Allir hafa hæfileika. Ég líka. Ég á bara eftir að finna hann. Ég hef leitað hans lengi. Byrjaði sem kornabarn. Ég ætlaði að vera göngugarpur. Eftir að hafa náð nokkrum tökum á þessarri ágætu grein, sem gangan er þótti ónefndum bróður mínum nóg um. Ég var of lítil til þess að labba! Svo að hann hrinti mér niður og settist ofan á mig til þess að koma í veg fyrir að ég færi mér að voða. En í eitt skipti, þegar bróðir minn ætlaði að setjast ofan á mig, ýtti hann mér of harkalega og framtennurnar brotnuðu. Það þurfti að draga þær úr og ég því svipt þeim hæfileika að geta talað almennilega. En það er önnur saga.
Þegar ég var tveggja ára fóru trampólín að heilla mig. Ég ætlaði mér að verða best á því sviði. Því miður áttum við ekki, og eigum ekki enn, trampólín svo að ég notaðist við rúm og sófa til þess að stökkva hæð mína. Eitt sinn þegar ég og ónefndur bróðir minn, hann Leifur vorum að hoppast í svefnsófa sem var í minnsta herberginu í húsi sem að kallast ýmist “Ömmuhús” eða “Gamla húsið”. Við vorum ung og djörf svo að við ætluðum að prófa eitthvað erfiðara. Svo að við köstuðum teppi yfir okkur og ætluðum að hoppa blindandi! Því miður hitti ég ekki á rúmið heldur skall á gólfið og viðbeinsbrotnaði. Ég grenjaði eins og stunginn grís, eftir þennan ósigur en þá heyrðist frá ömmu: “Uss, ég er í símanum.”
Ég var þó ekki af baki dottin í þrotlausri leit minni eftir hæfileikum. Þriggja ára gömul sá ég fólk í sjónvarpinu vera að gera fimleika. Fólkið hringsnerist í loftinu eins og búmerang og ég vildi geta það sama. Svo að ég ákvað að reyna að fara í hring í loftinu án þess að snerta gólfið. Því miður mistókst eitthvað og ég lenti illa og tognaði á hálsi. Ég veit ekki enn hvað fór úrskeiðis en ég gaf fimleika ekki alveg upp á bátinn.
Svo liðu nokkur róleg ár og ekkert merkilegt gerðist fyrr en ég hafði náð þeim virðulega aldri; 6 ára. Við áttum nefnilega stórfurðulegt tæki sem að kallaðist “Vídjó-tæki”. Það gerði það að verkum að það var hægt að bregða sér af bæ án þess að missa af neinu merkilegu í sjónvarpinu og horft á það seinna. Af einhverjum undarlegum og algjörlega óskiljanlegum ástæðum var mér ekki kennt á þetta tól.
Eitt sinn þegar ég var að ganga niður í fjárhús, í mínu allra mesta sakleysi, þá mætti ég bróður mínum. Hann spurði hvort að ég hafi tekið upp fyrir hann barnatímann. Ég var undrandi og neitaði því. Ég kunni ekki einu sinni á tækið. Hvort sem að það átti að hjálpa mér að læra á “vídjóið” eða ekki tók bróðir minn upp stein og kastaði honum í mig. Það blæddi úr hausnum, niður andlitið og blóðið náði að greiða sér leið alveg niður á minn heittelskaða Pocahontas-bol. Ég var kannski ekki eins hugrökk og ég hélt að ég væri, því að um leið og ég gerði mér grein fyrir því að blóðið flæddi stanslaust niður andlit mitt í miklum mæli, þá tók ég grenjandi á rás í átt að fjárhúsunum.
Svo vildi til að pabbi var að koma heim á bílnum og mætti mér, alblóðugri í framan og ég var keyrð beint í Borgarnes að hitta lækni, eftir að blóðið hafði verið þvegið og ég skipt um bol. Að vísu var þetta lítið sár og það þurfti ekki að sauma nema eitt spor í mitt fagra höfuðleður. En það breytti ekki þeirri staðreynd að uppáhaldsbolurinn minn var meira og minna útataður í blóði.
Að víu dró ég minn lærdóm af þessu, ég komst til dæmis að því að ég og tæknin eigum ekki samleið. Og ég komst einnig að því að það er hægt að þvo blóð úr fötum ásamt þeirri staðreynd að grjót er harðara en það virðist vera.
En ég gafst ekki upp. Átta vetra að aldri reyndi ég aftur við fimleika. Ég var í þriðja bekk og það voru svo kallaðar “frímínútur” þar sem við vorum skikkuð til þess að vera úti. Ég og nokkrar vinkonur mínar fórum upp á klett sem að er rétt hjá skólanum. Við vorum svo heppnar að finna snúrustaur sem að var ekki ósvipaður ‘T’ í laginu. Við skiptumst á að sveifla okkur í honum. Staurinn stóð samt í halla þannig að það var lengra niður öðrum megin. Ein vinkona mín, gífurlega hugrökk ákvað að þora niður þeim megin sem lengra var til jarðar. Ekki vildi ég eftirbátur vera svo að ég gerði eins. Og allt gekk vel. En næst þegar ég ætlaði að reyna þetta þá lenti ég illa og meiddi mig í fæti. Að vísu var fóturinn orðinn góður að frímínútum liðnum, þegar að við neyddumst til þess að fara inn aftur. Fóturinn bólgnaði og bólgnaði og verkurinn kom aftur. Ég gerði mér grein fyrir að fimleikar væru ekki mín hilla. En ég var í danskennslu, sem að var skilda þetta árið. Svo skemmtilega vildi til að það var danskennsla sama dag og ég gafst upp á fimleikum. Hvort að ég dansi vel eða illa er svo annað mál og líklega ekki í frásögur færandi. En þó að ég gæti ekki staðið í fótinn né komist í skóinn vegna bólgunnar fór ég samt í dans. Ég bað um að fá að horfa á en kennarinn tók það ekki í mál. Eins og hann orðaði það: “Þetta eru bara vaxtaverkir.” Seinna um kvöldið fór ég til læknis en þar sem að læknishæfileikar hans eru gífurlegir og ná líklega hámarki að kvöldi til sá hann að ég var tognuð. Ég fékk teygjusokk og hoppaði um allt á einum fæti, rétt eins og afkvæmi kanínu og storka myndi gera, ef það væri til. Þarna koms ég að þeirri grimmilegu staðreynd að hæfileikar mínir lágu hvorki í dansi né fimleikum.
Þegar ég var tíu ára var ég búin að ná gífurlegri hæfni í hjólreiðum. Ég og ónafngreindur bróðir hjóluðum oft niður Harðmaga, en það er gífurlega stór hóll sem að inniheldur brattar og lífshættilegar brekkur og er staðsettur á bakvið húsið okkar. Við notuðum þessar brekkur á veturna til þess að hætta lífi okkar í sleðaferðum. En þar sem að snjórinn var ekki allt árið í kring höfðum við gripið til þeirra úrræða að hjóla. Sem að mörgu leiti var mun hættulegra en saklausar sleðaferðir okkar vegna þess að við fórum hraðar og túnið mjög óslétt auk þess sem að vissan part sumars voru rúllur á túninu og án efa hefði ekki verið skemmtileg lífsreynsla að hjóla á þær, á þeim gífurlega hraða sem við vorum á. En það er lítið “þúfnabelti” þarna sem að minn ónafngreindi bróðir reyndi eitt sinn að hjóla yfir. Það endaði ekki vel vegna þess að hann kollsteyptist af hjólinu sínu og rotaðist. Okkur var bannað að hjóla þarna niður. Ójá, foreldrum okkar fannst ekki sniðugt að við hættum lífi og limum í þessum svaðilförum. Svo að við hættum þessu. Næstum því.
Lömb sem að eiga engar mömmur þurfa nefnilega mjólk. Við; ég bróðir minn og systir vorum vön að gefa þessum ógæfusömu sálum mjólkurdreytil. Þegar þau stækkuðu gengu þau að mestu sjálfala en engu að síður fúlsuðu þau ekki við mjólk úr pela þegar þeim bauðst hún. Einu sinni þegar að við fórum til þess að gefa lömbunum mjólk voru þau stödd á bakvið Harðmaga. Ég og bróðir minn tókum að sjálfsögðu hjólin með. Við ætluðum að hjóla niður Harðmaga á leiðinni til baka. Í síðasta sinn. Við fórum og gáfum lömbunum mjólk en þau vildi ekki klára hana þannig að það var ekkert að gera nema að hjóla með hana niður, eða bara sleppa því að hjóla. Og auðvitað hjóluðum við með hana niður. Ég var svo gífurlega heppin að það var leynivasi á peysunni, hjá hálsmálinu og ég geymdi pelann þar svo að ég hefði báðar hendur til þess að geta stýrt þessu gífurlega torfæruhjóli almennilega. En á leiðinni niður hjólaði ég yfir ósléttu og augu mín neyddust til þess að fara í mjólkurbað. Ég sá ekki handa minna skil. Raunar sá ég ekki neitt. Ég reyndi að þurrka mjólkina úr augum mér en það leiddi til þess að ég missti stjórn á hjólinu. Eftir að hafa losnað við mjólkina úr augunum þá sá ég, en ég sá svart þegar jörin nálgaðist augun, sem áður höfðu átt náin samskipti við mjólkina. Ég datt á nefið og handleggsbrotnaði. Ekki nóg með það heldur brotnaði ég illa, báðar pípurnar á vinstri handlegg brotnuðu hjá úlnliðnum. Ekki það að ég viti hvaða pípur það eru, en höndin var nógu skökk og bólgin til þess að ég skildi að ég væri enginn ofurhugi í hjólreiðum.
Það má fylgja sögunni að þegar að það var verið að taka myndir af handleggnum í Borgarnesi þá ældi ég yfir röngtenmyndavélina.
Heimalingar ætluðu greinilega að gera mér lífið leitt því að vorið eftir beit einn heimalingurinn mig. Þeir eiga það til þegar að manneskjur eru jafn frábærar og bragðgóðar og ég. Ekki það að svona saklaus bit séu sársaukafull, þegar að lömbin eru varla með tennur. En nóg til að ég fengi sýkingu í þumalputtann. Sýking af þessu tagi kallast sláturbóla, hveru heillandi sem það nú er. En nöglina missti ég. Ekki á OMG-ég-braut-nögl-hátt heldur á Nöglin-dettur-alveg-af-hátt. En engar áhyggjur. Hún óx aftur.
Niðurstaðan var sú að hæfileikar mínir væru ekki fólgnir í bóndastörfum, búeðlisfræði eða neinu skilt því.
En ég gafst ekki upp! Ég er ekki kölluð Tinna Kristín að ástæðulausu. Ég hafði nú æft hinar og þessar íþróttirnar í gegnum árin án sýnilegs árangurs. Þegar aldur minn hafði nýlega náð upp í þrettán ár fór ég í leikfimi, eins og ég hafði gert tvisvar í viku frá því ég byrjaði í skóla. Við fórum í handbolta í þessum tiltekna leikfimitíma og liðið sem ég var í, var komið í stórsókn þegar að ég missteig mig og sleit liðband í öðrum fæti. Hæfileiki minn liggur ekki í íþróttum.
Svo er nú komið að ég sit á rassinum [hvar annars staðar?] og er að skrifa þetta í leit minni af hæfileikum. Í gær komst ég þó að því að ótrúleg hæfni mín í skriðtæklingum gæti bjargað heiminum. En þess fyrir utan er ég fullkomlega eðlileg, hæfileikalaus persóna. Ég verð seint besti og mesti göngugarpur sem uppi hefur verið. Fimleikar og dans eru ekki mitt sérsvip. Hæfileikar mínir felast ekki í hoppi og ég og tækni eigum álíka góða samleið og epli og ormar. Hjólreiðar og búeðlisfræði munu ekki prýða feril minn og því síður íþróttir. En þangað til að ég uppgötva mína leyndu og miklu hæfileika mun ég halda áfram að njóta lífsins eins og api með banana.