Ætla að gera smá grein hérna, um ýmsar minningar frá því úr skóla. Flestar sem tengjast fyrrum ofbeldishneigð minni á einn eða annan hátt.
Tjah, maður hefur nú ekkert alltaf verið góða stúlkan, sem situr saklaus út í horni á meðan aðrir þræta, sem stillir til friðar, og svarar með rökstuðningi. Neihei! Held nú ekki. Á minni skólagöngu svona frá 3. – 8. bekk, lét ég hnefana tala. Þeir voru ófáir slagirnir sem ég lenti í, og stofnaði til. Ég var með ljótan munnsöfnuð, og var með kjaft við þá sem mér líkaði ekki við.
Skólinn var minn vígvöllur í þessum málum. Ég reifst í fólki, að nánast engri ástæðu, það lítið sem leit á mig hornauga, eða jafnvel rakst í mig. Þó svo að slagirnir hafi kannski ekki verið eitthvað svakalegir, og enduðu ekki á því að einhver lenti upp á slysó, þá var ég allbrjálaður krakkagemlingur.
Man til dæmis eftir því einu atviki í 3. bekk. Við vinkonurnar vorum út í frímínútum. Oh, þarna sáum við nokkrar stelpur í 4. bekk, í snú snú. Ég leit upp til þeirra, þær voru jú einu ári eldri en við. Kannski að þær myndu fagna því að kynnast mér? Tja, ég stakk upp á því við vinkonur mínar að við myndum slást í hópinn með 4. bekkjar stúlkunum. Vinkona mín þverneitaði, og vildi gera eitthvað allt annað. Ég var nú ekkert sátt með það, og sparkaði í hana svo að hún fór að gráta. Ég var tekin upp á dekk hjá kennaranum, skömmuð og látin biðjast afsökunar á þessu.
En þó ykkur undrist það kannski eilítið, þá voru það nú aðallega strákarnir sem urðu fyrir barðinu á mér. Þegar einhver var leiðinlegur við mig, þá lét ég hann ekki komast upp með það.
Einn rigningamikinn skóladag í 5. bekk fundu strákarnir í bekknum Nettó innkaupakerru. Þeir voru allnokkrir sem stóðu á kerrunni og renndu sér eftir malbikinu. Ég vildi vera með, og stökk upp á kerruna. Einn vinur minn (vorum nú ekkert miklir félagar í þá daga), segir mér að fara, og ýtir í mig. Ég gaf engan vegin eftir, og vildi ná mínu framgengt. Eftir smá þras, og þrjósku, sparka ég harkalega í hann. Svo missti ég það algjörlega, negldii fastar og fastar í lappirnar á honum, þar til hann brjálaðist og tók skotthúfuna af mér. Hann hljóp á eftir mér, og þegar hann sá að ég var ekki svo auðveld í ‘eltingarleik’, þá tók hann upp á því að hrækja í húfuna mína. Ég horfði á hann vonlausum og sorgmæddum augum, því mér þótti ofsalega vænt um þessa skotthúfu, sem mamma prjónaði handa mér.
Ég var nú ekkert lítið skömmuð eftir þetta atvik. Sat í fýlu inní fatahenginu í drykkjulanga stund á eftir.
Ég var tja, hvernig get ég orðað það á fallegan hátt.. stúlkan sem fæstir þoldu. Það ríkti heilmikið stríð á milli bekkja. Þeir sem voru í ‘B’ og ‘D’ bekknum hötuðu mig. Töldu mig vera hrokafulla, tussu, frekju, bitch og fleira þessháttar. Ég og þrjár aðrar vinkonur mínar vorum ‘tíkurnar’ í árganginum. Vorum orðaðar við að vera eins og klappstýrutussurnar eins og í flestum svona unglingamyndum.
Í 7. bekk fóru sögusagnir á stjá, um að stelpa í 9. bekk var hrædd við mig og þessar þrjár vinkonur mínar. Þegar hún var ein á röltinu, þorði hún ekki að labba framhjá okkur, í ótta um að lenda í okkur.
Þessi stelpa vann tímabundið í hverfissjoppunni. Einn laugardaginn geng ég inní sjoppuna með 200 kall. Eins og fúnkerast í þessum sjoppum, þá er 50 % afsláttur á laugardögum. En nei, ég fæ ekki bara fyrir 400 kr. heldur tæplega 700 kall. Svo heyrist mér á vini mínum í skólanum mánudaginn eftir, að stúlkan hafi gert þetta viljandi.
Ah, hvaða setning var það nú aftur í 6. bekk sem var svo vinsæl. Eitthvað ‘hefurðu riðið’ á einhverju furðulegu tungumáli. Allavega, þá var ég, og tveir strákar að koma úr frímínútum, við vorum seinust inní tíma, svo við vorum enn við fatahengið. Allt í einu segir annar strákurinn þessa setningu við hinn strákinn. Sem sagt, þá var hann að tala um mig. Þetta fer heldur betur í mig, og ég ræðst á hann, tek hann niður og sparka í hann. Hann fór að gráta að mig minnir.
En það furðulega var, að ég var greinilega í miklu uppáhaldi hjá kennaranum. Þar sem hún húðskammaði grey drenginn, en ‘huggaði’ mig. Strákurinn kom svo ekki í skólann nokkra daga á eftir.
Jæja, ég man ekki eftir fleiru jafn eftirminnilegu. Annað hefur bara verið einhver smámál. Ég að vísu var ömurleg í kjaftinum, kunni ekki að svara almennilega fyrir mig. Þ.e.a.s. ég notaði ljót orð, sem á ekki að gera, því að orð særa, og þau verða ekki afturtekin. Frekar að rökræða, og koma sínu á framfæri.
Ég var virkilega leiðinlegur krakki, og ég hef þroskast mjög. Hef ekki lent í slag síðan í 8. bekk, og ekki rifið kjaft síðan þá. Svo hef ég ekki þessa ímynd á mér lengur að vera “Bitch-in” í árganginum. Reyni alltaf að vera mjög kurteis og ljúf við skólafélaga mína, sama hversu vel ég þekki þá.