Ég kom hér um daginn með þráð með leiðbeiningum um hvernig á að gera ís úr kakómalti, og núna þarf ég að útskýra það sem ég hef verið að prófa að gera seinustu daga, frostpinna! Það er einfalt að gera þá, og þeir bragðast vel =P
Fyrst af öllu þarf maður að útvega sér frostpinnabox. Það fæst t.d. í Ikea, ég man ekki hvaðan ég fékk mitt, annað hvort Byggt & Búið eða Tiger… Allaveganna, þetta er mjög sniðugt að eiga, maður getur skellt næstum öllum vökvum ofaní mótið, þó ég myndi ekki mæla með mjólk eða klístruðum drykkjum, það verður ógeðslegt er það frýs.
Það hljóta allir að hafa fryst kók eða pepsi, það er bara eitt af því sem allir gera, a.m.k. ég… Þetta frýs ekkert svaka vel, klakinn verður mjúkur, klístraður, og bragðið verður ekkert svo gott, kókbragðið heldur sér ekki. Ekki sniðugt.
Hins vegar datt ég niður á einn æðislegan safa til að frysta. Hann frystist vel, er ekki of harður, samt vel stífur, bráðnar ekki hratt, og býr til æðislega frostpinna! Ég er að tala um safa frá Euroshopper, með tropicalbragði, fæst í Bónus á 75 kall eða því sem næst, einn lítri. Einn lítri dugir held ég í formin frá Ikea, en mitt form er aðeins minna, svo það fer rúmlega hálfur lítri fyrir hverja 8 frostpinna. Ekki slæmt að fá 15 pinna fyrir 75 kall!
Núna þegar sumarið er að koma, og það verður “heitt”, þá getur verið voða nice að vera úti á palli (eða svölum í mínu tilfelli -_-"), með frostpinna í hönd að njóta veðurblíðunnar. Ís er góður…
Prófið þetta, kostar skít og kanil (ekki bókstaflega samt), og er þrælgott!