Grunnatriðin
Þú skalt byrja á því að hvolfa dósunum úr öllum pokunum sem þú ert með, mæli með því að gera þetta á stað þar sem enginn vindur er, t.d. inni í bílskúr. Þegar dósirnar eru komnar á gólfið skaltu hengja svartan ruslapoka á snaga eða eitthvað því um líkt í sirka meters hæð, það finnst mér vera þægilegasta hæðin. Jæja, núna eru allar flöskurnar á gólfinu og pokinn hangir vonandi uppi, þá getum við byrjað. Ég mæli með því að taka alltaf jafnmargar flöskur upp í einu og setja þær í pokann, þægilegast finnst mér að hafa þær fimm.
Hvernig á að taka flöskurnar upp og telja þær?
Plast: Plastið er ekki flókið frekar en álið eða glerið. Ég tek flöskurnar upp með annarri hendi og treð þeim á milli fingranna, oftast þrjár á milli puttanna og tek svo tvær með hinni (2+3=5). Svona festast flöskurnar vel og lítil sem engin hætta á að þú missir þær á gólfið en samt er þægilegt að losa sig við þær í pokann.
Ál: Álið er mjög þægilegt að taka upp og telja. Ég mæli með því að nota báðar hendur. Þú notar þumal-og vísifingur til að kremja þær saman og setur þær svo á milli puttana. Mjög létt verk er að halda þeim á milli fingranna ef þær eru bara fimm en þó er mögulegt að ná tíu ef maður er orðinn mjög góður í þessu. Ef maður er með tíu dósir getur maður lent í smá basli með að ná þeim af fingrunum, það er þó hægt að gera með því að nota hina hendina til að ýta þeim ofan í pokann.
Gler: Glerið er nú voða einfalt. Tekur fjórar til fimm í einu (2+2 eða 2+3) og setur þær ofan í pappakassa.
Af hverju að telja dósir?
Fyrir utan að maður getur fengið væna fúlgu af því að telja dósir þá er þetta einnig mjög gott fyrir annað. T.d. getur maður orðið mjög öflugur í margföldunartöflunni. Svo er þetta líka góð leið til þess að kynnast sjálfum sér þar sem maður er oftast einn við þessa iðju. Einhverjum gæti líka þótt gott að fá klístur á hendurnar eftir bjórinn og gosið.
Skemmtilegir leikir á meðan flokkun stendur
Að telja dósir er ekki alltaf góð skemmtun en maður verður að halda sér við efnið. Það eru til gríðarmargir leikir sem eiga allir eitt sameiginlegt, að skemmta manni við flokkunina! Ég ætla að fara í tvo þeirra.
Körfuflaska: Þessi leikur er næstum því eins og stinger í körfubolta nema bara með flöskur og svartan ruslapoka. Gaman getur verið að hóa saman fjölskylduna og/eða vini á fallegum sunnudegi til að spila körfuflösku, það getur verið góð og mikil afþreying.
Endurgera atriði: Gaman getur verið að taka sig til og endurgera sígild kvikmyndaatriði. Ég geri það oft og mitt persónulega uppáhald er þegar Múfasa dettur af klettinum í Lion King. Þá leik ég Skara og flaskan, tveggja lítra, er Múfasa sem dettur ofan í svartan ruslapokan. Oft læt ég líka litla flösku, hálfs lítra, vera við hliðina á og leika Simba.
Þá er þessari grein lokið og ég vona að þú hafir lært mikið um leyndardóma og þá skemmtun sem dósaflokkun býr yfir.