“Hey, horfið á mig, ég er niðurdreginn! Hey, horfið á mig, ég þarf hjálp! Hey, horfið á mig, ég er hér!”
Drengurinn kallar og kallar, en enginn tekur hann alvarlega. Hann fær á sig skot - Hann er faggi, hann er viljavera-goti, hann er athyglissjúkur stráklingur sem finnst voðasniðugt að þykjast líða illa til að fá athygli.
“Hey, horfið á mig, ég er ennþá niðurdreginn! Hey, horfið á mig, ég þarf enn meiri hjálp! Hey, horfið á mig, ég er enn hér!”
Drengurinn kallar áfram, aftur og aftur, en viðbrögðin eru ekki einsog hann hafði vonast eftir. Enginn reynir að hjálpa honum að líða betur - Hann ætti einfaldlega að líta á björtu hliðar þessa lífs, hann ætti einfaldlega að hætta að væla. Vera maður, ekki aumingi. Drulla sér úr sporunum og gera eitthvað af viti - Ekki sitja inni og semja tilfinningaþrungnar skáldsögur og ljóð um hve illa honum líður.
“Hey, horfið á mig, ég er djúpt sokkinn! Hey, horfið á mig, komið fljótt og hjálpið mér! Hey, horfið á mig, ég er hér enn þó það verði ekki að eilífu!”
Drengurinn þegir ekki - Hann kallar og hann kallar. Fólk hæðist að honum, ögrar honum, manar hann til að gera eitthvað í þessari hótun sinni að vera ekki hér að eilífu. Það hlær að vanlíðan stráksins - Segir hana ekki á rökum byggða og hann muni jafna sig fljótt. Hann þori hvorteðer ekkert að gera. Hann er bara athyglissjúkur.
“Hey, horfið á mig, rétt áður en ég hverf! Hey, horfið á mig, það fer að verða of seint að hjálpa! Hey, horfið á mig, ég er að hverfa!”
Drengurinn rétt kemur þessu uppúr sér og bíður ekki eftir að sjá viðbrögðin - Hann veit hver þau verða. Og honum skjátlaðist ekki, fólk hlær enn að honum, stöku manneskja fær smá óttakast en næsta manneskja við hliðina slær létt á bak hennar og nefnir að hann muni hvorteðer ekkert gera þetta - Þetta er bara óþarfa athyglissýki. Og allir sætta sig við þá útskýringu og láta drenginn í friði.
“Hey, horfið á mig, ég er þakinn blóði! Hey, horfið á mig, ég er farinn án ykkar hjálpar! Hey, horfið á mig, ég er horfinn!”
Drengurinn liggur í blóði sínu og hvíslar þetta - En þá er eitthvað gert, þá er honum ekið á spítala, þar er gert að sárum hans. Fólk hlær enn að honum, hann er aumingi, hann þorði ekki að ljúka verkinu, hann var bara að plata allan tímann - Einsog þau höfðu sagt. Þau létu ekki blekkja sig. Þau sáu í gegnum hann.
Svo gengur atburðarásin í hringi - Skref eitt, skref tvö, skref þrjú, skref fjögur og að lokum skref fimm. Þangað til einn daginn að skref fimm virkar ekki sem skyldi. Enginn kom að honum, enginn gat ekið honum á spítala, enginn gat stöðvað blæðinguna, enginn gat gert að sárum hans.
Og þá loksins þagði fólkið.