Þar sem lítið hefur verið um innsendar greinar núorðið þá ákvað ég að skella inn hérna einni undurfagurri sögu um góðvinkonu mína og tilvonandi heimspeking og píanógúrú, hana Guðrúnu! Njótið.. :Þ


Ég hef tekið það að mér að rita sögu Guðrúnar Svavarsdóttur. Þið sem viljið heldur lesa indælar sögur um tyggjóklessur skuluð halda ykkur fjarri. Þetta er í raun tímamótaverk þar sem þetta er fyrsta langa smásagan. En ykkur sem líkar ekki við mig né Guðrúnu né aðra skuluð einnig halda ykkur fjarri!
Og geriðið það fyrir mig að klára þessa sögu ef þið eruð á annað borð byrjuð á henni!


Í dag hef ég ákveðið að bjóða upp á ljúffengan samsoðning úr afgöngum uppstigningardags, þremur desílítrum af bulli og slatta af hinu og þessu rugli sem hefur á daga okkar drifið. Þetta verður að sjálfsögðu matreitt með fingrasetningu…allavega að hluta til0
Ætli maður byrja ekki á orðunum sígildu

…Einu sinni var…

Lítil stúlka sem hét Guðrún. Hún átti enga vini en fullt af köttum þannig að hún var hamingjusöm. En einn daginn kom ill kona frá kattarráði Mbungu og tók kettina hennar Guðrúnar. Guðrún varð að sjálfsögðu niðurbrotinn kona(leiðréttinga)stúlka. Hún grét og grét nótt og dag í fimm mánuði. En þá höfðu öll tár hennar klárast þar sem hún hafði ekki drukkið nógu mikið vatn og þá grét hún þurrum tárum í viku. En eftir viku og fimm mánuði ákvað Guðrún, sem var annars mjög staðföst og hugrökk stúlka og ekki vön að gráta en hvað gerir maður ekki þegar illa kattakonan frá Mbunga kemur og tekur kettina þína, að hætta þessu væli og horfa fram á við og minnast orða langömmu sinnar sem var ávallt í góðu skapi en blótaði þó afar mikið: ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig! Og þannig orsakaðist það að Guðrún brosti dag og nótt í fimm mánuði. En eftir þann tíma var henni byrjað að verkja svo í andlitið að hún brosti andlitslausu brosi í viku á eftir. Eftir aðra fimm mánuði og viku uppgötvaði Guðrún að þetta væri ekki að bera árangur þar sem henni leið enn illa yfir hvarfi yndislegu kattanna hennar af heimilinu, og því ákvað hún að grípa til rótækari aðgerða. Nú voru einungis tvær vikur eftir af árinu(kettirnir höfðu verið numdir á brott þann 1.janúar)og Guðrún, sem var ekki bara staðföst og hugrökk stúlka heldur einnig hugmyndarík og óhrædd við að prófa nýjar leiðir, ákvað því að gera svolítið sem fáir höfðu gert áður. Það þurfti kjark til þess og(það fer um mig hrollur við að skrifa þessar ótrúlega fíldjörfu hugmynd niður en ég tel það skyldu mína)fleiri mannkosti sem Guðrún bar í brjósti sér(Þetta tengist alls engum brjóstum svo að þið sem sitjið hérna og lesið um brjóst og vonist eftir meiru, hypjið ykkur í burtu ógeðslegu perrar!) og hún hélt ótrauð áfram. Guðrún hafði ákveðið að taka það stóra skref, hversu fíldjarft sem það var, þó að henni hefði verið ráðlagt að gera það ekki, þó að ömmusystir hefði margbeðið hana um að sleppa þessari vitleysu og fara frekar á heilsubælið í Hveragerði(sem hún mælir eindregið með…Heilsubælið í Hveragerði - Þegar þú vilt hvílast!)Og þó að hún fengi sting í magann í hvert skipti sem hún hugsaði um það þá hélt hún ótrauð áfram, því að hún var eins og áður sagði bæði staðföst og hugrökk og einnig hugmyndarík og óhrædd við að prófa nýjar leiðir!

Guðrún hafði skráð sig í skóla! (Ó, ég skelf af viðbjóði, óbjóði og horbjóði!) Fyrsta daginn í skólanum gekk Guðrún óstyrkum skrefum að inngangi skólans. Hún dró djúpt andann og teygði sig eftir handfanginu á hurðinni. Og BAMM! Hópur af brjáluðum níundu bekkingum sem höfðu fengið að vita að íslensku kennarinn þeirra, hann Hjörtur, væri veikur og kæmi ekki í skólann til að kenna þeim, flýttu sér sem mest þeir máttu eins og til að sleppa áður en skólastjórnendum snerist hugur um að gefa þeim gat. (Ég tel mig bera skyldu til að segja ykkur að ég var ein/n af þessum brjáluðu níunda bekkingum sem hlupu greyið Guðrúnu niður og hefur það þjakað mig í mörg ár að hafa ollið þessari vansælu stúlku enn meiri þjáningum en hún þurfti nú þegar að ganga í gegnum) En Guðrún staðfasta hélt áfram för sinni, að vísu aðeins óhreinni og sjúskaðri en áður en enn sama Guðrún. Hún valhoppaði því inn í stofu sína og byrjaði að læra. Og allt í einu var komin apríl. Enn hefur ekki tekist að skýra af hverju tíminn leið skyndilega svona fljótt en sumir segja að Guðrún hafi einfaldlega ekki tekið eftir tímanum þar sem hún var á brúnum tveggja heima. Annars vega gamla heimsins síns þar sem hún hafði lifað í sátt og samlyndi með köttunum sínum og hinsvegar hinum brjálaða heimi grunnskóla á Íslandi. ÞESSI KENNING HEFUR EKKI VERIÐ SÖNNUÐ en fleiri og fleiri eru farnir að trúa henni. Á þessum tíma, ef það er hægt að kalla þetta tíma því að enginn veit hvað gerðist þarna, hafði Guðrún eignast fullt af vinum og hafði hún gleymt köttunum sínum. Uppstigningardagur nálgaðist óðum og þó að líf Guðrúnar væri nú fullt af gleði og fjöri þá gat hún ekki varist þeirri tilhugsun að eitthvað vantaði. Og svo einn daginn, miðvikudaginn 4.apríl sá Guðrún svartan kött ganga þóttalega yfir gangstétt tvo metra frá henni. í þann mund stökk snjóhvítur köttur niður úr tré og um leið og fjórði kötturinn trítlaði rétt fram hjá henni, svo nálægt að hún fann veiðihárin strjúkast við bera ökklana, hún var einmitt í ökklasokkum þennan dag, (ég ætla að nota tækifærið fyrst ég var nú að segja frá þessum köttum, og úthúða þessu fólki sem kann ekki að telja. Þvílíkir endemis letingjar og rassapar!)laust niður í huga hennar því sem hún hafði verið að reyna að koma orðum yfir allan þennan tíma, sem er enn mjög umdeildur. Kettirnir hennar voru horfnir. Í þann mund sem hún var að bresta í grát þá áttaði hún sig á því að hún hefði engan tíma til að eyða öðru ári í grát og bros. Hún ákvað því að skella sér í heimsókn til ömmusystur sinnar, sem hún hafði ekki séð í langan tíma, þessi tími er og verður ávallt umdeildur og það þýðir ekki að þræta um það! Og er Guðrún hélt af stað með strætisvagni ellefu til ömmusystur sinnar þá ljúkum við þessari sögu. Ykkur gæti þótt þessi endir ansi snubbóttur og snaggaralegur en svo er ekki. Þannig er nefnilega mál með vexti að í heimi Guðrúnar er allt snubbótt og snaggaralegt og ef það er ekki svo þá er það álitið undarlegt og framhleypið. En fyrir ykkur sem getið ekki sætt ykkur við þennan endi og viljið enn fá að vita hvað Guðrún gerði þá skal ég segja ykkur það.

Guðrún hóf knattspyrnuiðkun og trampólínhoppiðkun og stundaði það gífurlega vel, en á milli þess borðaði hún vöfflur og fletti orðabókum og landabréfabókum heima hjá ömmusystur sinni í von um að finna eitthvað um Mbungu eða Illu kattakonuna frá Mbungu. Þessi leit hennar bar því miður ekki árangur en kettirnir áttu alltaf stað í hjarta Guðrúnar og gleymdi hún þeim aldrei. Eftir fimm mánuði af stanslausum lestri í orðabókum og landabréfabókum gafst Guðrún upp. En þar sem hún var ekki bara staðföst og hugrökk heldur líka hugmynda og óhrædd við að prófa nýjar leiðir, las hún orðabækur og landabréfabækur í viku enn af miklum áhuga. En eftir fimm mánuði og eina viku ákvað hún að hætta leit sinni og búa frekar til góðar minningar um kettina. Hún safnaði því myndum og öðrum menjum og um kettina og skellti því öllu í eina bók. Sú bók, sem var með endemum þykk, var síðan gefin út af Bjarti, útgáfufyrirtæki sem gefur einnig út Harry Potter bækurnar á Íslandi, og seld í milljónum eintaka. Guðrún lifði því sátt til æviloka, kannski ekki eins hamingjusöm og hún hafði verið með köttunum en sátt við líf sitt eins og það var.
Og hér með lýkur þessum auka endi fyrir ykkur vanþakklátu lesendur sem geta ómögulega verið ánægðir með það sem þeir fá!

Kveð ég nú og mér finnst að miklar byrðar hafið verið af mér teknar. Ég hef hér ritað sögu Guðrúnar Svavarsdóttur í einu og öllu og sver að ég hef ekki ritað eitt logið orð.
Nú vona ég að framvegis munið þið líta á líf Guðrúnar þegar ykkur finnst líf ykkar ósanngjarnt. Ef sokkarnir ykkar eru allir óhreinir og það er ekki til rjómaostur verið þá þakklát fyrir að hafa ekki þurft að missa alla kettina ykkar á einu bretti. Horfið fram á við! Lífið er kannski ekki ein sæluvíma en það hefur upp á margt að bjóða eins og Guðrún komst að! Takið hana ykkur til fyrirmyndar!

Undirritað
XXX