
Hagnaður Ryanair jókst um 26%
Hagnaður lággjaldaflugfélagsins Ryanair jókst um 26% á öðrum ársfjórðungi rekstrarársins. Nam hagnaður Ryanair 268,7 milljónum evra á tímabilinu júlí til september, samanborið við 213,4 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Ryanair hefur hækkað spá sína um afkomu ársins í kjölfar aukins hagnaðar á öðrum fjórðungi rekstrarársins.
Afkoma Ryanair er svipuð og greiningardeildir höfðu spá en aukinn hagnaður skýrist einkum af nýjum flugleiðum og aukinni áherslu félagsins á að skapa tekjur af hliðargreinum.
Tekjur Ryanair jukust um 25% í fjórðungnum og námu 861,3 milljónum evra. Miðasala jókst um 20,6% og nam 726 milljónum evra. Þóknanatekjur af til að mynda hótelbókunum og bílaleigum, sölu um borð í flugvélum og aukagreiðslna vegna farangurs og innritunar jukust um 54% og námu 135,3 milljónum evra.
Forstjóri Ryanair, Michael O'Leary, segir í tilkynningu að gert sé ráð fyrir því að hagnaður fyrir rekstrarárið í heild aukist um 17,5% frá fyrra ári og nemi 470 milljónum evra. Fyrri spá hljóðaði upp á 440 milljónir evra hagnað.
Hlutabréf Ryanair lækkuðu um 4% eftir að tilkynnt var um afkomu félagsins.
Flugleiðir Ryanair, sem var stofnað árið 1985, eru 563 talsins í 26 löndum
—
Ekki verður það fleira í kvöld.
Takk fyrir mig og þangað til næst.
-Kv. Rodion Romanovich Raskolnikov
Eyes down, round and round, let's all sit and watch the moneygoround.