Stærsta blóm heims ber fræðiheitið Amorphophallus titanum (e. corpse flower eða Titan Arum) sem kannski mætti kalla hræblóm á íslensku. Blómið tilheyrir sömu ætt og algeng pottablóm af tegundunum Dieffenbachia (e. dumbcane) og Philodendrons en er miklu stórgerðara. Hræblómið lifir villt í regnskógum Súmötru í Indónesíu en er orðið mjög sjaldgæft. Plantan er ræktuð í grasagörðum bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu.
Hið risavaxna blóm plöntunnar vex út úr stórum jarðstöngli sem getur vegið allt að 80 kg. Blómstilkurinn sem liggur fyrir miðju blómsins getur orðið á þriðja metra á hæð og mælist blómið yfir 1 metri í þvermál.