Ég er í eyðu í rétt undir klukkutíma í viðbót og hvað er annað betra heldur en að setjast niður í skólanum og skrifa grein um skólann. Það er nú það sem greinasamkeppnin snýst um!

Fyrst ætla ég að útskýra þetta hugtak fyrir ykkur.
Skóli [School á ensku máli] er orð yfir stofnun sem krökkum er hrúgað inn í til að mennta þau svo þau fái almennilegar vinnur í framtíðinni. Leikskóli er mest bara svona stofnun þar sem þeim er kennt að leika sér, lita, leira og fleira til að þau séu samskiptahæf þegar þau koma í næstu gerð af skólastofunun.
Grunnskóli skiptist í þrjár deildir. Yngstu deild, miðdeild og unglingadeild. Yngsta deildin lærir mest bara grunn, 1+1 og 2+2 og margskonar hluti sem nýtast þeim í miðdeild og unglingadeild. Miðdeild fer í aðeins erfiðari hluti en þó ekki það mikið erfiðari að þau fái taugaáfall og endi líf sitt. Unglingdeild fer svo í erfiðustu hlutina sem byggjast upp á að blanda saman þeim grunnhlutum sem þeim var kennt á yngri deild og miðdeild. “Samræmd próf” er haldið í lok grunnskólagöngu nemandans en þau eru sérgerð til að stressa fólk upp.
Eftir grunnskóla er svo val um hvort fólk fari í mennta-, fjölbrauta- eða framhaldsskóla. Það er ekki skylda og sumir fara beint að vinna. Eftir það kemur svo háskóli.

Til að byrja með, þegar ég var lítill krakkaangi var ég á leikskóla eins og gerist nú oft með lítil börn. Foreldrarnir eru oft að vinna og láta annað fólk sjá um börnin á meðan. Fólk sem vinnur við að sjá um börn fyrir fólk sem er í annarri vinnu.
Ég bjó einmitt bara beint á móti leikskólanum svo mamma hljóp bara með mig út, henti mér inn og hljóp aftur út til að bruna í vinnuna.
Leikskólinn minn í Reykjavík hét/heitir Hagaborg og er í Vesturbænum. Ég man furðulega vel eftir þessum leikskóla og þarna var leikkonan í mér til dæmis gerð. Það er að segja, hún kom fyrst fram á þessu leikskóla.
Það var nefninlega þannig að í sumum hvíldartímum þegar við lágum í hrúgu á dýnum með teppi inni í sal var sett saga í gang. “Mjallhvít” eða “Rauðhetta” til dæmis.
Einn daginn var spilað leikritið “Kiðlingarnir 7”. Eftir leikritið sagði fóstran nokkur nöfn og við áttum að vera eftir og fara í röð fyrir framan hana. Ég var miðjulega í röðinni og var mjög stressuð því ég vissi nákvæmlega hvaða hlutverk ég vildi - kiðlinginn sem er ekki étinn. Og það hlutverk fékk ég.
Við æfðum þetta 4-5 sinnum og frumsýndum þetta svo fyrir afganginn af deildinni. Þetta er -braking point- í minni sögu af því síðan þá hef ég ekki viljað gera neitt nema leika!

3.april 1995 flutti ég, mamma mín og eldri bróðir til Akureyrar. Þar var ég sett á annan leikskóla að nafni Holtakot. Ég nenni ekki að muna eftir honum því það gerðist ekkert merkilegt þar.

Haustið 1996 var mér svo plantað í grunnskóla eins og gerist svo oft með 6 ára krakka. Ég var sett í 1.bekk í 5.stofu í Glerárskóla á Akureyri og þar átti ég eftir að vera öll mín grunnskólaár.
Þetta byrjaði rólega, eg kynntist krökkunum en var mest með einni stelpu. Bekkurinn minn var nördabekkurinn og hinir tveir bekkirnir litu svolítið niður á okkur. Ég og þessi vinkona mín vorum nördin í nördabekknum. Oh joy, oh joy.
Lítið er frá mínu grunnskólalífi að segja, þar sem ég var hljóðlátur, lítill krakki. Dugleg og þæg.
Það sem ég gerði reyndar af mér eitt sinn í fimmta bekk var að bíta í bakið á bekkjarsystur minni.
Það kom svo til að það var dótadagur og ég kom með elskulegan bangsann minn. Bekkjarsystur minni þótti sniðugt að stríða mér aðeins og tók bangsann og þóttist ætla að henda honum í ruslið eða eitthvað. Eitthvað klikkaðist í hausnum á mér því ég elti hana út um alla stofu þangað til hún datt og grúfði sig niður. Ég reyndi að ná bangsanum en náði ekki til hans svo ég bara ákvað að höggva mínum hvössu tönnum beint í bakið á henni. Hún var í anorakk sem rifnaði.
Hún grenjaði eins og ég veit ekki hvað! Einhver heyrði í henni, kom inn og náði svo í skólastjórann. Stelpan fór til hjúkkunnar og ég var send til skólastjórans - í fyrsta skiptið á skólagöngu minni.
Ég grenjaði reyndar alveg jafn mikið og hún því ég var hrædd og skammaðist mín. Komst svo að því daginn eftir að hún var send upp á spítala og þurfti að vera á pensilíni í viku. Við urðum samt vinkonur.

Annað sem ég gerði eitt sinn af mér var í dönskutíma. Reyndar gerði ÉG ekkert af mér, það var bara smá misskilningur á milli mín og kennarans. Þannig var það að árgangurinn minn var talinn sá versti í langa tíð á þessum tíma. Hvort þetta var sagt við alla árgangana veit ég ekki en þegar þetta var sagt við okkur fengum við eitthvað kick út úr því og urðum bara verri.
Dönskukennarinn var orðinn frekar pirraður á okkur og var að reyna að útskýra fyrir okkur hlustunarverkefni. Því miður var ég að reyna að hlusta og heyrði voðalega lítið. Allt í einu setti hann á play og allir, nema ég og sessunautur minn vissum hvað átti að gera! Ég varð nú eitthvað fúl við það og sagði svona í djóki “Nú, á bara ekkert að útskýra? Þá fer ég bara í verkfall” við sessunaut minn og setti blýantinn niður í bókina. Kennarinn fékk kast og gargaði á mig að koma mér bara út ef ég ætlaði að láta svona. Ég lét ekki segja mér það tvisvar og labbaði út. Sat bara fyrir framan stofuna og gerði ekkert en heyrði í honum garga á bekkinn að það gæti alveg farið fyrir þeim eins og mér!
Það þótti mér fyndið.

Lítið annað gerðist á minni grunnskólagöngu. Árshátíðir, böll, stelpudrama, samræmd próf og fleira venjulegt.

Nú er ég komin í Menntaskólann við Hamrahlíð og gengur. Já, mér nefninlega gengur bara. Ég veit ekki hvort mér gengur vel eða illa en það skýrist kannski þegar ég fæ einkunnir.

Þetta er semsagt yfirlit mitt yfir skólagöngu og vona ég að þetta nýtist ykkur eitthvað í framtíðinni.

Veriði sæl og eigið gott líf.
-Tinna