*Setur upp gleraugu og ræskir sig kennaralega*
Jæja krakkar mínir, ég heiti Elísabet og er nýji kennarinn ykkar. Í dag ætlum við að læra um stafinn A.
A er sérhljóði. Séhljóði er stafur sem getur sagt nafnið sitt sjálfur, segið það með mér Aaaaaa…
Stafurinn A er fyrsti stafurinn í stafrófinu. Stafurinn A á vin sem heitir Á og kemur á eftir A í stafrófinu en við munum læra um hann seinna.
A er hægt að skrifa bæði stórt og lítið.
Stórt A er skrifað A.
Lítið A er skrifað a.
Finnum nú orð saman sem byrja á A, eins og amma, afi og aldarmót.
Getið þið líka fundið orð sem eru með A einhverstaðar í sér eins og banani, kaffibaunir og Elísabet.
Hér kemur svo lítil vísa um stafinn A sem við ætlum að syngja saman:
A - a - a
afi fer í bað
amma hjálpar afa gamla
oní heitu vatni að svamla
a - a - a - a - a
Afi fer í bað.
Nú ættuð þið öll að kunna stafinn A.
Á morgun lærum við svo um stafinn Á. Standið nú öll fyrir aftan stólana ykkar og svo megið þið fara.
*Ýtir gleraugunum lengra upp á nefið og brosir kennaralega*