Ég ætla að skrifa um ekkert.
Ekkert er ekki neitt. Tómarúm. Lofttæmi. Það er minna en mús, en þó stærra en fíll. Það er jafn áþreifanlegt og persóna í tölvuleik. Það er eins og . Ekkert.
Staðfesting á tilveru einskis er erfið, þótt hægt sé að skilgreina það. Ekkert er til dæmis það efnismagn sem er á milli tveggja hluta sem liggja alveg upp við hvorn annan. Ekkert er það sem er á milli framstuðara og afturhluta bíla sem lenda í áresktri. Það hefur ekki massa, en er þó á milli hlutanna. Eða hvað?
Ekkert getur ekki horfið, og það er til dæmis síðasta form lykla. Lykillinn er fyrst málmur í bergi. Málmurinn er bræddur úr berginu, og úr honum steyptur lykill. Lykillinn er skorinn til og seldur. Svo brotnar lykillinn og verður að tveimur lyklingum. Þá vill maður fara með þá til lyklasmiðs daginn eftir og geymir þá uppi í hillu um nóttina. Svo, þegar maður ætlar að sækja lykilinn daginn eftir grípur maður í tómt.
Þá kemst margur svo að orði að lykillinn sé “orðinn að engu”.
Ekkert er því stórmerkilegt. Maður getur ekki séð það, og samt kemur það stanslaust fyrir í daglegu tali.
Dæmi um margnotaðar setningar eru “ég fann ekkert”, “það var enginn þar” og “það er enginn heima”. Þetta eru yfirleitt lygar, enda er setningin “það er enginn heima” í mótsögn við þá staðreynd að yfirleitt er maður heima þegar maður segir hana. Þannig ruglast menn oft á sjálfum sér og engu.
Það gæti stafað af því að menn sjá oft lítið af sér og horfi of lítið í spegla. Þannig verða þeir ekki varir við eigin veruleika og enda oft í draumkenndu ástandi sem nefnist “daglegur veruleiki”. Enginn ætti að festast í slíku ástandi til langframa, enda getur endurtekinn daglegur veruleiki endað í lífsleiða og oft sjálfsmorði, því alveg eins og fólk fer í kynskiptiaðgerð til að hlýða því kalli að maður sé í raun í röngum líkama vill maður gera sig að engu til að fullkomna hinn daglega veruleika.
Ég get því með stolti tilkynnt að ekkert er ekkert til að hafa áhyggjur af, svo lengi sem við gerum okkur grein fyrir tilvist þess og föllum ekki í þá gryfju að ruglast á því og okkur sjálfum.