enn einn frétt frá mbl.is
Líkbrennslan hitar upp íbúðarhús í Stokkhólmi
Afgangshiti frá líkbrennslunni í Råcksta, einu af úthverfum Stokkhólmsborgar, verður senn notaður til að hita upp íbúðarhús en ætlunin er að tengja brennsluna fjarhitunarkerfi borgarinnar. Hefur kirkjan lagt blessun sína yfir þessar fyrirætlanir.
„Það er svalt að fá hlýju frá afa,“ mætti hugsa sér að íbúar í Stokkhólmi segi er þeir skrúfa upp hitastillana í vetur. Hugmyndin um að nýta hita frá líkbrennslunum er ekki ný af nálinni því tillögu í þá veru setti kirkjugarðaráð Stokkhólms fram fyrir fimm árum, að hafa mætti frekara brúk af afgangshitanum frá ofnunum í Råcksta. Í þann tíð óttaðist hins vegar Orkuveita Stokkhólms viðbrögð neytenda, að sögn blaðsins Dagens Nyheter. Fjöldi biskupa hefur tjáð sig um málið og allir á einn veg; taka jákvætt í hugmyndina. Ekki hefur þótt ástæða til að útkljá einhver siðferðisleg álitamál í þessu sambandi. „Þvert á móti er hér um umhverfisvæna lausn að ræða,” segir Anders Norsell, framkvæmdastjóri kirkjugarðanefndarinnar og verður hugmyndin því að veruleika í mars nk., er fyrstu húsin fá fjarhita frá líkbrennslunni.
Hugmyndin um að tengja líkbrennsluna við fjarvarmaveituna kviknaði er brennslan þurfti á vatni að halda til að kæla reyk og gas frá líkofnunum í þeim tilgangi að hreinsa reykinn og gasið af kvikasilfri. Til þess þarf afar mikið vatn og þar sem reykurinn frá ofnunum er í fyrstu um 1.100 gráða heitur fellur til mikið af funheitu kælivatni sem þótti ákjósanleg viðbót við fjarvarmaveituna.