Hérna kemur nú saga eftir mig…Og ég vil taka það fram að hann vansi á að einhverju leyti hugmyndina! Takk fyrir hjálpina :D


Ég var á torginu. Sólin skein og hitaði upp malbikið svo að það rauk úr því. Ég tiplaði á tánum því malbikið brenndi ef maður stóð of lengi á sama stað.

Ég var í óvenju góðu skapi. Ég hafði fengið góðar fréttir fyrr um daginn. Ég hafði komist inn í Háskólann og þetta var því upplagt tækifæri til að fagna. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að þessi yndislegi dagur gæti orðið enn betri. En sú var nú raunin.

Þegar ég tiplaði þarna um torgið leit fólk á mig og brosti til mín. Það var léttklætt, flest með hatta, sólgleraugu eða sólhlífar til að skýla augunum. Það sást greinilega á mér hversu glaður ég var.

Ég byrjaði að söngla lag sem ég hafði heyrt fyrr um daginn á meðan ég tiplaði á milli ávaxtarekkanna. Frá því að ég mundi eftir mér hafði verið ávaxtamarkaður á torginu, tvo laugardaga í mánuði yfir sumarið. Mamma mín hafði alltaf tekið mig þangað, jafnvel eftir að hún veiktist. Hún sagði meira að segja að á eftir mér og pabba myndi hún sakna ávaxtamarkaðarins mest. Nokkrar af mínum bestu minningum voru héðan af torginu á sólríkum laugardögum eins og þessum.

Mér var heitt og ég pantaði mér svaladrykk á nærliggjandi kaffihúsi. Ég settist undir sólhlíf fyrir utan Café Múlús og virti fyrir mér mannlífið. Og það var þá sem ég sá hana.

Hún lá þarna í sólinni. Gullfalleg og þrýstin. Ég hafði aldrei séð nokkuð svo fagurt áður. Mér hlýnaði öllum að innan. Ég óskaði þess að ég væri ekki svona ofboðslega feiminn. Gamall maður með grátt skegg og bláan sólhatt og svuntu stóð við hliðina á henni. Hann leit á mig. Ég leit undan. Ég vildi ekki láta bera of mikið á því hversu hrifin ég var í raun og veru. Hugsun laust upp í huga mínum. Ég varð að komast nær henni, sjá hana betur, jafnvel fá að snerta hana.

Ég borgaði svaladrykkinn minn án þess að taka augun af henni. Ég virtist greinilega vera utan við mig því að þjóninn spurði vingjarnlega hvort eitthvað væri að. Ég hristi hausinn brosandi og rétti honum fimmhundruðkall. Síðan gekk ég rólega aftur út á torgið. Í átt að henni.

Við hvert skref færðist ég nær henni. Og við hvert skref sló hjarta mitt hraðar. Á endanum komst ég til hennar. Gamli maðurinn við hlið hennar brosti til mín.
„Blessuð blíðan í dag,“ sagði hann vingjarnlega og ég kinkaði kolli til hans.

Ég hefði gjarnan viljað tala betur við þennan gamla karl, sem leit svo vinalega út en nú komst bara eitt að hjá mér. Og það var hún.

Ég hallaði mér að henni. Hún var ofboðslega nálægt. Og svo kom ég létt við hörund hennar. Sæluhrollur hríslaðist niður hrygginn og ég brosti útað eyrum. Gamli karlinn horfði brosandi á mig.
„Ætlarðu að fá þessa?“ spurði hann. Ég horfði á hann. Hvernig gat hann sagt þetta. Ætlarðu að fá þessa? Hún var svo undursamleg. Svo miklu meira en bara þessi! Hún var ekki bara hluti af fjölda. Hún var einstök, sérstök! Sú eina af sinni gerð. Svo ótrúlega falleg.
„Já, ég ætla að fá hana,“ sagði ég ákveðinn.

Hann teygði sig eftir henni og rétti mér hana gætilega. „Gjörðu svo vel. Það verða 200kr. Viltu poka?“
Ég hristi höfuðið og rétti honum 200 krónur. Síðan gekk ég í burtu. Sælli en ég hafði nokkurn tímann verið. Þetta var besti dagur lífs míns. Hún var mín!

Ég hélt henni varlega upp að brjósti mínu. Gætti þess að hún myndi ekki kremjast í mannþröngvinni. Ég kom útaf torginu og settist aftur undir sólhlífina fyrir utan Café Múlús.

Ég lagði hana varlega á borðið og virti hana fyrir mér í nokkra stund. Síðan lyfti ég henni upp og byrjaði varlega að taka utan af henni. Mig langaði í hana núna. Ég beit gætilega í mjúkt holdið og safinn spíttist útum allt. Hún var svo ofboðslega safarík.

Þetta var safaríkasta og besta appelsína sem ég hafði nokkurn tímann smakkað!

Jæja, og hvernig fannst ykkur? ;)